Fréttir

Lögreglumaður kinnbeinsbrotinn!

31 des. 2008

Lögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kinnbeinsbrotnaði við skyldustörf sín í dag á Austurvelli.  Hópur mótmælenda hafði safnast saman við Hótel Borg þar sem fram fór bein útsending á Kryddsíld Stöðvar Tvö. 

Mótmælendur höfðu rofið útsendingu Stöðvar Tvö á Kryddsíldinni, með því að skemma tæknibúnað og reyndu þeir einnig að ryðjast inn á Hótel Borg m.a. með þeim afleiðingum að starfsmaður Stöðvar Tvö slasaðist í atganginum. 

Lögregla þurfti að grípa inn í atburðarásina og urðu afleiðingarnar m.a. þær að grjóti var grýtt í andlit lögreglumanns sem hlaut af kinnbeinsbrot.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglumenn slasast við skyldustörf sín í kringum þau mótmæli sem orðið hafa undanfarnar vikur í kjölfar bankahrunsins svokallaða.  Þannig slasaðist lögreglumaður í þeim átökum sem urðu við lögreglustöðina við Hverfisgötu í kjölfar þess að hópur mótmælenda braust, með valdi, inn á stöðina.  Þá slösuðust tveir lögreglumenn í mótmælum þegar lögregla þurfti að hlutast til um að þingpallar Alþingis yrðu ruddir í kjölfar mótmæla sem brutust þar út og störf lýðræðislega kjörins þings Íslendinga voru rofin. 

Svo virðist sem reiði almennins sé í síauknum mæli farin að brjótast fram í ofbeldi gegn lögreglu, sem hefur það hlutverk m.a. að tryggja almannareglu í samfélaginu. 

Svo virðist sem svokallaðir “mótmælendur” séu farnir að persónugera það ástand, sem skapast hefur í þjóðfélaginu í kjölfar þeirrar kreppu sem Íslendingar og aðrir íbúar þessarar jarðar þurfa að glíma við, í lögreglu þessa lands.  Það er miður að svo sé komið.

Lesa má meira um mótmælin á vefjum mbl.is og visir.is m.a. hér.

Til baka