Fréttir

Opið bréf til forsætisráðherra

14 jan. 2009

Eins og fram kemur í frétt hér á þessari síðu, þann 10. janúar s.l, þá birtist viðtal við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í fréttum Stöðvar 2, þriðjudaginn 6. janúar s.l. vegna mótmælanna sem urðu við Hótel Borg, á gamlársdag 2008, vegna útsendingar Kryddsíldar Stöðvar 2. 

Í viðtalinu sagði forsætisráðherra það hörmulegt að skemmdir hafi verið unnar á tækjabúnaði Stöðvar 2 og að starfsfólk Hótel Borgar og Stöðvar 2 hafi orðið fyrir meiðslum vegna mótmælanna.  LL tekur heilshugar undir þessi orð forsætisráðherra. 

Það sem hinsvegar vakti athygli, í þessu viðtali, var að ekki var minnst einu orði á það að lögreglumaður hafi verið kinnbeinsbrotinn í þessum aðgerðum er grjót, sem fleygt var í átt að lögreglu, lenti í andliti hans.

Í tilefni af þessu ritaði formaður LL opið bréf til forsætisráðherra, sem birtist á bls. 23 í Morgunblaðinu þann 13. janúar s.l.  Þá var formaðurinn einnig í viðtali í „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni þann sama dag, vegna bréfsins.

Bréf formanns LL til forsætisráðherra má lesa hér fyrir neðan með því að smella á hlekkinn „Lesa meira“.

„Opið bréf til forsætisráðherra.“

 

Komdu sæll Geir H. Haarde

 

Það kom mér talsvert á óvart að sjá og heyra viðtal við þig í kvöldfréttum Stöðvar 2 að kvöldi þriðjudagsins 6. janúar s.l. en þar varst þú að tjá þig um mótmælin sem áttu sér stað utan við Hótel Borg á gamlársdag 2008. 

Það sem kom mér mest á óvart í viðtalinu við þig og olli mér hvorutveggja í senn, fyrir hönd lögreglumanna á Íslandi, sárum vonbrigðum og hugarangri auk þess sem það fyllti hjarta mitt ákveðnu vonleysi er kemur að umhyggju ríkisstjórnar þinnar gagnvart lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra var að heyra þig segja:  „Það er auðvitað hörmulegt að, að, að, menn skuli fara með ofbeldi og trufla svona útsendingu og skemma tæki og jafnvel valda einstökum starfsmönnum þarna, hótelsins og Stöðvar 2 líkamstjóni.  Það er ekki hægt að réttlæta slíkt.”.

 

Mér finnst rétt að benda þér á, svona ef þú skyldir ekki vera meðvitaður um það, að lögreglumaður var kinnbeinsbrotinn við skyldustörf sín þarna á þessum sama stað er hann fékk grjóthnullung í andlitið frá einum „mótmælanda”.  Það var, því miður, ekki að heyra á þér eða sjá í þessu viðtali, þar sem þú greinilega beindir orðum þínum að blaðamanni sjónvarps mbl.is, að þú værir meðvitaður um meiðsli lögreglumannsins eða hefðir af því áhyggjur að lögreglumenn séu að slasast í þeim mótmælum sem höfð hafa verið uppi s.l. ár gegn meintu aðgerðar- og ráðaleysi ríkisstjórnar þinnar í þeim öldudal sem Ísland hefur verið að ganga í gegnum undanfarin misseri. 

 

Þá þykir mér rétt, fyrst ég er að skrifa þér þessar línur að rifja eftirfarandi atburði upp fyrir þér, ef vera kynni að þú hefðir á þeim einhvern áhuga.

