Fréttir

Enn fjölgar afbrotum!

23 jún. 2009

Í nýlega útgefinni skýrslu Ríkislögreglustjórans (RLS) um afbrotatölfræði fyrir maí 2009 (borið saman við maí 2008) kemur fram að töluverð aukning, eða um 17%, hefur orðið í skráðum hegningarlagabrotum, sem skýrist af um 80% aukningu í skráðum innbrotum og um 38% aukningu í þjófnaðarmálum.  Skýrsluna, sem gefin var út 18. júní s.l, má lesa hér.

 

Í samskonar skýrslu RLS um afbrotatölfræði fyrir apríl 2009 (borið saman við apríl 2008) kemur fram að um 20% aukning hafði orðið í skráðum hegningarlagabrotum, sem skýrist af um 70% aukningu í skráðum innbrotum og um 45% aukningu í skráðum þjófnaðarmálum.  Skýrsluna, sem gefin var út 18. maí s.l, má lesa hér.

Skemmst er einnig að minnast frétta af gríðarlegri aukningu þjófnaðarbrota (98%), sem fram komu í skýrslu RLS „Tíðni þjófnaða og innbrota í kjölfar efnahagskreppunnar – október 2008 til mars 2009“, sem gefin var út þann 13. mars s.l, en í þeirri skýrslu var tímabilið október 2008 til mars 2009 borið saman við sama tímabil ári áður.  Þá skýrslu má lesa hér.

Á sama tíma og skýrslur sem þessar koma út, berast fréttir af fækkun lögreglumanna og niðurskurði fjármagns til reksturs lögreglu.  Það eru undarlegar áherslurnar sem stjórnvöld hafa í öryggis- og þjónustustigum lögreglu.

Til baka