Fréttir

Útboð bílamiðstöðvar RLS

12 maí. 2009

Dómsmálaráðuneytið (DKM) hefur ákveðið að bjóða út rekstur bílamiðstöðvar Ríkislögreglustjórans og hefur útboð þess vegna verið auglýst á vef ríkiskaupa www.rikiskaup.is undir númerinu 14553.

Gert er ráð fyrir opnun tilboða miðvikudaginn 20. maí n.k. en útboðið er opið útboð á EES svæðinu.

Ekkert samráð hefur verið haft við LL vegna þessa útboðs.

 

LL hafði fregnir af málinu í apríl s.l. og setti sig strax í samband við DKM í þeim tilgangi að fá aðgang að útboðslýsingu þar sem augljóst er að slíkt útboð mun, mögulega, hafa áhrif á öryggi lögreglumanna að störfum, auk almennra borgara.  Þá má ekki gleyma þeirri einföldu staðreynd að ökutæki lögreglunnar eru, flestum stundum, vinnustaður lögreglumanna að skyldustörfum og því um augljóst hagsmunamál lögreglumanna að ræða.  Á þeim fundi, sem formaður LL átti með fulltrúum DKM, var athugasemdum og áhyggjum LL strax komið á framfæri, munnlega. 

Í kjölfarið á að LL fékk útboðslýsinguna, af vef Ríkiskaupa, ritaði LL dómsmálaráðherra bréf, þann 27. apríl s.l, þar sem athugasemdum, í sjö liðum, var komið á framfæri vegna útboðslýsingarinnar auk þess sem allur réttur var áskilinn til að koma fleiri athugasemdum að á síðari stigum málsins. 

Ein athugasemdanna lýtur að útboðslýsingu vegna dekkjabúnaðar lögregluökutækjanna. 

Til fróðleiks er texti útboðslýsingar ríkiskaupa, er lýtur að dekkjabúnaði ökutækjanna, birtur hér fyrir neðan:

„Verksali skal gæta þess að hjólbarðar á öllum ökutækjum bílamiðstöðvarinnar séu ætíð í góðu ásigkomulagi og skipt sé reglulega um hjólbarða til að tryggja gott ástand þeirra. Hjólbarðar skulu vera sterkir og þola mikið álag og notaðir skulu mismunandi hjólbarðar eftir árstíðum og eftir þörfum hverju sinni. Eftirlitsmaður verkkaupa getur krafið verkkaupa um betri hjólbarða ef honum þykir ástæða til.“

Lögreglumönnum er eftirlátið sjálfdæmi um það hvort þeir telji að ofangreind tæknilýsing hjólbarða muni tryggja bestu fáanlegu hjólbarða undir væntanleg ökutæki lögreglunnar, nái útboðið fram að ganga.

LL hefur enn engin viðbrögð fengið frá dómsmálaráðherra vegna áðurnefnds bréfs.

Til baka