Fréttir

Grein um efnahagsmál – 24 stundir 12. júní 2008

12 jún. 2008

Landsmenn fara ekki varhluta af fréttum af döpru ástandi efnahagsmála, hækkandi eldsneytisverði, verðbólgu, versnandi afkomutölum margra fyrirtækja, samdrætti, uppsögnum starfsfólks o.s.frv.  Fréttir hafa nú einnig borist af stórauknum kostnaði lögreglunnar vegna hækkandi bensínverðs.  Í fréttinni, sem um ræðir, er jafnvel ýjað að því að lögreglan þurfi að grípa til þeirra ráða að draga úr starfsemi t.d. með því að fækka bílum.

Það hljóta að teljast alvarleg tíðindi ef lögregla, vegna bágrar fjárhagsstöðu sem skapast af utanaðkomandi aðstæðum, þarf að draga saman seglin í þeirri grunnöryggisþjónustu, sem henni bera að veita landsmönnum.  Það væri skelfilegt til þess að hugsa ef ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, nógu slæmt sem það er eitt og sér, yrði þess valdandi að sá árangur sem lögregla hefur verið að ná í þeirri viðleitni sinni til að skapa hér öruggara samfélag yrði fyrir gíg unninn.  Vonandi verður þetta ástand ekki til þess að fréttir berist af því að glæpum fjölgi í kjölfar opinberra aðhaldsaðgerða.  Vonandi verður þetta ástand ekki til þess að fréttir berist af því að fíkniefni hafi borist inn í landið af því að ekki voru til nægir fjármunir til að halda úti öflugri lög- eða tollgæslu á landamærum.  Vonandi verður þetta ástand ekki til þess að eftirlit lögreglu slakni eða leggist af tímabundið.  Vonandi verður þetta ástand ekki til þess að enn meiri atgervisflótti verði úr stétt lögreglumanna.  

Niðurstaðan, ef svo fer fram sem horfir, verður alltaf sú á endanum að kostnaðurinn, beinn eða óbeinn, lendir í pyngjum landsmanna.  Þá er þó betra til þess að vita að fjármunir hafi verið settir í það að efla eftirlit lög- og tollgæslu til að reyna að koma í veg fyrir að fíkniefni, í viðlíka magni og fundust nýverið á Seyðisfirði, komist inn í landið.  Þeim fjármunum væri vel varið, jafnvel þó þröngt sé í búi.

Vonandi, allra vegna, verður þetta ástand ekki viðvarandi.  Vonandi fara hjólin, í efnahagslífi þessa lands, að snúast hraðar.

Til baka