Fréttir

Fundur með Allsherjarnefnd Alþingis

14 okt. 2009

Fulltrúar LL, Dóms- og mannréttindaráðuneytisins og Dómsstólaráðs sátu í dag fund Allsherjarnefndar Alþingis en til fundarins var boðað að beiðni eins fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni.

Farið var yfir þá grafalvarlegu stöðu, sem blasir við lögreglu og dómsstólum í landinu, nái þær hagræðingarkröfur, sem gerðar hafa verið til þessara stofnana, fram að ganga óbreyttar. 

 

Það er ljóst að standi 10% niðurskurðarkrafa óbreytt á lögregluna í landinu verður þeim markmiðum ekki náð nema með gríðarlegum launaskerðingum og/eða uppsögnum starfsfólks innan lögreglu (þá er horft jafnt til lögreglumanna sem og annarra starfsmanna er koma að störfum lögregluembættanna).

Þetta er í annað sinn á tiltölulega stuttum tíma sem fulltrúar LL og Dóms- og mannréttindaráðuneytisins (þá Dóms- og kirkjumálaráðuneytið) hafa verið kallaðir fyrir nefndina. 

Á fyrri fundinum vildu nefndarmenn fá yfirlit yfir stöðu mála er vörðuðu þær skipulagsbreytingar í lögreglu sem boðað hafði verið til þ.e. að færa lögregluna í landinu undir stjórn eins lögreglustjóra.  Eins og flestum er kunnugt um hafa þessar hugmyndir nú tekið þeim breytingum að í stað eins lögreglustjóra verði starfandi í landinu sex lögreglustjórar auk Ríkislögreglustjórans og skólastjóra lögregluskóla ríkisins.

Til baka