„Pípulagnir í lögreglunni“ – um launakjör lögreglumanna – Morgunblaðið 31. júlí 2008
31 júl. 2008
„Mér var brugðið við lestur fréttar á fréttavefnum visir.is föstudaginn 25. júlí s.l. en þar birtist grein um afar léleg laun leiðbeinenda hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Í greininni var skýrt frá því að leiðbeinandi hjá ÍTR, á aldrinum 20 – 25 ára, hafi í grunnlaun rétt undir 178.000,- kr. Mér var brugðið af því að grunnlaun lögreglumanns sem nýlega hefur lokið námi frá lögregluskóla ríkisins og vinnur 100% vaktavinnu eru 181.202,- kr! Nánast sömu laun og leiðbeinandi hjá ÍTR hefur. Fréttin á visir.is var í raun um þá staðreynd að leiðbeinendur, á sama aldri, hjá vinnuskóla Reykjavíkur eru með rétt undir 149.000,- kr. í grunnlaun. Lægsta upphæð grunnlauna í launatöflu Landssambands Lögreglumanna er 138.513,- kr!
Lögreglumenn hafa dregist aftur úr öðrum stéttum þegar kemur að launaþróun. Lögreglumenn hafa, líkt og aðrir opinberir starfsmenn dregist aftur úr stéttum á hinum almenna vinnumarkaði þegar kemur að launaskriði.
Lögreglumenn hafa, lögum skv, ekki verkfallsrétt. Lögreglumönnum er skylt, lögum skv, að vinna yfirvinnu meira en almennt gerist meðal opinberra starfsmanna. Lögreglumönnum er óheimilt, lögum skv, nema með sérstöku samþykki sinna yfirmanna að verja frítíma sínum í öðrum launuðum störfum. Lífaldur lögreglumanna er talsvert styttri en gerist meðal annarra launþega.
Gríðarlegt brotthvarf hefur verið úr röðum lögreglumanna allan þann tíma sem ég hef sinnt þessu starfi, sem telur á þriðja tug ára. Allan þann tíma hefur jafnan verið sagt að þetta sé nú svo sem hægt að laga með því að koma fleiri lögreglunemum í gegnum lögregluskóla ríkisins. Einn starfsfélagi minn komst þannig að orði að ástandið væri svipað því að pípulagningmaður uppgötvar að gat er á lögn hjá honum en í stað þess að finna og laga gatið ákveður hann að auka þrýstinginn á lögninni til að ná meira vatni út um endann á henni. Gott og blessað svo sem en það sér hver maður að slíkt gengur ekki til lengdar. Hvað með alla fjárfestinguna, sem lögð var í þá sem hverfa úr starfi? Af hverju er ekki reynt að halda í og nýta þá fjárfestingu lengur? Af hverju er ekki reynt að fá aftur til starfa þá sem horfið hafa úr stéttinni? Bæru slík vinnubrögð ekki vott um ráðdeildarsemi og þar með í raun aðhald í ríkisrekstri? Eins og staðan er nú koma lærðir lögreglumenn, sem horfið hafa til annarra starfa, ekki aftur til starfa vegna þess að grunnlaunin eru einfaldlega alltof lág fyrir það álag og skerðingu persónufrelsis sem þeir verða fyrir sem velja sér það að starfa í lögreglu.
Í viðtali, sem birtist í fréttum RÚV föstudaginn 18. júlí s.l. sagði dómsmálaráðherra að mannekluvandi lögreglunnar leystist náttúrulega ekki nema menn fengjust til starfa í lögreglunni. Hverju orði sannara en staðreyndin er bara sú að fáir fást til starfa, eða ílengjast í starfi, sem býður upp á rétt rúmar 181.000,- kr. í grunnlaun. Þarna liggur vandi „pípulagningamannsins” og rótin að „leku lögninni”. Grunnlaun lögreglumanna þarf að leiðrétta.
Spurningin, sem ég velti upp í grein í Fréttablaðinu 17. mars s.l, um „Að vera, eða vera ekki, í lögreglunni?” brennur enn á vörum margra starfsfélaga minna. Ég fullyrði – enn og aftur – aldrei eins oft og undanfarin misseri! Margir munu svara henni, hver fyrir sig, er nær dregur hausti og um leið og einhver mynd fer að komast á kjaraviðræður lögreglumanna við hið opinbera.
Áðurtilvitnaður starfsfélagi minn tók saman í eina setningu inntak lögreglustarfsins á þá leið að lögreglumönnum er ætlað að koma inn aðstæður sem allir aðrir forðast. Ef ástandið er þannig að þú flýrð frá því þá kallar þú á lögregluna! Hvað fyndist þér lesandi góður sanngjarnt að fá í laun fyrir að sinna slíku starfi?
Það er hægt að gera við leku lögnina. Það er hægt að snúa við þeim lögreglumönnum, sem hafa horfið frá starfi eða eru ákveðnir í að hverfa til annarra starfa og þar með endurheimta mikla og dýra fjárfestingu ríkissjóðs í menntun og þjálfun þessa fólks. Í haust ræðst það hvort gert verður við leku lögnina eða hún látin leka áfram.”