Fréttir

Má búast við frekari niðurskurði til löggæslumála? – Svar: JÁ!!

29 jún. 2009

Grein, sem birt var hér fyrir helgi, undir fyrirsögninni „Má búast við frekari niðurskurði til löggæslumála?“ fjallaði um úttekt Ríkisendurskoðunar á 50 „völdum“ stofnunum vegna rekstrarársins sem er að líða. 

 

Í greininni var einnig vitnað til nýlegrar skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem lagt var til að ráðuneyti og stofnanir færu yfir stöðu sína og tækju mið af væntanlegum lækkuðum fjárveitingum á árinu 2010.  Í tilvitnaðri skýrslu var lagt til að ráðuneytin og stofnanir þeirra skoðuðu, annarsvegar áhrif 5%, og hinsvegar 10% nafnverðslækkunar fjárveitinga á milli áranna 2009 og 2010.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, er gert ráð fyrir 10% lækkun fjárveitinga til opinberra stofnana á árinu 2010.  Auk þess er gert ráð fyrir frekari niðurskurði á árinu sem er að líða og er sú upphæð, eftir því sem LL kemst næst, eitthvað mismunandi á milli embætta (vegna stærðar embættanna) en nákvæmar tölur liggja ekki fyrir hjá LL. 

Búast má við því að forstöðumenn stofnana kynni starfsfólki sínu hverjar þessar niðurskurðarkröfur eru í tilfelli hverrar stofnunar, á árinu sem er að líða og því næsta, og þá einnig hvernig hægt er – ef það er á annað borð hægt – að mæta þessum kröfum.

Þá liggur það svar fyrir.  JÁ ÞAÐ VERÐUR FREKARI NIÐURSKURÐUR Á FRAMLÖGUM TIL LÖGGÆSLU Í LANDINU! 

Það verður að segjast að það er hreint alveg með ólíkindum að stjórnvöld ákveði að fara þær leiðir sem nú er lagt út á í því árferði sem nú ríkir.  Öll rök, rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis í kjölfar viðlíka efnahagsþrenginga o.fl, benda til þess að mjög óvarlegt sé að hreyfa við fjárframlögum til löggæslumála er illa árar.

LL hefur, margítrekað, bent á þessar staðreyndir en jafnan talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda og fjárveitingavaldsins.

Að þessu sögðu varpar LL allri ábyrgð, á því ástandi sem skapast hefur hér á landi – sem m.a sést í gríðarlegri aukningu ýmiskonar afbrota – á hendur stjórnvalda þessa lands enda hefur sambandið, ítrekað, varað við niðurskurði og ónógum fjárveitingum til löggæslu í landinu.  

Til baka