Fréttir

Málþing ríkislögreglustjóra um framtíðarskipulag lögreglunnar

13 maí. 2009

Þriðjudaginn 12. maí s.l. efndi ríkislögreglustjóri til málþings um framtíðarskipulag lögreglunnar.  Málþingið var haldið í samvinnu við Landssamband lögreglumanna, Lögreglustjórafélagið, Yfirlögregluþjónafélagið, Ákærendafélagið, Lögregluskóla ríkisins og Félag íslenskra rannsóknarlögreglumanna. 

 

Málþingið hófst með ávarpi Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra sem fjallaði meðal annars um stöðu og skipulag löggæslumála við mikið breyttar efnahagsaðstæður í þjóðfélaginu. Þá fluttu erindi formenn þeirra félaga sem aðild áttu að málþinginu og skólastjóri Lögregluskólans.

Málþinginu var skipt í þrjár málstofur til að fjalla um skipulag lögreglunnar, verkefni hennar, rekstur og stefnu, starfsmannamál, fyrirkomulag við lögreglurannsókn brota, rannsóknardeilda og ákæruvalds.  Áttu málstofur síðan að setja fram tillögur um hagræðingu, hvort einfalda mætti skipulag lögreglunnar en tryggja sömu þjónustu, og loks að verja störf lögreglumanna.

Á málþinginu komu fram athyglisverðar tillögur um ýmis atriði sem snúa að lögreglunni og skipulagi löggæslumála.  Niðurstaðan varð sú að málstofurnar ynnu áfram í samstarfi við ríkislögreglustjóra og skiluðu tillögum sínum til dómsmálaráðherra um framtíðarskipulag lögreglunnar á Íslandi.  Áætlað er að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum.

Hægt er að sjá myndir frá málþinginu, á vef ríkislögreglustjórans hér.

Til baka