Fréttir

Svör stjórnmálaflokkanna við fyrirspurn LL um áherslur í löggæslumálum

24 apr. 2009

Eins og fram kemur, á þessari síðu, sendi LL bréf á formenn allra stjórnmálaflokka, sem bjóða fram í komandi Alþingiskosningum þar sem þeir voru inntir eftir áherslum flokkanna í löggæslumálum. 

Þau svör, sem hafa borist, er hægt að lesa með því að smella á hlekkinn „Lesa meira“ hér fyrir neðan.  Um leið og fleiri svör berast munu þau verða birt hér í þessari sömu frétt. 

Svör flokkanna eru í stafrófsröð eftir heiti þeirra.

 

 

BORGARAHREYFINGIN:

 

Borgarahreyfingin þakkar ykkur bréfið sem hreyfingunni barst með spurningum um afstöðu hreyfingarinnar til mála er tengjast hagsmunamálum lögreglumanna.

 

Því er fyrst til að svara að Borgarahreyfingin tekur ekki með beinum hætti á téðum hagsmunamálum í stefnuskrá sinni. Hreyfingin er stofnuð til framboðs um tiltekin grundvallarmál, ekki síst um stjórnarskrármál og einnig er vert að nefna kröfuna um trúverðuga rannsókn á hruninu sem landið upplifði í haust sem var og er enn að hrella landsmenn.

 

Borgarahreyfingin vill að sjálfsögðu að lög og reglur séu virtar og að til að tryggja það fái lögreglan fullnægjandi aðstöðu og í því sambandi fjármuni úr ríkissjóði. Borgarahreyfingin stendur fyrir: réttlæti, siðferði og jafnrétti. Öryggi allra landsmanna er afar mikilvægt. Deila um um það á hvern veginn stjórnarskrá er og lög og reglur yfirleitt, en um það verður ekki deilt að framfylgd laga er mikilvæg. Ónóg framfylgd laganna stuðlar að því að lögin verða ekki virk.

 

Ekki fer á milli mála að Borgarahreyfingin ber mikla virðingu fyrir stétt lögreglumanna. Í Búsáhaldabyltingunni svokallaðri í haust, sem Borgarahreyfingin er afsprengi af, laust sumum mótmælenda vissulega harkalega saman við suma laganna verði, en við teljum einsýnt að það hafi ekki verið sannir umbótasinnar sem gengu of langt gagnvart lögreglu.

Borgarahreyfingin stendur öllu fremur fyrir þann mannskap úr röðum mótmælenda sem tók sér stöðu milli lögreglumanna og ofbeldismannanna.

Appelsínugulur litur hreyfingarinnar er til marks um það; framhald þeirra borða sem siðlega fólkið setti upp til að mótmæla framferði ofbeldismanna í garð lögreglu. Jafnframt telur Borgarahreyfingin ljóst að eingöngu sumir lögreglumenn gengu of langt gagnvart mótmælendum.

 

Á þingi munu þingmenn Borgarahreyfingarinnar auðsýna málefum lögreglunnar fullan skilning hvað fagleg störf varðar, en jafnframt má það heita ljóst að hreyfingin mun berjast hart fyrir persónuvernd og friðhelgi einkalífsins hvað of ágengar rannsóknaraðferðir varðar.  Hreyfingunni er ljóst að til nokkurs niðurskurðar í ríkisútgjöld mun koma 2009 og 2010, en leggur áherslu á að verja velferð og öryggi borgaranna.

 

Vona að þetta svari erindinu á fullnægjandi hátt og sömuleiðis að svör í tölvupósti dugi að sinni, enda framboðið fjárvana og vill spara í frímerkjakostnaði!

 

 

FRAMSÓKNARFLOKKURINN:

Framsóknarflokkurinn ályktaði sérstaklega um lögreglumál á 30. flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór í janúar síðastliðnum. Ályktunin fer hér á eftir

 

Ályktun um lögreglumál

 

Markmið

 

Lögreglunni séu sköpuð þau starfsskilyrði að hún geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem að henni snúa. Mikilvægt er að efla jákvæð samskipti lögreglu við almenning.

 

Leiðir

 

• Standa skal vörð um fjármagn og mannafla lögreglu og tryggja að aðbúnaður lögreglu sé alltaf eins og best verður á kosið.

• Lögð verði áhersla á aukna grenndargæslu og að löggæslan verði sýnileg.

• Lögreglunni verði skapað svigrúm til að taka aukinn þátt í forvarnastarfi þar sem það á við.

