Fréttir

Yfirlýsing til fjölmiðla frá Landssambandi lögreglumanna vegna mótmæla í Reykjavík og frétta af mögulegri aðstoð ríkislögreglustjóra Danmerkur

9 feb. 2009

Í kjölfar frétta af mögulegri aðstoð ríkislögreglustjóra Danmerkur við lögregluna á Íslandi í formi bifreiða, sem sérútbúnar eru til notkunar við óeirðir hverskonar, þykir Landssambandi lögreglumanna rétt að koma eftirfarandi á framfæri við fjölmiðla:

Það ástand sem ríkti í Reykjavík þá daga sem svokölluð „Búsáhaldabylting“ stóð yfir var grafalvarlegt.  Í þeim mótmælum sem áttu sér stað utan við Alþingi Íslendinga þar sem réttkjörið Þjóðþing Íslendinga var að störfum, sem og við Stjórnarráðið, skrifstofur réttskipaðs forsætisráðherra landsins urðu lögreglumenn fyrir grjót-, eggja- saur- og þvagkasti, svo eitthvað sé nefnt, hluta þeirra Íslendinga sem þar mótmæltu.  Sú framkoma, sem sá hluti mótmælenda sýndi af sér er stóð í slíku, er ekki einvörðungu vanvirða við það þjóðskipulag sem hér ríkir heldur að auki aðför að lýðræði og sjálfstæði þjóðarinnar.  Sem betur fer sýndi meirihluti mótmælenda stillingu og lýsti skoðunum sínum og mótmælti því ástandi sem hér ríkir innan þess, sem kallast getur eðlilegra marka.

Í þeim mótmælum, sem réttilega á stundum væri hægt að kalla óeirðir, slösuðust a.m.k. sjö lögreglumenn og hafa sumir þeirra ekki enn náð fullri heilsu á ný.  Sú staðreynd að sumir þegnar þessa lands skuli hafa gengið fram, gegn lögreglu landsins, með þessum hætti er dapurlegri en orð fá lýst. 

Það að fjölmiðlar þessa lands skuli reyna, í kjölfar þess neyðarástands sem hér ríkti, að gera aðgerðir ríkislögreglustjórans, til að tryggja öryggi lögreglumanna sem stóðu vaktina í þessum mótmælum, tortryggilegar með yfirlýsingum á borð við þær að ríkislögreglustjórinn hafi ætlað að flytja inn „óeirðabíla gegn mótmælendum“ eru daprari en orð fá lýst og lýsa vankunnáttu þeirra sem skrifa slíkar fréttir.

Landssambandi lögreglumanna þykir það miður að fjölmiðlar þessa lands skuli finna það hjá sér að tortryggja aðgerðir ríkislögreglustjórans, sem allar miðuðu að því að útvega lögreglumönnum við störf, þá ströngu daga sem mótmælin áttu sér stað, viðeigandi hlífðarbúnað.  Þær bifreiðar, sem kannað var með hjá danska ríkislögreglustjóranum, hvort hægt væri að fá hingað til lands að láni, eru hluti af staðalbúnaði lögreglu í hvaða landi sem er.  Bifreiðunum er ætlað að veita lögreglumönnum skjól gegn viðlíka orrahríð og að framan er lýst enda um dauða hluti að ræða en ekki mannslíf.  Sú staðreynd að slíkar bifreiðar skuli ekki vera til hér á landi lýsir hvorutveggja því rólyndisástandi sem betur fer hefur ríkt á Íslandi í gegnum aldir en einnig og á sama tíma metnaðarleysi fjárveitingavaldsins gagnvart lögreglu þessa lands og öryggi hvorutveggja borgara landsins og lögreglumanna.  Það metnaðarleysi hefur Landssamband lögreglumanna gagnrýnt um langa hríð.

Að auki, við það sem fram hefur komið, finnst Landssambandi lögreglumanna rétt að koma því á framfæri að í framhaldi aðgerða lögreglu, þar sem m.a. var beitt svokölluðum piparúða gegn mótmælendum, hafa komið fram fullyrðingar þess efnis að úðanum hafi ekki verið beitt á réttan hátt þ.e. að ekki hafi átt að úða honum í andlit viðtakenda. 

Ummæli þeirra, sem viðhöfðu þennan málflutning eru byggð, hvorutveggja, á skorti á upplýsingum og faglegri þekkingu um notkun úðans. 

Landssambandi lögreglumanna þykir það miður að slíkar upplýsingar skuli hafa komist á kreik og þar með gert aðgerðir lögreglu, á vettvangi, tortryggilegar.  Því finnst Landssambandi lögreglumanna rétt að árétta það að þeim piparúða, sem lögregla á Íslandi notar til réttmætra lögregluaðgerða ber að úða beint í andlit þeirra sem hann er notaður gegn til að tryggja viðeigandi áhrif.  Þannig eru hvorutveggja leiðbeiningar framleiðanda efnisins og kennsla í lögregluskóla ríkisins.  Yfirlýsingar þess efnis að hér sé um að ræða stórhættulegt efnavopn eru byggðar á misskilningi og fákunnáttu þeirra sem um málið hafa fjallað.

Mánuðum og árum saman hefur Landssamband lögreglumanna bent á þá augljósu staðreynd að mikil vöntun er á lögreglumönnum til starfa á Íslandi, til að halda uppi nægilegu öryggis- og þjónustustigi fyrir þegna þessa lands og sömuleiðis þá staðreynd að fjárveitingar til lögreglu séu af mjög skornum skammti. 

Núverandi ástand löggæslumála á Íslandi er á ábyrgð fjárveitingavaldsins, þ.e. Alþingis Íslendinga, þess sama og lögreglumenn hafa varið með lífi sínu og limum undanfarnar vikur.

Landssamband lögreglumanna áréttar að lokum að í lögreglu þessa lands starfa fagmenn sem hlotið hafa haldgóða menntun til sinna starfa, m.a. skv. alþjóðlegum stöðlum, í lögregluskóla ríkisins. 

F.h. Landssambands lögreglumanna 

Snorri Magnússon, formaður

Til baka