Fréttir

“Helvítis, fokking, fokk!”

17 ágú. 2009

Neðanrituð grein, eftir Óskar Þór Guðmundsson, formann lögreglufélags Austurlands, birtist á heimasíðu félagsins www.123.is/la.  Hún er birt hér að beiðni Óskars Þórs.

__________________________________

  

Þegar góðærið hélt innreið sína til Íslands fyrir nokkrum árum síðan báru ég og fleiri lögreglumenn þá von í brjósti að um leið og ríkisstjórnin greiddi niður erlendar skuldir í gríð og erg, þá notaði hún einnig tækifærið og styrkti innviði samfélagsins.   Þessi von fjaraði þó fljótlega út þar sem við sáum að um leið og keppst var við að greiða niður erlendar skuldir, var uppi mikil sparnaðar- og hagræðingarkrafa hjá lögreglunni.  Sífellt hefur þrengt að fjárhag löggæslustofnana og hafa fjármunir verið skammtaðir út til þeirra með bundið fyrir augun, án nokkurrar skilgreiningar á því hvað menn vildu fá fyrir peninginn.   Þetta hefur Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna bent ítrekað á án þess að nokkur breyting hafi orðið á þessu.

Áður en hin margumtalaða kreppa skall hér á ræddu lögreglumenn um það innan sinna raða að auka þyrfti fjármagn til löggæslu verulega svo eðlilegt ástand gæti skapast innan stéttarinnar.  Nú horfum við aftur á móti á það að strax á þessu ári þurfa löggæsluembætti þessa lands að þola það að fá ekki það fjármagn sem lofað var á fjárlögum og rekstraráætlanir voru miðaðar út frá.  Ofan á það bætist svo niðurskurður um allt að 10% á næsta ári.

 

Skoðum aðeins hvað er hægt að gera til að mæta svo miklum sparnaði.

 

Lögreglumönnum hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum þar sem embættunum hefur ekki verið tryggt nægjanlegt fármagn.  En þar sem löggæsluþörfin hefur aldrei verið metin þá er enn hægt að fækka fólki og draga úr þjónustu við borgarana og við það geta sparast verulegir fjármunir.  Eitthvað af þeim fjármunum færast þó bara til í ríkisrekstrinum því sennilega þarf stór hluti þessara starfsmanna að reiða sig á atvinnuleysisbætur sér til framfærslu.

 

Flest embætti hafa dregið saman í bílaflota sínum og standa eftir með lágmarksfjölda lögreglubifreiða þannig að ekki er hægt að fækka þeim.  Þó er hægt að spara fjármuni með því að aka bifreiðarnar eins lítið og menn komast upp með og það eru menn strax byrjaðir að gera.

 

Einnig er hægt að draga úr yfirvinnu starfsmanna og það eru menn einnig byrjaðir að gera.

 

En er þá ekki bara allt gott og blessað og allir ánægðir í lokin?

 

Fjármálaráðherra verður eflaust ánægður en hvort þú og ég verðum eins ánægð er ekki eins víst.

 

Enn frekari fækkun lögreglumanna þíðir að menn þurfa að hætta að sinna einhverjum verkefnum.  Trúlega verður hætt að sinna útköllum þar sem næturró manna er raskað með hávaða úr næstu íbúð, rannsóknir umferðaróhappa falla niður nema ef um slys er að ræða ( þessi leið nú  þegar farin að hluta á höfuðborgarsvæðinu ).  Forvarnarverkefni í skólum verða eflaust fyrir barði niðurskurðarins. Þjófnaðarmál, innbrot og fíkniefnabrot sem teljast vera minniháttar lenda sennilega mjög neðarlega í bunka óunninna verka.  Líkamsárásir þar sem meiðsli eru óveruleg verða að bíða betri tíma o.fl o.fl o.fl.

 

Það gefur einnig auga leið að ef lögreglubifreiðar eru eknar minna, þá er lögreglan einnig minna á ferðinni.  Við þetta minnkar sýnileiki lögreglunnar og sú forvörn sem í því felst er farin auk þess sem lögreglumenn á eftirlitsferðum upplýsa ekki mörg sakamál eins og verið hefur.

 

Yfirvinna lögreglumanna er að langmestum hluta komin til um helgar þegar landinn skemmtir sér og styrkja þarf vaktirnar með auka mannskap.  Þess vegna er fækkun yfirvinnutíma beinlínis yfirlýsing um það að lögreglan muni draga stórlega úr þjónustu sinni á þeim tímum.  Fækkun lögreglumanna og minni yfirvinna þíðir einnig að lögreglumönnum á vakt fækkar verulega frá því sem nú er.

 

Í mínu lögregluembætti starfa 15 lögreglumenn og sjá þeir um löggæslu í 9 þéttbýliskjörnum á svæði sem spannar hundruð kílómetra.  Þessir menn og konur skipta á milli sín vöktum og má því segja að 7,5 manns sé á vakt á hverjum tíma.  Þessir 7,5 menn eru dreifðir um mjög stórt svæði og því ólíklegt að þeir starfi allir saman að einhverju verkefni.  Reglulega fær lögregla “í hausinn” verkefni sem útheimtir meiri mannskap en 7-8 manns og hefur það verið leyst með því að kalla út mannskap í aukavinnu.

 

Ég get tekið sem dæmi þegar smyglskútan Sirtaki kom upp að landinu nú ekki alls fyrir löngu.  Til að upplýsa það mál, handtaka grunaða og haldleggja efnin þurfti að notast við mikla yfirvinnu, mikinn akstur bifreiða og lögreglumenn sem voru á ferðinni í samfélaginu en ekki kyrrsettir vegna aksturssparnaðar.

 

Ef það mál hefði ekki komist upp hefðu fíkniefni sem hefðu selst á götunni fyrir fjármuni sem dugað hefðu til að reka alla löggæslu íslendinga í nokkur ár komist í umferð.  Það verða ekki fréttir af smyglskútum í fjölmiðlum næstu ár…. til þess að svo megi vera þarf að vera starfhæf lögregla í landinu en stjórnvöld stefna í aðra átt.

 

Það eru viðurkennt allstaðar nema á Íslandi að í kreppu þarf að styrkja löggæsluna.  Á Íslandi er farin sú leið gera stöðugleikasáttmála við vinnandi stéttir og lækka svo laun lögreglumanna daginn eftir og herða svo sultarólina hjá embættunum að segja þarf upp starfsmönnum.

 

Ég verð bara að kasta fram þeirri spurningu hér hvort ríkisstjórnin séu örugglega búin að hugsa leikinn til enda?

 

– Óskar Þór Guðmundsson, formaður Lögreglufélags Austurlands

Til baka