Fréttir

Breytingar á lögreglu fyrir 1997

16 okt. 2009

ÞESSI SÍÐA ER ENN Í VINNSLU OG MUN ÞVÍ, REGLULEGA, TAKA BREYTINGUM ÞEGAR VIÐBÓTAREFNI VERÐUR SETT HÉR INN.

Ýmsar breytingar hafa orðið á lögreglu í landinu fyrir árið 1997.  Með frumvarpi því, sem lagt var fram á Alþingi árið 1996 og varð að núgildandi lögreglulögum nr. 90/1996 er þessi breytingasaga rakin, í stórum dráttum, í II kafla athugasemda með frumvarpinu.

Kaflanum er skipt í tvennt, annarsvegar lögreglustjórn utan Reykjavíkur og hinsvegar lögreglustjórn í Reykjavík.  Þeirri skiptingu er fylgt hér við yfirferð yfir þessar helstu breytingar.

Þá er hér einnig að finna stutt yfirlit yfir þróun stéttar lögreglumanna og eru þær upplýsingar, sem hér koma fram sóttar í áðurnefndan athugasemdakafla með frumvarpi lögreglulaga nr. 90/1996.

Ítarlegri upplýsingar um sögu og þróun löggæslu á Íslandi er m.a. hægt að finna í bókunum:

 • “Lögreglan í Reykjavík”, sem gefin var út að tilhlutan lögreglustjórnarinnar í Reykjavík árið 1938;
 • Tuttugu og fimm ára afmælisriti Lögreglufélags Reykjavíkur, sem út kom árið 1961 og
 • “Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga”, sem gefin var út í Reykjavík árið 1997 af Þorsteini Jónssyni og Guðmundi Guðjónssyni í samvinnu við Landssamband lögreglumanna og með styrk frá dómsmálaráðuneytinu;

Þá að þeim upplýsingunum sem er að finna í II kafla athugasemda með frumvarpi að lögreglulögum nr. 90/1996:

Lögreglustjórn utan Reykjavíkur:

 • Frá fornu fari hafa sýslumenn farið með lögreglustjórn, hver í sínu umdæmi.  Þeirra var fyrst getið í Gamla sáttmála, Járnsíðu og Jónsbók;
 • Sýslumenn voru lögreglumenn og innheimtumenn konungstekna, önnuðust fullnustu dóma o.fl;
 • Þá fóru þeir lengst af með hlutverk flestra þeirra aðila sem nú eiga hlut að meðferð sakamála, þ.e. lögreglustjórn, rannsókn mála utan og innan réttar og hlutverk sækjanda.  Auk þess áttu þeir einnig að sinna ýmsum þeim skyldum sem verjendum eru nú faldar;
 • Loks fóru sýslumenn með dómsvald í héraði;
 • Hlutverk þeirra hefur þó raunar verið miklu víðtækara en hér er upp talið.

Lögreglustjórn í Reykjavík:

 • Árið 1803 var Reykjavík gerð að sérstakri dómþinghá og skipaður þar sérstakur bæjarfógeti en fram til þess tíma heyrði Reykjavík undir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu.  Sýslumaðurinn þar gegndi embætti bæjarfógeta allt til ársins 1806;
 • Lögreglustjórn og meðferð sakamála í Reykjavík var í höndum bæjarfógeta allt til ársins 1917 er embættinu var skipt upp og stofnsett sérstakt embætti tollgæslu í Reykjavík, með lögum nr. 26/1917 (ekki aðgengileg á internetinu);
 • Árið 1928 voru lög nr. 67/1928 (ekki aðgengileg á internetinu), um dómsmálastarfa, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík.  Með þessum lögum var stofnað embætti tollstjóra og verkefni færð frá lögreglustjóraembættinu til hans.
 • Árið 1939 var embætti lögreglustjórans í Reykjavík skipt í tvennt með lögum nr. 67/1939 (ekki aðgengileg á internetinu): Sakadómaraembætti og lögreglustjóraembætti.  Fyrir gildistöku þessara laga voru engin sérstök ákvæði í lögum um rannsóknarlögreglu þótt vísir hafi orðið til með 2. gr. laga um lögreglumenn nr. 92/1933 (ekki aðgengileg á internetinu);
 • Ýmsar smávægilegar breytingar voru gerðar á þessum lögum, með lögum nr. 65/1943 (ekki aðgengileg á internetinu), nr. 98/1961 (ekki aðgengileg á internetinu) og lögum nr. 74/1972;
 • Með lögum nr. 108/1976 var Rannsóknarlögregla ríkisins stofnuð og þar með var stjórn rannsóknarlögreglu tekin úr höndum sakadómaraembættisins í Reykjavík og hún fengin rannsóknarlögreglustjóra ríkisins.

