Fréttir

2007

8 nóv. 2009

ÞESSI SÍÐA ER Í STÖÐUGRI VINNSLU OG MUN TAKA BREYTINGUM EFTIR ÞVÍ SEM UMRÆÐA UM SKIPULAGSBREYTINGAR Í LÖGREGLU ÞRÓAST HVERJU SINNI.

Í þeim gögnum sem fyrirliggjandi eru vegna skipulagsbreytinganna í ársbyrjun 2007, sem hófust með skipun verkefnisstjórnar, undir forystu Stefáns Eiríkssonar, núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, kemur fram að LL var fylgjandi þeim breytingum, sem áformaðar voru og hrint í framkvæmd í byrjun árs 2007. 

Markmið breytinganna, þ.e. að bæta og efla löggæslu í landinu, voru enda afar skýr, göfug og til þess fallin að efla hjá lögreglumönnum þrótt og dáð.  Væntingar til þessara breytinga voru enda töluverðar. 

Hvort væntingar þær, sem lögreglumenn höfðu til þessara breytinga, náðu fram að ganga verður að láta hverjum og einum lögreglumanni eftir að meta þar sem ENGIN könnun hefur farið fram á því, meðal lögreglumanna, um skoðanir eða álit þeirra á breytingunum!

*   *   *   *   *

Inngangur:

Árið 2007 voru framkvæmdar einhverjar viðamestu breytingar á lögreglunni á Íslandi, sem gerðar hafa verið.

Meginmarkmið þessara breytinga var afar skýrt, eins og fram kemur í greinargerð með lagafrumvarpi um breytingu á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989, er síðar varð að lögum nr. 46/2006 en það var að bæta og efla löggæslu í landinu.

Þannig var lögregluembættum fækkað úr 26 í 15 (plús Ríkislögreglustjórinn og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins – þ.e. úr 28 í 17 embætti).

Gengið var út frá því í þessu sameiningarferli að enginn starfandi lögreglumaður skyldi, í nokkru, missa réttindi sín, stöður eða kjör, líkt og gert var við breytingarnar, sem framvæmdar voru á lögreglunni árið 1997, þegar Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður og embætti Ríkislögreglustjórans var stofnað.

Í seinni tíð hefur mátt heyra ýmsa ráðamenn tala um það að þarna hafi verið um að ræða einhverslags “lúxussameiningu”!

Þá lá það ljóst fyrir að ENGRI starfsstöð lögreglu yrði lokað!  Í þessu samhengi er rétt að benda á eftirfarandi fréttir á heimasíðu LL sem birtust hér og hér

Við þá upptalningu, sem er að finna í þeim tveimur fréttum sem er að finna hér að framan er rétt að bæta við lögreglustöðinni á Ólafsfirði sem hefur verið lokað sem slíkri í kjölfar opnunar Héðinsfjarðarganganna.

Breytingarnar áttu sér allnokkurn aðdraganda og töluverð vinna var lögð í forvinnu þeirra, bæði með gagnaöflun hverskonar, skýrslugerðum, fundahöldum o.fl.

Þá átti sér einnig stað mikil kynningarvinna á vegum þeirra verkefnastjórna, sem skipaðar voru til að vinna grunninn að breytingunum, sem og þeirra sem unnu að innleiðingu þeirra.

Helstu markmið skipulagsbreytinganna 2007 og áætlaður kostnaðurauki vegna þeirra:

Helstu markmið breytinganna 2007 voru:

 1. að efla löggæslu í landinu, annarsvegar;
 2. með því að auka sýnilega löggæslu og hins vegar;
 3. með því að styrkja rannsóknir lögreglunnar.

Gert var ráð fyrir innbyrðis hagræðingu í löggæslugeiranum, með þessum breytingum og því var áætlaður kostnaðarauki vegna þeirra 0,- kr.

