Fréttir

Ræða formanns LL við lögreglumessu 1. maí s.l.

1 maí. 2008

Lögreglumenn og fjölskyldur, ágæta samkoma.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag.
Að fá að ávarpa ykkur við lögreglumessu.
Að fá að ávarpa ykkur á alþjóðlegum frídegi verkalýðsins.

Nýlokið er 29. þingi Landssambands Lögreglumanna, sem haldið var í Munaðarnesi. Þar var tekist á um ýmis mál, eins og vænta mátti en mér skilst á reyndari þingfulltrúum að þetta þing megi í raun kalla friðarþing. Þingið var mjög gagnlegt og gaf nýrri stjórn LL gott veganesti inn í komandi kjarasamninga.

Að þekkja sjálfan sig, trúa á sjálfan sig, krafta sína og köllun er hverjum manni hollt. Okkur ber þó að varast að treysta um of á eigin mátt og megin. Við lögreglumenn erum, eins og hverjir aðrir MANNLEGIR. Okkur verður á, við gerum mistök, við höfum líkamlegar og sálrænar þarfir, sem þarf að rækta og hlú að.

Þó yfirlýst markmið lögreglumessu séu að vera í léttara lagi verður ekki hjá því komist, á stundu sem þessari, að vekja athygli á mannlegum þáttum starfs okkar.

Starfið tekur á, bæði andlega og líkamlega. Líkamlegu átökin fara ekki leynt og því auðvelt að grípa þar inn í á réttan hátt er á þarf að halda. Hin andlegu átök blasa hinsvegar ekki við. Það er því oft ekki fyrr en í óefni er komið að þau verða ljós. Þá verður, því miður, oft lítið um úrræði og þeir sem í slíkum hremmingum lenda og þeir sem
að þeim standa ráðalitlir eða jafnvel ráðþrota.

Okkur hættir til, í starfi okkar, að setja upp grímu til að fela tilfinningar okkar. Það gerir það að verkum að við byrgjum innra með okkur vanlíðan okkar, sem að miklum hluta er tilkomin vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem störf okkar hafa á okkur sem persónur. Þeirra neikvæðu áhrifa, sem aðkoma að slysum, mannlegum harmleikjum og átökum hverskonar hefur á sálir okkar. Þeirra neikvæðu áhrifa sem sú staðreynd er að við erum í störfum okkar, í langflestum tilvikum, að eiga neikvæð samskipti við „viðskiptavini” okkar. Þessi átök, líkamleg og andleg, krefjast tolla af líkama og sál. Það að byrgja slíkt inni á bak við grímu einkennisfatnaðarins getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Afleiðingar sem við sjáum ekki sjálf. Afleiðingar sem við þurfum hjálp til að vinna okkur út úr.

Eitt af frumskilyrðum þess að okkur líði vel er að við höfum nóg að starfa og hæfilegan frítíma. Jafnvægið þarna á milli er oft vandfundið sér í lagi í starfi okkar því andlega áreitið sem við verðum fyrir í starfinu er meira en gengur og gerist í störfum almennt. Það hefur verið bent á það að iðjuleysi sé hættulegt heilsu fólks. Það sama gildir reyndar um ýmsar aðrar kringumstæður á vinnustöðum. Ég vil sérstaklega vekja hér athygli á tveimur þáttum þ.e. stjórnunarlegum og samskiptalegum en það eru einmitt þættir sem hafa bein áhrif á andlega líðan okkar. Breytingar á vinnustað og vinnuumhverfi eru einnig þættir sem nefndir hafa verið til sögunnar, sem áhrifavaldar á andlega líðan fólks í starfi. Kannanir og rannsóknir erlendis hafa sýnt það að góður félagslegur stuðningur á vinnustað er verndandi gegn skammtíma fjarvistum af völdum geðsjúkdóma.

Það er mikilvægt í þessu samhengi að minna á þær skyldur sem liggja fyrir um heilsuvernd starfsmanna s.s. að stuðla beri að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni, sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum en líka að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
Hefur þessi gata verið gengin til góðs innan lögreglu?

Í störfum mínum, bæði hérna heima og einnig á erlendri grundu á vegum Sameinuðu Þjóðanna hef ég horft upp á félaga mína brenna upp, ef svo má að orði komast. Brenna upp í amstri starfa sinna. Brenna upp fyrir augum félaga sinna án þess þó að félagarnir átti sig á því hvað er að gerast. Þegar sú staða hefur komið upp að lögreglumaður hefur brunnið upp hefur það, því miður, oft gerst að hann stendur einn í þeim raunum sem við honum blasa. Hann stendur jafnvel frammi fyrir því að félagar hans yfirgefi hann eða snúi við honum baki. Slíkt hef ég heyrt að gerst hafi innan okkar raða og er það miður.

Við verðum að átta okkur á því að engir þekkja starf okkar betur en við sjálfir – lögreglumenn. Engir eru betur til þess fallnir en við að ræða um starf okkar. Við erum kannski ekki eins vel til þess fallnir að átta okkur á því ástandi sem við erum sjálf í hverju sinni. Þar kemur til hjálp félaga okkar – félagastuðningur.

