Fréttir

„Rétt svo forsvaranlegt“

16 júl. 2008

myndEr fyrirsögn á frétt á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag, 16. júlí 2008 en þar er vitnað í orð Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.  Í greininni, sem hefst á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „14 lögreglumenn á vakt“ er fjallað um fjölda lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu fyrir og eftir sameiningu embættanna þriggja.

Í greinninni kemur fram að fyrir sameiningu hafi 87 lögreglumenn verið á vakt frá kl. 07:00 að morgni föstudagsins 14. júlí til kl. 07:00 að morgni laugardagsins 15. júlí 2006.  Til samanburðar voru 72 lögreglumenn á vakt á sama tímabili föstudaginn 11. júlí til laugardagsins 12. júlí 2008 þ.e. eftir sameiningu embættanna þriggja.  Þessar tölur, sem fengnar munu vera frá embættunum sjálfum, staðfesta það sem fram hefur komið ítrekað, bæði hjá LL og lögreglufélögunum á höfuðborgarsvæðinu að fækkun hafi orðið á almennum vöktum.  Á viðmiðunartímabilinu, sem um ræðir, er fækkunin 18%.

Á forsíðu Morgunblaðsins eru athyglisverðar tölur settar fram en þar kemur fram að laugardaginn 12. júlí s.l. hafi 14 lögreglumenn verið á kvöldvakt á höfuðborgarsvæðinu.  Íbúafjöldi er sagður hafa verið 195.970 manns þann 1. desember 2007.  Ef deilt er í íbúafjöldatöluna, með þeim fjölda lögreglumanna sem var á vakt á þessum tíma kemur í ljós að 13.998 íbúar voru á hvern lögreglumann á vakt umrætt kvöld.  Til samanburðar er gaman að geta þess hér að á Akureyri voru 17.253 íbúar 1. desember 2007.  Ef þessar tölur væru yfirfærðar á Akureyri hefði verið rétt rúmlega 1 lögreglumaður á kvöldvakt laugardaginn 12. júlí s.l. 

 

Til baka