Fréttir

Breyttar reglur í Styrktar- og sjúkrasjóði LL og Starfsmenntunarsjóði LL (STALL)

2 feb. 2009

Stjórnir ofangreindra sjóða hafa endurskoðað úthlutunarreglur lagt til breytingar sem stjórn LL hefur samþykkt og staðfest.  Nýjar reglur taka þegar gildi og eru birtar hér á heimasíðunni.

 

Í Styrktar- og sjúkrasjóði hafa reglurnar fengið töluverða „yfirhalningu“ og gerðar skýrari, bæði hvað varðar efnislegt innihald og ekki síður í útliti.  Helstu atriði sem má nefna eru; breyttar og rýmri reglur varðandi aðild, breytt fjárhæð sjúkradagpeninga (nú kr. 10.000 á dag en var áður 80% af meðalheildarlaunum síðustu 12 mánuði fyrir veikindi), flestar styrkfjárhæðir hækkaðar og vakin er sérstök athygli á aðstoð vegna sálfræðimeðferðar sem er gerð að sjálfstæðum úthlutunarlið og fjárhæðin verður nú kr. 4.000 í stað kr. 1.000 áður.  Þá er úthlutun fæðingarstyrks nú á hendi sjóðsins sbr. breytingar á kjarasamningi sl. haust og eru reglurnar einnig einfaldaðar á þann hátt að gegn framvísun fæðingarvottorðs barns og vottorði launagreiðanda um ráðningu og starfshlutfall (fyrir og eftir fæðingu barns) getur félagsmaður átt rétt á kr. 170.000 fæðingarstyrk og er það án tillits til þess hvort fæðingarorlof hafi verið tekið líkt og áskilið var skv. eldri reglum Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BSRB.  Afla þarf fæðingavottorðs barns og er unnt að nálgast það hjá Þjóðskrá, Borgartúni 24 en vottorð frá launagreiðanda um ráðningarkjör (eyðublað) verður unnt að nálgast á heimasíðu LL innan tíðar.

Í Starfsmenntunarsjóði voru styrkfjárhæðir hækkaðar og í dæmaskyni má nefna að hámarksstyrkur var hækkaður úr kr. 100.000 í kr. 140.000, styrkur vegna aukinna ökuréttinda hækkaður úr kr. 75.000 í kr. 85.000 og vegna sérhæfðs lögreglunáms erlendis úr kr. 100.000 í kr. 140.000 (hámarksstyrkur).  Jafnframt var gerð sú orðalagsbreyting vegna náms erlendis að tengja slíkt nám skólum sem bjóða sérhæft nám fyrir lögreglumenn.

Til baka