Fyrstu löggæslumennirnir:

Fyrsti vísir að sérstakri stétt löggæslumanna hér á landi,  í nútímaskilningi, varð ekki til fyrr en um miðja 18. öld þegar ráðnir voru sérstakir næturverðir í Reykjavík í tengslum við Innréttingar Skúla Magnússonar landfógeta.  Hlutverk þeirra var fyrst og fremst að vakta verksmiðjurnar um nætur.  Kostnaður vegna þessa var greiddur af innréttingunum.  Í erindisbréfi, sem næturvörðum var sett 1778, kemur fram að þeim hafi einnig verið ætlað almennt löggæsluhlutverk í bænum, þ.e. það starf sem nú er falið lögregluþjónum.  Næturverðirnir voru að jafnaði tveir talsins.  Þessi löggæsla næturvarðanna var látin nægja fram til 1803.  Kostnaður vegna hennar færðist þó yfir á bæjarsjóð árið 1791.

Þegar Reykjavík var gerð að sérstakri dómþinghá og skipaður þar bæjarfógeti árið 1803 voru enn fremur ráðnir tveir daglögregluþjónar honum til aðstoðar.

Þessi skipan löggæslumálum í Reykjavík hélst allt til ársins 1855 er daglögregluþjónum var fjölgað í þrjá.  Laun tveggja þeirra voru lengst af greidd úr landssjóði en þess þriðja úr Jafnaðarsjóði Suðuramtsins.  Frá 1879 greiddi bæjarsjóður kostnað vegna daglögregluþjónanna.  Jafnframt daglögregluþjónunum störfuðu næturverðir í Reykjavík sem kostaðir voru af bæjarsjóði.  Þó var aðeins einn næturvörður í Reykjavík frá árinu 1803 – 1865, en eftir það voru þeir tveir.  Var öðrum ætlaður austurbærinn til eftirlits, en hinum Vesturbærinn.

Lög um lögreglumenn:

Þau lögreglulög, sem voru í gildi við framlagningu frumvarpsins, sem varð að lögreglulögum nr. 90/1996 voru að meginstofni til lög um lögreglumenn nr. 92/1933 (ekki aðgengileg á internetinu).  Megintilgangur laganna frá 1933 var að mæla fyrir um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna rekstar lögregluliða.

Ný heildarlög um lögreglumenn voru gefin út árið 1940, sem lög nr. 50/1940 (ekki aðgengileg á internetinu).

Allt frá gildistöku laganna frá 1940 höfðu þau sjónarmið verið áberandi að styrkja þyrfti löggæsluna í landinu enn frekar og auka hlutdeild ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna hennar.

Tvívegis voru gerðar smávægilegar breytingar á lögunum frá 1940, með lögum nr. 45/1956 (ekki aðgengileg á internetinu) og lögum nr. 61/1961.

Þá voru gerðar nokkrar breytingar árið 1963 og lögin gefin út sem heild, sem lög um lögreglumenn nr. 56/1963.

Engar meirháttar breytingar voru gerðar á skipan löggæslu í landinu fyrr en með lögum nr. 56/1972 (felld úr gildi með lögreglulögum nr. 90/1996) en veigamesta breytingin fólst í því að gert var ráð fyrir því að ríkið bæri allan kostnað af almennri löggæslu í landinu og þar með urðu lögreglumenn starfsmenn ríkisins.

Frá 1972 voru gerðar nokkrar smávægilegar breytingar á lögunum, sem óþarfi er að tiltaka hér.

Árið 1986, í kjölfar kjarasamninga lögreglumanna – í hverjum lögreglumenn afsöluðu sér verkfallsrétti sínum, í mikilli andstöðu t.d. við BSRB – voru gerðar breytingar á lögum um lögreglumenn þar sem lagt var bann við því að lögreglumenn gerðu verkföll eða tækju þátt í verkfallsboðun.  Þessi lög voru nr. 82/1986.

Eftir þetta voru gerðar nokkrar aðrar breytingar á lögreglulögunum með lögum nr. 26/1987, nr. 108/1988nr. 64/1989, nr. 92/1991 og nr. 50/1993.

Til baka