Þó nokkuð hefur verið skrifað um félagastuðning og áfallahjálp, bæði hér heima og erlendis og svo vill nú til að annar þeirra presta, sem hér þjóna í dag, skrifaði einmitt lokaritgerð sína um áfallahjálp m.t.t. lögreglumanna enda rann honum blóðið til skyldunnar á þeim tíma þar sem hann starfaði einmitt sem lögreglumaður um langa hríð. Hingað til hefur lítið verið um úrræði til hjálpar á slíkum stundum þó þau hafi vissulega verið fyrir hendi en eins og flestir hér inni, væntanlega vita, var Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson fenginn að embætti lögreglustjórans í Reykjavík á sínum tíma til að sinna áfallahjálp fyrir lögreglumenn. Nú horfir til enn betri vegar með því að hrint hefur verið í framkvæmd verkefni um félagastuðning og áfallahjálp til handa lögreglumönnum hjá ríkislögreglustjóranum og tekið er á þessum málum í stefnumótun lögregluembætta um allt land.

Afar þarft og brýnt verkefni, sem þarf að leggja mikinn kraft í. Afar þarft og brýnt verkefni sem, ef því fylgir ekki fjármagn, viðurkenning og skilningur í starfi embættanna, því miður gæti orðið andvana fætt. Slíkt hafa lögreglumenn alltof oft séð með góða hluti sem lagt hefur verið af stað með. Það er innileg von mín að með því verkefni, sem hrundið hefur verið af stað hjá ríkislögreglustjóranum megi koma í veg fyrir kulnun lögreglumanna í starfi. Að með því megi aðstoða þá félaga okkar sem orðið hafa fyrir andlegum áföllum í því gríðarlega erfiða starfi sem við gegnum.

„Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur”
var sagt um Jón Sigurðsson. „Sverð og skjöldur” eru orð sem viðhafa má um lögregluna, sér í lagi ef horft er til þess að eitt af einkennum okkar er einmitt sverð og skjöldur. Sverð og skjöldur á sexhyrndri stjörnu. Stjörnu sjálfs Davíðs, konungs Ísraelsmanna. Ekki veit ég hvort margir hafi skoðað einkenni lögreglunnar út frá þessum forsendum en þarna blasa þau við okkur og þjóðinni á hverjum degi. Íslenskri kristinni þjóð.

Í fjölmiðlaumræðu liðinna daga og vikna veltir maður því hinsvegar fyrir sér hvort fyrri hluti setningarinnar „Óskabarn Íslands, sómi þess” sé eitthvað sem viðhaft er um lögreglu í dag. Fjölmiðlar hafa, í gegnum tíðina, verið iðnir við að höggva í störf lögreglu. Margt af því sem þar er ritað er byggt á vanþekkingu á hvorutveggja tilgangi og uppbyggingu lögreglu og störfum hennar. Hér skiptir máli, til að snúa slíkri umræðu við, að við sjálf séum iðin við að útskýra lögregluna og hlutverk hennar. Þetta er í raun það sama og á við er kemur að andlegum áföllum, sem við verðum fyrir í störfum okkar. Til að öðlast skilning á viðfangsefninu, sama hvert það er, er nauðsynlegt að ræða það. Orð eru til alls fyrst!

Ræða getur verið margvísleg. Hún getur falist í því að við sjálf ræðum um hlutina við þá sem við treystum. Ræðum við fjölskyldu og vini eða aðra þá sem við treystum í kringum okkur. Ræðum við sérfræðinga á sviði áfallahjálpar og félagastuðnings. Ræðum innra með okkur við æðri máttarvöld. Biðjum.

Hér getur trúin spilað stórt hlutverk. Hvort sem það er þessi gamla innprentaða barnatrú okkar eða betur skilgreind trú á lífið og tilveruna og tilgang hvorutveggja. Það er staðreynd, hvort sem við viljum kannast við það sem einstaklingar eður ei, að þegar í nauðirnar rekur leitum við innávið eftir svörum. Við áköllum lífsneistann í okkur. Við krefjumst svara við því sem aflaga fer.

Kæru félagar.
Það að trúa er að lifa. Að lifa er að trúa. Hver væri annars tilgangur göngu okkar hér á jörð. Hér er fróðlegt að velta fyrir sér spurningu heimspekingsins Friedrich Schelling.„Af hverju er yfirleitt eitthvað? Af hverju ekki ekkert?” (e: „Why is there anything at all? Why not nothing?”).

Kæru félagar.
Mig langar til að ljúka máli mínu hér með því að lesa upp fyrir ykkur ljóð sem Sr. Svavar Alfreð Jónsson prestur í Akureyrarkirkju samdi fyrir liðin jól.

Sé sál mín þreytt og þjáð
og þessi veröld grá,
ef engin á ég ráð,
sé engin svör að fá,
engin gefast grið,
glötun blasir við,
ljósið finnur leið,
líknin mína neyð.
Bænin vekur von og frið.

Sú bæn sem borin er
frá brjósti þjakaðs manns
til himinhæða fer
og hnýtt er þar í krans.
Öll þau óskablóm
áttu hvert sinn róm,
hrópið hjarta frá,
heit og einlæg þrá.
Bæn er ekki orðin tóm.

Þótt myrkrið mitt sé kalt
og margt sem ég ei skil,
er einn sem heyrir allt,
með öllum finnur til.
Upp í dimmum dal
dagur renna skal,
sálin þreytt og þjáð
þiggur ást og náð.
Bæn er aldrei eins manns tal.

Kæru félagar ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegs sumars.

Til baka