 

Fyrstu skref

 

Mikilvægt er að hefjast strax handa við að skapa lögreglunni betri starfsskilyrði um allt land. Stefnt skal markvisst að því að lögreglan sé hvarvetna sýnilegri.

 

Stefna flokksins er svo sem að ofan greinir. Það skal þó tekið fram að fyrir liggur að erfiðir tímar eru fram undan í fjármálum þjóðarinnar og því verður að leggja mikla áherslu á að koma efnahag okkar í betra horf, til þess að skapa tekjur til að standa undir samfélagsþjónustunni. Í því skyni höfum við framsóknarmenn lagt fram viðamiklar efnahagstillögur sem lesa má á heimasíðu flokksins www.framsokn.is. Hins vegar, ef til mikils niðurskurðar kemur, er ólíklegt annað en að það komi niður á útgjöldum ríkissjóðs til allra málaflokka. Ekki má þó ganga nærri starfsemi lögreglunnar því að ein af grunnstoðum hvers samfélags er að halda uppi lögum og reglu. Við leggjum þar mikla áherslu á góða almenna löggæslu en því miður hefur á liðnum árum orðið samdráttur í starfsmannafjölda almennrar löggæsluþjónustu í landinu.

 

Við lýsum okkur tilbúin að vinna með ykkur að því að skilgreina öryggis- og þjónustuþarfir þjóðarinnar fyrir löggæslu eins og lýst er í bréfi ykkar. Almennt er alltaf skynsamlegt í opinberri þjónustu að skilgreina vel hver verkefnin eiga að vera og meta um leið það fjármagn og þann mannafla sem þarf til að sinna þeim á fullnægjandi hátt.

SAMFYLKINGIN:

Vísað er til bréfs Landssambands lögreglumanna dagsettu 20. apríl 2008, póstlögðu 22. apríl, sem barst skrifstofu Samfylkingarinnar í dag [24. apríl].
Vegna skamms fyrirvara sendum við aðeins stutt svar og með þessum rafræna hætti. Hafi rafrænt erindi frá ykkur misfarist af okkar hálfu er beðist velvirðingar á því.

Fyrst almennt um það verkefni að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum í kjölfar hruns fjármálakerfisins.
Verkefnið er stærra en svo að því verði mætt með kröfum um flatan niðurskurð á öllum sviðum. Við verðum að horfa á róttækari uppskurð á borð við sameiningu stofnana og ráðuneyta. Fara verður yfir verkefni hins opinbera og skilgreina kjarnaþjónustu sem á að verja og verkefni sem eru þjóðhagslega hagkvæm og skila hagvexti til framtíðar. Lykilatriðið er að þetta sé gert með samráði við þá sem veita opinbera þjónustu og notendur hennar og í sem bestri sátt þótt auðvitað verði margt umdeilt. Mikilvægt er að taka upplýstar ákvarðanir á grundvelli góðrar kostnaðargreiningar, til að við vitum raunverulega hvort við spörum með aðhaldsaðgerðum eða ekki. Áætlunin um langtímaaðhald í ríkisfjármálum og endurgreiðslu skulda á að liggja fyrir síðar á þessu ári skv. efnahagsáætluninni sem unnin var í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Samfylkingin leggur þvi áherslu á forgangsröðun og samráð fremur en kröfur um flatan niðurskurð. Meginreglan er sú að forvarnir eru hagkvæmari en að takast á við orðinn vanda. Í þeim anda er áhersla á eflingu hverfislöggæslu og sýnilega löggæsl/ þjónustu lögreglu. Verkefnið er því að ná jafnvægi í fjárveitingum og nýtingu mannafla. Veturinn hefur kennt okkur það að endurskipulagning á lögregluembættum er nauðsynleg á höfuðborgarsvæðinu. Sú endurskiplagning verður að taka mið af auknu samstarfi þriggja stóru lögregluembættanna, á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og embættisins á Suðurnesjum – betri nýtingu fjármuna og mannafla, auk viðbótarfjárveitinga. Í vetur stóð lögreglan sig framar björtustu vonum miðað við þann mannafla og fjölda lögreglumanna sem hún hafði yfir að ráða.

Staðreyndin er sú að almenn löggæsla á höfðuborgarsvæðinu er komin undir sársaukamörk. Ástæðan er fækkun lögreglumanna.  Við þetta er ekki lengur hægt að una og lausn á þessu máli verður að vera forgangsatriði.

