Fréttir

Má búast við frekari niðurskurði til löggæslumála?

26 jún. 2009

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, til Alþingis, um fjármál 50 ríkisstofnana, kemur fram að tilgangur eftirlitsins, sem skýrslan fjallar um hafi m.a. verið að kanna „…hvort samdráttur fjárveitinga hefur haft áhrif á magn og gæði þjónustu.“ og að leitað hafi verið „…eftir upplýsingum um með hvaða hætti stofnanir hafa undirbúið frekari lækkun fjárveitinga á árinu 2010.“

 

Þrjú lögregluembætti, Dómsmálaráðuneytisins, voru skoðuð í eftirlitinu en þau eru Ríkislögreglustjórinn, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumaðurinn á Ísafirði.

Umrædda skýrslu Ríkisendurskoðunar má nálgast hér.

Á bls. 5 í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a:

„Ljóst er að hjá töluverðum hluta stofnananna hefur álag aukist verulega vegna efnahagsástandsins.  Spurn eftir þjónustu hefur víða aukist á sama tíma og skera hefur þurft niður vinnu starfsmanna.“

Á bls. 7 segir:

„Að undanförnu hefur staða ríkisfjármála breyst til hins verra vegna þrenginga í efnahagslífi landsins.  Ljóst er að víða þarf að skera niður í rekstri og beita margvíslegu aðhaldi.“

Þá segir á bls. 9:

„Fjárveitingar langflestra þeirra stofnana sem úttekt Ríkisendurskoðunar tók til voru svipaðar að krónutölu á árunum 2009 og 2008.  Því má segja að um raunniðurskurð hafi verið að ræða í rekstri flestra  þeirra því verðlag og laun hækkuðu á milli ára.“

Síðar á sömu bls. segir:

„Rúmlega helmingur stofnanna 50 hefur orðið að skerða þjónustu vegna lægri fjárveitinga.  Í fæstum tilfellum er þó um grunnþjónustu að ræða en víðast hvar er ljóst að ekki er unnt að skera mikið meira niður án þess að hún skerðist.

Þá er ljóst að í töluverðum hluta stofnananna  hefur álag aukist vegna efnahagsástandsins, bæði vegna aukinnar þjónustuþarfar en ekki síður vegna færri vinnustunda en áður.“

Á bls. 11 í skýrslunni er vísað í aðra nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar sagði m.a:

„Til að undirbúa væntanlega lækkun fjárveitinga á árinu 2010 telur Ríkisendurskoðun að ráðuneyti og stofnanir eigi nú að sameinast um að meta væntanleg áhrif annars vegar 5% og hinsvegar 10% nafnverðslækkunar fjárveitinga milli áranna 2009 og 2010 á þjónustu stofnana.“

 

Athyglisvert er að skoða svör löggæslustofnananna við spurningum Ríkisendurskoðunar og nánari útlistun þeirra í sérstakri umfjöllun um stofnanirnar:

 

Ríkislögreglustjórinn (RLS):

SPURNING SVAR
„Halda fjárlög ársins 2009?“   „Já.“
„Áhrif hagræðingar á þjónustu fram til þessa?“   „Minni þjónusta.“

 

Í svörum RLS kemur fram að álag á starfsmenn embættisins hafi aukist en að reynt sé að hagræða eins og kostur sé.  Einnig kemur fram að launakostnaður á árinu 2009 hafi lækkað með fækkun stöðugilda og minni yfirvinnu og að þessar sparnaðaraðgerðir muni einkum verða til þess að draga úr þjónustu embættisins við lögregluembættin í landinu.  RLS gerir einnig ráð fyrir því að „…það geti komið til frekari niðurskurðar á kostnaði og þjónustu, einnig að álag á starfsmenn muni aukast enn frekar.“ og að hætta sé á „…að mikilvægir málaflokkar, m.a. efnahagsbrotarannsóknir, muni dragast saman eða ekki vera sinnt með sama hætti og áður.“

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (LRH):

SPURNING SVAR
„Halda fjárlög ársins 2009?“   „Já.“
„Áhrif hagræðingar á þjónustu fram til þessa?“   „Óbreytt þjónusta.“

 

LRH segir, í sínum svörum, að álag á starfsmenn embættisins hafi aukist með auknum verkefnum og að hagræðingaraðgerðir hafi „…m.a. falist í því að fækka starfsmönnum með því að ráða ekki í laus störf, en ekki hefur verið gripið til uppsagna.“  Enn frekar segir að tekið hafi verið „…tillit til mögulegra áhrifa efnahagsástandsins á tekjur embættisins með breyttu skipulagi.“  Einnig að launakostnaður á árinu 2009 yrði „…lækkaður með fækkun stöðugilda, með breyttu starfshlutfalli og minni yfirvinnu.  Aukið álag vegna þessara sparnaðaraðgerða mun ekki minnka þjónustu embættisins [á árinu 2009] vegna meiri hagræðingar í allri starfsseminni.“

