Fréttir

Lögreglan of fáliðuð til að sinna störfum sínum

27 maí. 2009

snorri.jpgVið höfum gagnrýnt það lengi að löggæslan sé ekki nægjanleg. Það vanti bæði fjármagn til lögreglunnar og fólk til að sinna henni,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.

Það tók lögreglumenn 27 mínútur að mæta á Barðaströnd í fyrrakvöld þegar brotist var inn til roskins manns sem bjó þar og ráðist á hann. Morgunblaðsvefurinn hefur eftir Geir Jóni Þórissyni yfirlögregluþjóni að hljóðrit af fjarskiptum fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sýni að lögreglumönnum, sem voru á leið í útkall vegna innbrotsins á Barðaströnd, hafi verið beint að Kaupþingi í Austurstræti vegna neyðarástands þar.

Snorri Magnússon segir erfitt að fullyrða um hversu mörg útköll á hverju kvöldi lögreglan þoli „Það er mjög erfitt að svara því svona einn tveir eða þrír eða með ákveðnum tölum.  Það fer eftir verkefnum hverju sinni hversu marga lögreglumenn þarf á vakt,“ segir Snorri.

Snorri segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi staðfest með orðum sínum fyrir fáeinum dögum að lögreglan væri of fáliðuð.  „Í tengslum við það að tuttugu lögreglumenn sem útskrifuðust í desember í samræmi við áætlun stjórnvalda um eðlilegt viðhald lögreglu fengu ekki störf áfram fyrir um hálfum mánuði síðan,“ segir Snorri.  Hann segir að þetta sýni að ástandið sé ekki nægjanlega gott.  „Og þetta er því miður birtingamyndin á því gagnvart hinum almenna borgara,“ segir Snorri og vísar til atburðanna á mánudaginn.

Snorri segir að lögreglan sé ólík starfsemi sem rekin sé á viðskiptalegum forsendum á þann hátt að þegar að kreppi að í samfélaginu aukist verkefni lögreglunnar.  „Í efnahagslægðum verður meira að gera hjá lögreglunni.  Lögreglan er ekki fyrirtæki sem er að selja potta og pönnur, sem getur bara lokað eða sagt upp starfsfólki.  Þannig er ekki hægt að reka lögreglu,“ segir Snorri.  Hann segir að lögreglumenn hafi bent stjórnvöldum á þetta í langan tíma.  Af Visir.is

Til baka