Fréttir

„Enn og aftur um launakjör lögreglumanna“ – Morgunblaðið 30. nóvember 2008

30 nóv. 2008

Í Morgunblaðinu 21. nóvember s.l. var umfjöllun Önundar Páls Ragnarssonar um launakjör lögreglumanna almennt og meðlima sérsveitar ríkislögreglustjórans sérstaklega.  Fréttin var tilkomin vegna fyrirspurnar Kolbrúnar Halldórsdóttur þingmanns VG til dómsmálaráðherra um launakjör lögreglumanna sem starfa í sérsveit RLS.

 

Í fréttinni kemur fram að lögreglumenn höfðu, að meðaltali, kr. 540.000,- í mánaðarlaun á s.l. ári og meðlimir í sérsveit RLS að meðaltali tæpar 618.000,- kr.

 

Ég ætla ekki að efast um tölur sem ráðherra leggur fram í svari sínu til Alþingis, en rétt er að öllum staðreyndum málsins sé haldið til haga þegar slíkar fréttir birtast í fjölmiðlum enda upplýsingar um meðalheildarlaun lögreglumanna villandi. 

 

1.       Til að finna út slíkar tölur hefur dómsmálaráðuneytið, væntanlega, deilt með heildarfjölda ALLRA lögreglumanna á landinu í þá heildarupphæð sem greidd er sem launakostnaður við lögreglu.  Þarna er því, væntanlega, enginn greinarmunur gerður á störfum lögreglumanna.

2.       Inni í slíkri meðaltalsheildarupphæð eru ALLAR yfirvinnugreiðslur, sem og vaktaálagsgreiðslur, bakvakta- og aðrar álagsgreiðslur – t.d. bifhjólaálag sem greitt er til lögreglumanna sem vinna á mótorhjólum, vopnaburðarálag sem greitt er til lögreglumanna sem vinna dags daglega með skotvopn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar o.s.frv.  Hér ætti svo ekki að þurfa að skýra það sérstaklega – geri það þó – að greiðslur vegna yfirvinnu, vaktaálags og aðrar slíkar álagsgreiðslur eru greiðslur sem lögreglumenn eru að fá fyrir AUKIÐ ÁLAG í starfi UMFRAM lögbundna 40 klst. vinnuviku t.d. vegna vinnu að næturlagi, um helgar, jól, áramót o.s.frv.

3.       Þarna inni er væntanlega líka álagsgreiðslan kr. 30.000,- sem lögreglumenn hafa notið, tímabundið, í hverjum mánuði, frá október 2007.

4.       Réttara hefði verið, í þessari fréttaskýringu, að gera greinarmun á grunnlaunum, annarsvegar og heildarlaunum hinsvegar en þá sést að grunnlaun eru í kringum 1/3 til 1/2 af heildarlaunaupphæðinni.

 

Til frekari fróðleiks fyrir lesendur tek ég launakjör mín sem rannsóknarlögreglumaður við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en ég hóf störf við embættið árið 1984.  Þann 1. nóvember s.l. voru heildarlaun mín kr. 297.963,- og þar inni í er 30.000,- kr. álagsgreiðslan sem ég nefni hér að ofan í lið 4.  Útborguð laun mín, eftir skatta, voru kr. 205.378,-.  Það er engin aukavinna inni í þessum tölum, né bakvaktir enda vann ég hvorki yfirvinnu né bakvaktir í októbermánuði s.l.  Ég mun birta umræddan launaseðil minn á heimasíðu Landssambands Lögreglumanna (LL) www.ll.bsrb.is fyrir þá sem áhuga hafa á að skoða hann sérstaklega.  Hér vantar því litlar 242.037,- kr. upp á það að ég nái þeim launum sem tilgreind eru í umræddri frétt.

 

Lægsta tala grunnlauna í launatöflu LL, fyrir hækkun þann 1. nóvember s.l. var kr. 138.513,- (+ 20.300,- sem er umsamin launahækkun skv. síðustu samningum sem gerðir voru).  Þessi grunnlaun eru það sem ófaglærður einstaklingur þiggur á mánuði fyrir að sinna störfum lögreglumanns á sólarhringsvöktum (ofan á þessi grunnlaun kemur svo, að sjálfsögðu, vaktaálag en það hef ég skýrt hér að ofan í lið 2.).  Þessi upphæð er rúmum tvö þúsund krónum (2.000,-) hærri en atvinnuleysisbætur.  Grunnlaun útskrifaðs lögreglumanns, fyrir hækkun þann 1. nóvember s.l. voru kr. 181.202,-.

 

Þá tel ég rétt að leggja á það áherslu að sérsveit lögreglu er hluti af mjög nauðsynlegum viðbragðsáætlunarhluta lögreglu og hluti af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands t.d. vegna staðsetningar Keflavíkurflugvallar sem neyðarflugvallar í Norður-Atlantshafi.  Óvarlegt er af óupplýstum að fjalla um málefni sérsveitar ríkislögreglustjórans á þann veg sem gert hefur verið, bæði af hinu háa Alþingi sem og fjölmiðlum þ.e. að um sé að ræða einhverja „elítu“ sem jafnvel sé óþarfa bruðl.  Hér mætti, sem dæmi, taka viðbragðsbúnað slökkviliðs.  Ef skoðað væri, ofan í kjölinn, og meðaltalsmælt, hversu oft slökkvilið notar allan sinn neyðarviðbragðsbúnað kæmi hugsanlega í ljós að slík tilvik væru það fá að nóg væri að vera með tvo til þrjá slökkvibíla á öllu landinu.  Það sér hver heilvita maður að ekki er hægt að miða viðbúnað, sem nota á í neyðartilvikum, við slíkan meðaltalsútreikning.  Sama saga væri uppi ef t.d. vegagerð ríkisins miðaði smíða brúa í vegakerfi landsins við meðalþyngd ökutækja nú eða landsvirkjun miðaði smíði rafmagnsmastra við meðalvindstyrk á landinu.  Ekkert slíkt myndi standast ítrustu kröfur sem gera þarf til slíkra hluta.  Það leiðir því af sjálfu sér að lögregla getur ekki miðað neyðarviðbúnað sinn við meðaltöl af neinu tagi.

 

Að lokum er rétt að taka það fram hér að ég er algerlega sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur að nauðsynlegt er að grunnlaunakjör lögreglumanna verði leiðrétt.  Það er enda sameiginlegt markmið LL og dómsmálaráðuneytisins.

Til baka