 

Sýslumaðurinn á Ísafirði:

SPURNING

SVAR

„Halda fjárlög ársins 2009?“  

„Já.“

„Áhrif hagræðingar á þjónustu fram til þessa?“  

„Óbreytt þjónusta.“

 

Í svörum Sýslumannsins á Ísafirði má lesa að gert hafi verið ráð fyrir „…auknu álagi vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu embættisins í kjölfar efnahagsástandsins.“ og „Framreiknaðar rekstrartölur 2008 eru um 40 m.kr. hærri en áætlun og brugðist var við því með samdrætti í rekstraráætlun, t.d. skerðingu á yfirvinnu lögreglumanna, niðurskurði í tækjakaupum og fækkun ferðalaga.“  Þá segir einnig að ekki sé „…gert ráð fyrir fækkun stöðugilda árið 2009 en launakostnaður lækkar bæði fyrir breytt og óbreytt vinnuframlag, t.d. er dregið úr yfirvinnu og fastlaunasamningar lækkaðir.  Frekari lækkun launakostnaðar mun reynast erfið því flest úrræði hafa verið nýtt í þeim efnum.  Ekki er gert ráð fyrir minni þjónustu vegna sparnaðaraðgerða árið 2009 en fastlega má búast við að svo geti orðið árið 2010.“  Að lokum segir, „Gert er ráð fyrir auknu álagi á starfsmenn embættisins vegna efnahagsástandsins, t.d. vegna aukinna ofbeldis- og fjármunabrota og aukningar í innheimtu, aðfarargerðum, nauðungarsölum og sifjamálum.“

 

Engin ástæða er til að ætla að staða annarra lögregluembætta í landinu sé með öðru sniði en kemur fram vegna þeirra þriggja embætta sem lentu í úrtaki Ríkisendurskoðunar. 

Álag á lögreglu og starfsmenn hennar hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og sérstaklega í kjölfar bankahrunsins í október, um það vitnar öll tölfræði, sem RLS hefur sent frá sér.  Fjallað var sérstaklega um afbrotatölfræðina hér á þessari síðu í grein sem birt var þann 23. júní s.l. og lesa má hér.  

Þá má fullvíst telja að komi til frekari niðurskurðar til löggæslumála muni afbrotum fjölga enn meir en fram hefur komið og fær það stuðning úr rannsóknum sem gerðar hafa verið í þessum efnum erlendis.  Rétt er, í þessu samhengi, að benda á orð lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins úr kvöldfréttum ríkisútvarpsins þann 19. desember s.l. þar sem hann sagði m.a. „Þetta er hins vegar þekkt úr erlendum rannsóknum að, að fylgifiskur efnahagslægða er oftar en ekki aukning afbrota af tilteknum tegundum.  Auðgunarbrota á borð við þjófnað og innbrota og, og síðan framleiðsla á, á ólögmætu eftir eins og fíkniefnum og, og áfengi.“

EUROCOP (European Confederation of Police), sem eru „regnhlífarsamtök“ 34 landssambanda og lögreglufélaga í Evrópu, með rúmlega 500.000 félagsmenn, hefur ítrekað varað stjórnvöld í Evrópu við niðurskurði til löggæslumála í því efnahagsumróti sem nú geisar í Evrópu eins og lesa má í greinum sem birtust á þessum vef þann 21. mars s.l. og lesa má hér og 13. maí s.l. en þá grein má lesa hér.     

Ályktanir EUROCOP, í þessum efnum, hafa verið sendar yfirvöldum löggæslumála (Dómsmálaráðuneytinu) til frekari áréttingar.

LL hefur, allt árið 2008 og miklu, miklu fyrr, vakið athygli á þeirri einföldu staðreynd að fjöldi lögreglumanna og fjárveitingar til lögreglu á Íslandi eru engan vegin nægar til að mæta þeim verkefnum sem lögreglu er ætlað að sinna skv. lögum frá Alþingi Íslendinga.  Þennan málflutning hefur LL haft í frammi fyrir daufum eyrum stjórnvalda þessa lands og fjárveitingavaldsins. 

Skáldið og heimspekingurinn George Santayana skrifaði einhvern tíma að „Þeir sem geti ekki munað söguna hljóti að vera dæmdir til að endurtaka hana.“ („Those who cannot remember the past are condemned to repeat it.“).   Það er óhætt að segja að slík sé upplifun LL af málflutningi sambandsins um málefni lögreglu, gagnvart stjórnvöldum þessa lands. 

Að þessu sögðu varpar LL allri ábyrgð, á því ástandi sem skapast hefur hér á landi – sem m.a sést í gríðarlegri aukningu ýmiskonar afbrota – á hendur stjórnvalda þessa lands enda hefur sambandið, ítrekað, varað við niðurskurði og ónógum fjárveitingum til löggæslu í landinu.    

Til baka