Helstu skýrslur vegna og í tengslum við breytingarnar 2007:

Skýrsla verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála, janúar 2005 – skýrslan í heild 

 

Þá var einnig unnin, á árinu 2008, skýrsla til dómsmálaráðherra um uppbyggingu skóla á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um löggæslu og öryggismál:

Skýrsla til dóms- og kirkjumálaráðherra um uppbyggingu skóla á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um löggæslu og öryggismál

Að síðustu má hér einnig benda á ágætis grein Sigríðar Hrefnu Jónsdóttur, starfsmannastjóra LRH, sem hún ritaði í 1. tbl. Lögreglumannsins árið 2006, bls. 22 – 23, undir heitinu „Breytingar, stjórnun þeirra og áhrif á starfsfólk”.  Hægt er að nálgast blaðið, á pdf formi hér.

Frumvarp til breytinga á lögreglulögum nr. 90/1996:

Vegna skipulagsbreytinganna sem urðu á lögreglu í ársbyrjun 2007 var frumvarp til laga um breytingu á

lögreglulögum nr. 90/1996 lagt fram á þingi, sem síðar varð að lögum nr. 46/2006 um breyting á lögreglulögum nr. 90/1996 og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði nr. 92/1989.

Athyglisvert er að lesa frumvarpið, sem síðar varð að lögum nr. 46/2006 og athugasemdir með því en hvorutveggja er hægt að lesa hér.

“Útgangspunkturinn í þessum breytingum er að forgangsraða betur þeim fjármunum sem varið er til löggæslumála samkvæmt núverandi útgjaldaramma ráðuneytisins í fjárlögum.  Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til þessara verkefna heldur kalla breytingarnar á tilflutning fjárveitinga á milli embætta í samræmi við nánari útfærslu á þessum áformum.  Kostnaður sýslumannsembætta af löggæslu er sérgreindur í fjárveitingum og reikningshaldi og á því að liggja ljóst fyrir hvaða fjárheimildir þarf að flytja á milli með verkefnunum.  Þá á eftir að fara fram frekari kostnaðargreining á áætlanagerð varðandi ýmsar skipulagsbreytingar og rekstrarhagræðingu sem breytt skipan löggæslumála kann að gefa kost á.  Talið er að unnt verði að nýta betur fjárveitingar til málaflokksins á ýmsa vegu en ætlunin er að öllum ávinningi af slíkri hagræðingu verði varið til að efla og bæta starfsemi löggæslunnar.”

  Ýmsar ályktanir sem fram hafa komið í tengslum við skipulagsbreytingarnar sem gerðar voru á lögreglu árið 2007:

 •  Þann 19. ágúst 2008 ályktaði bæjarráð Vestmannaeyja, í kjölfar útkomu skýrslunnar um “Mat á breytingum á nýskipan lögreglu” (sjá hér ofar) og varaði við breytingum á skipulagi lögreglu í Vestmannaeyjum m.a. vegna landfræðilegrar sérstöðu Eyjanna.
 • Ályktunina má lesa hér.

 Fyrstu skýrslur vegna skipulagsbreytinga í lögreglu:

 •  Segja má að vinnan hafi í raun hafist í nóvember 2003 þegar þáverandi dómsmálaráðherra,
 • Björn Bjarnason, skipaði verkefnisstjórn sem í sátu Stefán Eiríksson skrifstofustjóri, formaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri og Skúli Magnússon héraðsdómari.

 • Í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar kom fram að dómsmálaráðherra hafi ákveðið að beita sér fyrir breytingum á umdæmaskipan löggæslu og innra starfi lögreglunnar, án þess að fækka sýslumönnum og að verkefnisstjórnin hefði tvíþætt meginhlutverk:

í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi sem hefði að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til sýslumannsembætta væri varið og í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt væri forgangsröð við úrlausn verkefna og sett mælanleg markmið fyrir löggæsluna. Jafnframt var verkefnisstjórninni falið að meta reynslu af lögreglulögunum og því skipulagi og verkaskiptingu sem þá kom til sögunnar; hafa til hliðsjónar þá vinnu við gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta sem unnin hefði verið; taka afstöðu til sjónarmiða sem fram hefðu komið um ákæruvaldið o.fl.

