Fréttir

Enn árangurslaus fundur ljósmæðra!

1 sep. 2008

Enginn árangur varð af fundi ljósmæðra sem haldinn var með samninganefnd ríkisins í dag.  Á félagsfundi í Ljósmæðrafélagi Íslands, sem haldinn var í kvöld að afloknum fundahöldum með samninganefnd ríkisins var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Ljósmæður í Ljósmæðrafélagi Íslands harma þá stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum félagsins við samninganefnd ríkisins. Ljósmæður sjá nú fram á að þurfa að beita þeim neyðarrétti sem verkfallsaðgerðir eru. Vilji ljósmæðra er eftir sem áður að semja sem fyrst. Kröfur ljósmæðra eru síður en svo nýjar af nálinni en þeim hefur verið haldið á lofti síðustu 10 árin. Launaleiðrétting stéttinni til handa er löngu tímabær og kröfur ljósmæðra réttmætar í ljósi menntunar og ábyrgðar í starfi. Ljósmæður krefjast þess að störf þeirra verði metin til jafns á við störf annarra stétta hjá ríkinu með sambærilega menntun. Ljósmæður lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Íslands og skora á hana að koma í veg fyrir að þjónusta við barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra skerðist.“

Allt útlit er því fyrir því að ljósmæður fari í verkfall frá og með n.k. fimmtudegi, náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Kröfur ljósmæðra, sem áréttaðar eru í ályktun félagsfundarins, eru síður en svo langt frá veruleika lögreglumanna, fyrir utan það auðvitað að við höfum ekki verkfallsréttinn til að knýja á um gerð kjarasamninga við lögreglumenn!

Hægt er að lesa meira á mbl.is hér og sjá og lesa hér.

 

 

Til baka