Fréttir

„Uppsagnir blasa við hjá lögreglunni“

28 ágú. 2008

Er yfirskrift fréttar á bls. 2. í Fréttablaðinu í dag fimmtudaginn 28. ágúst.  Í fréttinni er fjallað um bága rekstrarstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem og hjá lögreglustjóranum á Selfossi.  Í viðtali við Fréttablaðið segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, það borðleggjandi að embættið verði að fækka um að minnsta kosti fjóra lögreglumenn um áramótin verði fjárlög í ár byggð á sama grunni og í fyrra. 

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, vildi ekki tjá sig við fréttamann Fréttablaðsins þar sem málið væri í skoðun í dómsmálaráðuneytinu.

Á baksíðu Skessuhorns, fréttaveitu Vesturlands, miðvikudaginn 20. ágúst s.l. eru fréttir af bágri fjárhagsstöðu embættis lögreglustjórans á Vesturlandi.  Í viðtali við Skessuhorn kvaðst Stefán Skarphéðinsson, sýslumaður í Borgarnesi, neyðast til að fækka lögreglumönnum og bílum ef ekki fáist auknar fjárveitingar til reksturs embættisins.

Þessar fregnir koma til viðbótar þeim fréttum sem fluttar hafa verið af viðvarandi rekstrarvanda lögreglustjórans á Suðurnesjum.

LL hefur allt liðið ár og í langan tíma þar á undan vakið athygli á þessum rekstrarvanda embættanna og bent á að ef ekki komi til auknar fjárveitingar til reksturs þeirra sé þeim góða árangri sem stefnt var að með stækkun og sameiningu lögregluembættanna stefnt í voða sem og þeim markmiðum sem sett voru fram í löggæsluáætlun 2007 – 2011.

Álag á lögreglumenn hefur aukist, er enn að aukast og mun klárlega aukast enn frekar ef staðan, sem lýst er í fréttum Fréttablaðsins og Skessuhorns, gengur eftir.  Þetta síaukna álag ofan á arfaslök launakjör lögreglumanna hleypir illu blóði í þá sem enn eru við störf.

Fréttina í Fréttablaðinu má lesa hér.

Til baka