Fréttir

Fimmti fundur samninganefnda

22 okt. 2008

Fimmti fundur samninganefnda LL og ríkisins (SNR) var haldinn í húsnæði ríkissáttasemjara í gær, þriðjudaginn 21. október.

Loft var frekar lævi blandið í húsnæði ríkissáttasemjara þar sem fundir stóðu yfir í þeim efnahagshópum, sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari var fenginn til að stýra.  Þarna mátti sjá marga erlenda fjármálasérfræðinga og bankamenn sem voru í óðaönn að vinna að einhverjum tillögum, væntanlega um það hvernig hægt yrði að leysa úr þeim gríðarlegu þrengingum sem efnahagslíf þjóðarinnar er komið í.

Á fundinum kom fram, sem áður, að ekkert annað er í boði en kr. 20.300,- sem flöt krónutöluhækkun ofan á allar launatölur í töflu.  Allt umfram það, inn í launatöflu, var blásið út af borðinu. 

Þá var því afar skýrt komið á framfæri við viðræðunefnd LL að 30.000,- kr. álagsgreiðslan hafi verið sett á tímabundið til 31. október og við það stæði! 

Í ljósi þeirra aðstæðna, sem álagsgreiðslunni var komið á á sínum tíma og þeirra viðræðna sem þá áttu sér stað á milli fyrrverandi formanns LL og formanns SNR leitaði viðræðunefnd LL eftir því við Svein Ingiberg Magnússon, fyrrverandi formann LL, að hann kæmi inn á þennan fund nefndarinnar til halds og trausts.  Sveinn Ingiberg varð að sjálfsögðu við þeirri beiðni.  Viðræðunefnd LL hafði reyndar einnig fengið hann inn á fjórða fundinn sem haldinn var þann 18. október s.l. undir sömu formerkjum og hér að ofan koma fram. 

Eru Sveini Ingiberg færðar miklar þakkir fyrir aðstoð hans og aðkomu að fundunum.

Til baka