Í skipunarbréfi nefndarinnar var sérstaklega tíundað að með tillögum hennar yrði haft að leiðarljósi að löggæsla og ákæruvald ættu í fullu tré við þá sem gerðust brotlegir við lögin, og stæðu þeim helst feti framar. Vikið var sérstaklega að vaxandi umfangi efnahagsbrota og beitingu rafrænna aðferða við framkvæmd þeirra brota og áréttað að þörf fyrir sérmenntað fólk til rannsókna á nýjum tegundum afbrota yrði sífellt meiri. Þá var lögð á það áhersla í skipunarbréfinu að menntun, búnaður og tæki lögreglu yrðu að vera í samræmi við markmið og kröfur á hverjum tíma og þjálfun sveita lögreglumanna ætti að taka mið af verkefnum og áhættu sem þeir yrðu oft að taka í mikilvægum störfum sínum.”

 • Verkefnisstjórn skilaði ráðherra ítarlegri skýrslu í janúar 2005.  Skýrslunni fylgdu hugmyndir og tillögur fjögurra sérfróðra manna um skipulag lögreglunnar, þeirra Ólafs Kr. Ólafssonar, sýslumanns Snæfellinga, Jónmundar Kjartanssonar, yfirlögregluþjóns, Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli og formanns lögreglustjórafélags Íslands og Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns.  Í þeim hugmyndum, sem hinir fjóru sérfróðu menn um skipulag lögreglunnar, lögðu fram er að finna allt það sem fram er lagt í þeim hugmyndum að áframhaldandi skipulagsbreytingum á lögreglu, sem verið er að vinna að um þessar mundir og nánar er fjallað um undir hlekknum “2010” hér til hliðar.  Það má því til sanns vegar færa að hér (skipulagsbreytingarnar 2010) sé um að ræða “gamalt vín á nýjum belgjum”.

 • Í skýrslu verkefnisstjórnar var í fyrsta lagi gefið greinargott yfirlit yfir þáverandi stöðu mála.  Skýrt var frá breytingum á skipulagi löggæslumála síðustu ár og mat lagt á þær.  Í öðru lagi voru gerðar tillögur að efnisatriðum í löggæsluáætlun til næstu ára, þ.e. hvaða meginatriði ættu að ráða störfum lögreglu á Íslandi.  Í þriðja lagi var í skýrslunni rakið með hvaða hætti ætti að styrkja og efla löggæslu í landinu til að ná settum markmiðum.
 • Megin niðurstaða verkefnisstjórnarinnar var að vegna smæðar ættu mörg lögreglulið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu.  Stærri umdæmi og sameining liða efldi styrk lögreglu og gerði henni betur kleift en ella að sinna erfiðum verkefnum.  Verkefnisstjórnin lagði til að flest lögregluumdæmi yrðu stækkuð til muna og þau yrðu fimm til sjö talsins.  Væri þessi leið ekki fær ætti að stuðla að stóraukinni samvinnu og samstarfi einstakra lögregluembætta.
 • Skýrsla verkefnisstjórnarinnar vakti miklar umræður meðal sýslumanna og lögreglumanna.  Landssamband lögreglumanna (LL) fagnaði skýrslunni og tillögunum, enda hafði LL lengi barist fyrir því að ráðist yrði í stækkun lögregluumdæma.  Sýslumannafélagið efndi til sérstaks félagsfundar um efni skýrslunnar og ályktaði um stækkun lögregluumdæma.  Sýslumannafélagið lagði til að lögregluumdæmi yrðu stækkuð og þeim fækkað í 12-16 talsins.