1.     Í mótmælum vörubifreiðastjóra gegn síhækkandi eldsneytisverði við Norðlingaholt í Reykjavík slasaðist lögreglumaður er hann fékk grjóthnullung í andlit sitt;

2.     Við Kirkjusand í Reykjavík í kjölfar sömu mótmæla, er vörubifreiðastjórarnir gerðu kröfu um að fá afhentar bifreiðar sínar, slasaðist lögreglumaður er hann var sleginn hnefahöggi í andlitið;

3.     Í kjölfar innbrots mótmælenda í anddyri aðalstöðvar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sem hefur staðið lokuð um langan tíma utan „venjulegs” skrifstofutíma vegna aðhaldsaðgerða, slasaðist lögreglumaður á hné;

4.     Í aðgerðum lögreglu vegna mótmæla á þingpöllum Alþingis hvar lögregla þurfti að ryðja þingpallana slösuðust tveir lögreglumenn auk eins þingvarðar;

 

Hér eru ekki tiltekin þau fjölmörgu atvik, þar sem lögreglumenn hafa orðið fyrir meiðslum í starfi s.l. ár en þau eru, eins og ég vona heitt og innilega að þú hafir einhverja vitneskju um, allnokkur og hafa, mörg hver, hlotið nokkra umfjöllun fjölmiðla.  Þá er þeim atvikum einnig gerð nokkuð góð skil í skýrslu ríkislögreglustjórans um ofbeldi gegn lögreglumönnum, sem gefin var út árið 2007 en þar kemur m.a. fram að meira en helmingur allra lögreglumanna á Íslandi hefur orðið fyrir líkamsmeiðingum í starfi.  Í sömu skýrslu kemur fram að rúm 64% lögreglumanna hafa orðið fyrir hótunum um ofbeldi gagnvart sjálfum sér og eða fjölskyldum sínum.  Hótunum sem þeir hafa tekið alvarlega.  Ofan á þetta finnst mér rétt að benda þér á að lífaldur lögreglumanna er, skv. erlendum rannsóknum, sem einnig hefur fengið staðfestingu í könnun, sem LL hefur gert meðal íslenskra lögreglumanna, u.þ.b. tíu árum styttri en almennt gerist.

 

Um áraraðir hefur krafan um aðhald í ríkisrekstri þrengt svo að rekstri lögreglu í landinu að nú er svo komið, að mati Landssambands lögreglumanna, að ekki verði lengur við unað enda almenn hagræðingarkrafa ríkissjóðs á lögreglu farin að hafa slík íþyngjandi áhrif á rekstur lögreglu að öryggi lögreglumanna og lífi þeirra er ógnað.

 

Lögreglumenn eru fagmenn, sem vinna störf sín af alúð og vandvirkni í hvívetna og munu, að sjálfsögðu, gera áfram.  Lögreglumenn leggja líf sitt og æru að veði við framkvæmd starfa sinna í þágu lands og þjóðar, það sannar dómaframkvæmd hér á landi.  Starfa sem allir sjálfskipaðir sérfræðingar heimsins þykjast hafa meira vit á hvernig skuli framkvæmd en fagmennirnir sem menntaðir eru til starfans.  Það sem við krefjumst er að okkur sé sýnd sú lágmarksvirðing, sem mikilvægi starfans krefst.     

 

Mér þykir það afar leitt að þurfa að íþyngja þér með þessum orðum mínum, þar sem ég veit að þú og ríkisstjórn þín hafið nóg á ykkar könnu þessa dagana m.a. við það að leita leiða við frekari niðurskurð í ríkisrekstri, til að standa skil á gríðarlegum skuldum þjóðarbúsins í kjölfar gengdarlauss dans fáeinna einstaklinga þessarar þjóðar í kringum gullkálfinn.  Á sama tíma eru gerðar meiri kröfur til lögreglu af hálfu ríkisvaldsins.  Málið er bara, eins og ég sagði í upphafi bréfs þessa, að ég er bæði sár og reiður og hjarta mitt farið að fyllast ákveðnu vonleysi er kemur að ljósglætum í löggæslumálum þessarar þjóðar og réttindamálum lögreglumanna.

 

Hafðu annars þökk fyrir allt og allt.

 

Virðingarfyllst,

 

Snorri Magnússon

Formaður Landssambands lögreglumanna.

 

Til baka