Fréttir

Kópavogsbær kaupir þjónustu öryggisgæslufyrirtækis

13 júl. 2008

Í frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu laugardaginn 12. júlí s.l. segir frá því að Kópavogsbær hafi ákveðið, líkt og Seltjarnarneskaupstaður, að kaupa eftirlitsþjónustu öryggisgæslufyrirtækis inn í bæinn. 

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segist vera að þessu til að auka öryggi íbúa Kópavogs þar sem að á sama tíma og innbrotum og skemmdarverkum hafi fjölgað hafi lögreglumönnum fækkað. 

Kópavogur er þar með orðið þriðja sveitarfélagið, á löggæslusvæði lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem, í örvæntingu, kaupir sér þjónustu einkaaðila til að halda uppi eftirliti öryggiseftirliti af einhverju tagi í sveitarfélaginu.  Eftirliti og öryggi sem hinu opinbera ber að sjá þegnum þessa lands fyrir.

Í fréttinni, sem má lesa hér, er einnig haft eftir Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi að hún sé sammála bæjarstjóranum með það að þeim þyki löggæsla í Kópavogi hafa liðið fyrir sameiningu lögregluembættanna í borginni.

Í greininni er haft eftir Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að það standist ekki að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi liðið fyrir sameininguna og að lögreglumönnum hafi hlutfallslega fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.  Þá segir hann einnig „Við glímum hinsvegar við rekstrarvanda auk þess sem að mannekla hefur hrjáð okkur.“  

Lögreglufélag Reykjavíkur og Landssamband Lögreglumanna hafa, margsinnis, lýst yfir áhyggjum sínum af manneklu og fjárskorti embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Staðreynd, sem nú er einnig farin að heyrast frá yfirstjórn embættisins.

Þetta sorglega sambland manneklu og fjárskorts er ástand, sem því miður hrjáir mjög mörg af lögregluliðum landsins.  Ekki er útséð með að ástandið lagist neitt á næstunni m.a. vegna afar lágra launa lögreglumanna.  Laun nýútskrifaðs lögreglumanns eru kr. 181.202,- fyrir skatta!

Formaður LL var í sjónvarpsviðtali á RÚV í gær, laugardaginn 12. júlí, vegna þessa máls.  Viðtalið má sjá og heyra hér.

Til baka