Fréttir

Engar varanlegar lausnir í sjónmáli

14 maí. 2009

Enn er engar varanlegar lausnir að sjá varðandi áframhald ráðninga þeirra lögreglumanna, sem útskrifuðust, m.v. löggæsluáætlun og áætlanir stjórnvalda í löggæslumálum, úr lögregluskóla ríkisins (LSR) í desember s.l.

Í tví- eða þrígang hafa fráfarandi og núverandi ríkisstjórn Íslands afgreitt fjármuni til áframhalds ráðninga þessa hóps, af fjárlagalið ríkisstjórnarinnar.

Öllum, sem starfa í lögreglu, er það ljóst að gríðarleg þörf er fyrir starfskrafta þessa fólks í lögreglu almennt og sér í lagi í því árferði sem við er að glíma nú.  Þannig hefur t.d. orðið um 100% aukning auðgunarbrota á tímabilinu október 2008 til mars 2009 m.v. sama tímabil 2007 – 2008, eins og sjá má við lestur afbrotatölfræði ríkislögreglustjórans (RLS) en þær upplýsingar má nálgast á vef RLS (www.rls.is).

Frá og með morgundeginum, 15. maí, verða því, að öllu óbreyttu um tuttugu (20) færri lögreglumenn við störf á höfuðborgarsvæðinu en voru í upphafi árs.  Kemur þessi fækkun ofan á fækkun um u.þ.b. fimmtíu (50) stöðugildi, sem orðið hefur í liðinu frá ársbyrjun 2007.

Þess ber þó að geta hér að einhverjir, af þeim lögreglumönnum, sem útskrifuðust í desember s.l, hafa fengið störf í lögreglu utan höfuðborgarsvæðisins. 

Til baka