 

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN:

Vísað er til bréfs Landssambands lögreglumanna frá 20. apríl, þar sem spurt er um áherslur Sjálfstæðisflokksins í löggæslumálum. Á nýlegum landsfundi flokksins var ályktað á þennan veg um löggæslumál:

 

 

Í þessari ályktun er að finna stuðning við meginstefnu í bréfi Landssambands lögreglumanna. Þáttaskil hafa orðið í skipulagi, tækjakosti, menntun og starfsumhverfi lögreglumanna hin síðari ár og þar hafa dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins haft forystu um stefnumörkun. Breytingarnar hin síðari ár með stækkun lögregluumdæma og aðskilnaði löggæslu og tollgæslu auðvelda enn frekari umbætur auk þess hefur sérsveit lögreglunnar verið efld. Allt hefur þetta skilað góðum almennum árangri. Telur flokkurinn eðlilegt, að kapp sé lagt á að ná markmiðum þeirrar löggæsluáætlunar, sem er í gildi. Enn má minnast lagabreytinga til að efla öryggi lögreglumanna, sem taka mið af hættulegra starfsumhverfi en áður. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið fylgjandi því, að skýr heimild fáist til að koma á fót varaliði lögreglu, en tillögur um það hafa mætt andstöðu annarra flokka og voru beinlínis stöðvaðar af þingflokki Samfylkingarinnar. Á hinn bóginn hafa heimildir til að kalla til héraðslögreglumenn verið rýmkaðar.

 

Eins og Landssamband lögreglumanna er ljóst var um tíma erfitt að fá menn til starfa í lögreglu og þaðan hurfu menn til annarra starfa vegna þenslu og yfirboða á hinum almenna markaði. Nú hefur þessi staða gjörbreyst og er vafalaust auðveldara nú og verður að ráða menntaða lögreglumenn til starfa auk þess sem efling Lögregluskóla ríkisins leiðir til þess, að fleiri stunda þar nám og útskrifast þaðan en áður. Sjálfstæðisflokkurinn telur æskilegt, að fjárveitingum sé hagað á þann veg, að í senn sé gætt eðlilegrar hagkvæmni við innra skipulag lögregluembætta og lagt af mörkum nægilegir fjármunir úr ríkissjóði til að unnt sé að halda úti viðunandi löggæslu eins og segir í ályktun landsfundar flokksins frá því í lok mars 2009.

 

Hér skulu að lokum ítrekaðar þakkir til lögreglumanna fyrir vasklega framgöngu þeirra fyrr og síðar en ekki síst, þegar ráðist var Alþingi og öðrum stofnunum ríkisins í janúar 2009. Sú framganga ávann lögreglu traust og virðingu alls þorra þjóðarinnar eins og kannanir sýna.

 

 

VINSTRI HREYFINGIN GRÆNT FRAMBOÐ:

 

Ein af grundvallaráherslum í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er að tryggja öflugt velferðarkerfi. Það er alveg ljóst að velferð þjóðarinnar felst meðal annars í því að tryggja öfluga löggæslu. Þróun löggæslumála í tíð fyrri ríkisstjórna hefur verið varhugaverð; framlög til löggæslu hafa alls ekki vaxið í réttu hlutfalli við fólksfjölgun. Lögreglumenn um land allt hafa þurft að þola gríðarlegt álag síðustu ár vegna niðurskurðar í almennri löggæslu.

Fyrri ríkisstjórnir hafa kallað gríðarlegar skuldir yfir þjóðarbúið og því verður mjög erfitt að snúa þessari þróun við með auknum útgjöldum á næstu árum. Þótt Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi mikinn áhuga á að efla almenna löggæslu á Íslandi vill flokkurinn ekki gefið nein loforð fyrir kosningar sem hann getur ekki staðið við eftir kosningar.

Þó ber að hafa í huga að efling almennrar löggæslu þarf ekki endilega að felast í auknum ríkisútgjöldum, heldur er þetta oft spurning um forgangsröðun. Til að mynda er það álit VG að öryggi fólks sé mun betur tryggt með því að Varnarmálastofnun verði lögð niður og þær 1500 milljónir sem fara í árlegan rekstur hennar verði notaðar til að efla almenna löggæslu og styðja við landhelgisgæsluna eða björgunarsveitirnar.

Okkur berst gífurlegt magn fyrirspurna og því miður getum við ekki svarað þeim öllum mjög ítarlega, en ég vona að þetta skýri í grundvallaratriðum viðhorf VG til þessara mála.

Til baka