Fréttir

Opið bréf til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra – Morgunblaðið 21. apríl 2009

21 apr. 2009

Komdu sæl Jóhanna.

 

Þú hefur sýnt löggæslu og málefnum lögreglumanna mikinn skilning, oft á tíðum jafnvel meiri en þeir ráðherrar sem hafa farið með þann málaflokk.  Nú er lag, fyrir þig sem verkstjóra núverandi ríkisstjórnar, að tryggja þá þjónustu sem þú hefur, í gegnum tíðina, talið nauðsynlegt að lögregla sinni.

 

Þar sem þú situr í stól forsætisráðherra finnst mér rétt, sem formaður Landssambands lögreglumanna (LL) að rifja upp fyrir þér sumt af því sem þú hefur látið frá þér fara um löggæslumál.

 

Á 127. löggjafarþingi árin 2001 – 2002 lagðir þú fram beiðni um skýrslu, til dómsmálaráðherra, um stöðu og þróun löggæslu í Reykjavík.  Í þessari beiðni þinni kemur m.a. orðrétt fram:

 

„Málefni löggæslunnar hafa verið mikið í sviðsljósinu á undanförnum mánuðum og missirum. Margir óttast að mikill niðurskurður sem orðið hefur á framlögum til löggæslu ógni öryggi og þjónustu við íbúana, enda hefur tíðni afbrota farið vaxandi.  Í lögreglulögum er skýrt kveðið á um að ríkið eigi að halda uppi starfsemi lögreglu til að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi borgaranna.“

 

Síðar í sömu beiðni þinni segir:

 

„Í fjölda lögregluumdæma hafa skapast vandamál vegna niðurskurðar framlaga til löggæslu, ekki síst í miðborg Reykjavíkur, þar sem lögreglan er orðin lítt sýnileg. Alþingi ber skylda til að kanna þessi mál til hlítar og því er skýrslubeiðni þessi lögð fram. Svör við þeim spurningum sem bornar eru upp gætu auðveldað stjórnvöldum og löggjafarþingi að meta til hvaða aðgerða er nauðsynlegt að grípa til að tryggja viðunandi öryggi og þjónustu við íbúa landsins og að það fjármagn sem til þessa málaflokks er varið nýtist sem best í samræmi við markmið lögreglulaga.“


Frá sameiningu lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 hefur orðið umtalsverð fækkun í liðinu eða um allt að fimmtíu (50) stöðugildi.  Staðan er nú þannig að þar eru við störf rétt um þrjú hundruð (300) lögreglumenn.  Þrátt fyrir þessa miklu fækkun lögreglumanna í þessu eina liði ná endar ekki enn saman í rekstri þess.  

 

Í þeim svörum, sem þú fékkst við áðurnefndri fyrirspurn þinni til dómsmálaráðherra, á 127. löggjafarþingi kom m.a. þetta fram:

 

„[…] embættið [lögreglan í Reykjavík] telur að fjöldi starfandi lögreglumanna þyrfti að vera 326 alls.  Stöðugildi við embættið eru hins vegar 288 (þar af l6 ómönnuð sbr. fjárlagatillögu þannig að óskað er eftir aukningu um 38 stöðugildi (lögreglumenn) eða um 13%.

Embættið óskar því eftir að fjárveiting til embættisins verði aukin um 152 m.kr. til að fjölga lögreglumönnum í takt við aukinn íbúafjölda og aukin verkefni.“

 

Þarna kemur fram áætlun fyrrverandi lögreglustjóra um mannaflaþörf embættis hans.  Eins og ég benti á hér á undan er staðan í dag sú að rétt um þrjú hundruð (300) lögreglumenn eru við störf hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem er umtalsvert færra en lögreglustjórinn í Reykjavík sá fyrir sér að þyrfti vegna löggæslu í Reykjavík fyrir um átta árum síðan.  Þar voru ekki inni tölur fyrir lögregluembættin í Kópavogi og Hafnarfirði.

 

Staðan víða um land er síst skárri en á höfuðborgarsvæðinu þar sem með mikilli  stækkun umdæma í byrjun árs 2007 hefur orðið raunfækkun lögreglumanna í mörgum liðum.

 

Efnahagsástandið hefur gert það að verkum að áætlanir um eðlilega fjölgun í lögreglu hafa verið í uppnámi sér í lagi þegar kemur að lögbundnu starfsnámi nema í lögregluskóla ríkisins og atvinnuhorfum þeirra að námi loknu. 

 

Í þessu samhengi er rétt að minna þig á skrif þín í Morgunblaðið í maí 2002, en þau má m.a. nálgast á vefsíðu þinni:

 

„Það er líka óþolandi að dómsmálaráðherra neiti bæði í umræðum og í skýrslu til Alþingis nýverið að beita sér fyrir skilgreiningu á lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi og deild fyrir sig til að gætt sé almannaöryggis og réttaröryggi íbúa sé tryggt í samræmi við lögreglulög. Ekki vannst tími til á Alþingi að ræða þá skýrslu, sem er uppfull af yfirklóri og hálfsannleik um stöðu og þróun lögreglunnar.“

 

Skilgreining um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna, sem þú kallar eftir í grein þinni, hefur enn ekki átt sér stað að neinu marki.

 

LL hefur bent á að fjármagn til löggæslu er of naumt skammtað og fjöldi lögreglumanna er langt undir því sem eðlilegt gæti talist.  Hvorutveggja svo naumt skammtað að öryggi lögreglumanna við störf er hætta búin.  Hér verður að horfa til þeirrar staðreyndar að hér á landi er engan her að finna né þjóðvarðlið sem hægt væri að grípa til ef í nauðirnar ræki.  Lögreglan er allt sem þegnar þessa lands hafa til að tryggja öryggi þeirra. 

 

Leið að því marki að snúa við þessari óheillaþróun í löggæslumálum þjóðarinnar er, eins og LL hefur bent á, að Alþingi ákvarði: 1) öryggisstig á Íslandi; 2) þjónustustig lögreglu í samræmi við ákvarðað öryggisstig; 3) mannaflaþörf lögreglu til að halda úti ákvörðuðum öryggis- og þjónustustigum; og að síðustu 4) fjárveitingar til lögreglu í samræmi við liði 1) – 3).

 

Nú er þinn tími kominn! 

 

Virðingarfyllst,

 

Snorri Magnússon

Formaður Landssambands lögreglumanna.

Til baka