Fréttir

Þrekpróf – Þrekkröfur

6 feb. 2009

Í samræmi við ákvæði bókunar 2 og fylgiskjals 2 við framlengingsamkomulag kjarasamnings LL við fjármálaráðherra hefur Lögregluskóli ríkisins nú lokið við útfærslu þrekprófanna sem lögð verða til grundvallar greiðslu þrekálags til lögreglumanna.

 

Lögreglumenn eru hvattir til að kynna sér samkomulagið ítarlega en í því kemur m.a. fram að lögreglumenn geti lýst sig tilbúna í þrekpróf fyrir 15. febrúar n.k.  Í þeim tilgangi hefur LL hannað eyðublað, sem lagt er til að lögreglumenn nýti sér til að koma á framfæri, hver við sinn lögreglustjóra, þeirri yfirlýsingu sinni að þeir séu reiðubúnir í þrekprófin.  Eyðublaðið má nálgast hér.

 

Í þrekkröfunum er gert ráð fyrir að lögreglumenn undirgangist svokallað „Cooper“ hlaupa- / göngu- / sundpróf en próf þetta er viðurkennt þrekmælingarpróf.  Hlaupnir verða 2000 metar (2 km.) og gert er ráð fyrir því að hægt verði að hlaupa, hvorutveggja innan- eða utandyra (innandyra á hlaupabretti). 

 

Í gögnunum koma fram fjórir flokkar þ.e. „Lélegt“, „Nokkuð gott“, „Gott“ og „Mjög gott“.  Við útfærslu þrekprófanna er gert ráð fyrir að flokkurinn „Lélegt“ veiti ekki heimild til greiðslu þrekálags, flokkurinn „Nokkuð gott“ veiti heimild til greiðslu 50% álags (kr. 9.000,-) og flokkarnir „Gott“ og „Mjög gott“ veiti heimild til fullrar greiðslu (kr. 18.000,-). 

 

Til að standast þrekkröfurnar, í hvorum greiðsluflokki fyrir sig, þurfa lögreglumenn að standast hlaupa- / göngu- / sundprófið, sem og stöðvaæfingarnar, sem gerðar eru í framhaldi af hlaupa- / göngu- / sundprófinu.  Þó er gert ráð fyrir að menn geti „fallið“ í einni af fjórum stöðvaæfingum án þess að til komi skerðing greiðslunnar.   Stöðvaæfingarnar eru bekkpressa, hnébeygja, niðurtog og teygjuæfingar.

 

Sem dæmi til greiðslu fulls þrekálags (kr. 18.000,-) þarf lögreglumaður (karl), á aldursbilinu 40 – 49 ára að:

  • hlaupa 2 km að lágmarki á undir 14 mínútum;
  • lyfta 60% af líkamsþyngd sinni í bekkpressu en þó ekki yfir 50 kg. eða undir 30 kg, að lágmarki 8 sinnum;
  • standa upp (hnébeygja) af bekk, með létta stöng (til að tryggja jafnvægi viðkomandi) þar sem hné eru í 90 gráðum, að lágmarki 28 sinnum á undir 40 sekúndum;
  • að toga 60% af líkamsþyngd sinni í niðurtogi en þó ekki yfir 60 kg. eða undir 40 kg, að lágmarki 6 sinnum;
  • teygja, sitjandi á gólfi með iljar að kassa (0 línu) og beina fætur, að lágmarki 9 sm fram yfir 0 línuna.

Kona á sama aldursbili (40 – 49 ára) þarf að:

  • hlaupa 2 km að lágmarki á undir 16 mínútum;
  • lyfta 40% af líkamsþyngd sinni í bekkpressu en þó ekki yfir 35 kg. eða undir 20 kg, að lágmarki 8 sinnum;
  • standa upp (hnébeygja) af bekk, með létta stöng (til að tryggja jafnvægi viðkomandi) þar sem hné eru í 90 gráðum, að lágmarki 28 sinnum á undir 40 sekúndum;
  • að toga 40% af líkamsþyngd sinni í niðurtogi en þó ekki yfir 40 kg. eða undir 20 kg, að lágmarki 6 sinnum;
  • teygja, sitjandi á gólfi með iljar að kassa (0 línu) og beina fætur, að lágmarki 9 sm fram yfir 0 línuna.

Ef viðkomandi lögreglumaður, sem hér er tekinn í dæmaskyndi, getur ekki, einhverra hluta vegna hlaupið 2 km. er gert ráð fyrir að hann geti tekið sundpróf (allir lögreglumenn verða jú að vera syndir) og eru þá syntir 600 metrar, með frjálsri aðferð á undir 16 mínútum og 30 sekúndum og gert ráð fyrir að byrjað sé við bakka.  Sömu kröfur til karla og kvenna.

 

Kröfurnar eru auknar fyrir yngri aldursflokka og minni fyrir eldri aldursflokka.  Þá eru þær einnig aðrar fyrir konur eðli máls skv.

 

Lögreglustjórum mun verða falið að kynna kröfurnar fyrir sínum lögreglumönnum og með hvaða hætti og þá hvar og hvenær gert verði ráð fyrir því að þrekprófin verði þreytt fyrir hvert embætti fyrir sig.

 

Þrekkröfurnar og nánari útskýringar á þeim, fyrir hvern aldursflokk fyrir sig er hægt að nálgast hér eða með því að smella á tengilinn „Kjarasamningar“ hér til vinstri.

Til baka