 • Í maí 2005 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra (Björn Bjarnason) þriggja manna framkvæmdanefnd sem í sátu Stefán Eiríksson, formaður, Kjartan Þorkelsson sýslumaður og formaður lögreglustjórafélagsins og Óskar Bjartmarz, þáverandi formaður Landssambands lögreglumanna.  Framkvæmdanefndinni var falið að útfæra nánar tillögur verkefnisstjórnar í samræmi við niðurstöður umræðna um þær á vettvangi lögreglumanna og sýslumanna.  Framkvæmdanefndin skyldi móta tillögur um fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma.  Í skipunarbréfi dómsmálaráðherra var lögð áhersla á að markmiðið með stækkun lögregluumdæma væri að auka og efla þjónustu lögreglu við íbúa landsins, styrkja ætti lögreglu á öllum sviðum, bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála.  Í því fælist m.a. að unnt yrði að halda úti sólarhringsvakt lögreglu víðast hvar á landinu og öflugum rannsóknardeildum sem sinntu rannsóknum flókinna mála alls staðar á landinu.

 • Framkvæmdanefndin skilaði tillögum um breytingar á skipulagi löggæslu í lok október 2005.  Lagt var til að lögregluumdæmi í landinu yrðu fimmtán talsins, þar af sjö sem ábyrgð bæru á rannsókn og saksókn stórra og flókinna mála.  Þessi embætti skyldu einnig bera ábyrgð á því að samræma vaktkerfi lögregluembætta á sínu starfssvæði, í þeim tilgangi að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu en áður.  Framkvæmdanefndin taldi að með þessari skipan yrðu rannsóknir sakamála betri, markvissari og öflugri alls staðar á landinu, sýnileg löggæsla mundi aukast og unnt yrði að halda úti sólarhringsvöktum lögreglu víðar á landinu en þá var.

 • Dóms- og kirkjumálaráðherra fól framkvæmdanefndinni að kynna tillögur sínar með því að efna til funda um land allt með lögreglustjórum, lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum þar sem hlustað væri eftir sjónarmiðum og viðhorfum heimamanna til þeirra.

 • Nefndin efndi til funda á sjö stöðum á landinu á tímabilinu frá 7. – 17. nóvember 2005 og sóttu á fjórða hundrað manns fundina.  Þar voru tillögur nefndarinnar kynntar og síðan kallað eftir sjónarmiðum fundarmanna, athugasemdum og viðhorfum að öðru leyti.  Jafnframt var fundarmönnum og öðrum gefinn kostur á því að koma á framfæri við nefndina skriflegum athugasemdum og tillögum.  Nokkrir aðilar óskuðu eftir sérstökum fundi með nefndinni eða formanni hennar.  Var orðið við þeim óskum og tillögur nefndarinnar voru nánar ræddar og kynntar.

 • Að lokinni fundalotunni skilaði nefndin ráðherra framhaldsskýrslu með nokkrum breytingum á upphaflegum tillögum sínum, í samræmi við athugasemdir og sjónarmið sem fram höfðu komið í framangreindu kynningarferli.

 • Þann 3. janúar 2006 kynnti ráðherra ríkisstjórn drög að ákvörðun sinni um nýskipan lögreglumála og þau mál sem henni tengdust með vísan til skýrslu verkefnisstjórnar og þess sem gerst hefði í meðferð málsins frá hausti 2004.

 • Í frumvarpinu, sem síðar varð að lögum nr. 46/2006 var að finna tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum vegna áforma um endurskipulagningu löggæslu.

 • Meginatriði frumvarpsins voru þessi:

 1. Við embætti ríkislögreglustjóra yrði starfandi greiningardeild sem rannsakaði landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og sem jafnframt legði mat á áhættu vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi. Dómsmálaráðherra yrði heimilt að stofna greiningardeild við önnur embætti lögreglustjóra, ef sérstök rök stæðu til þess.
 2. Lögregluumdæmi í landinu yrðu 15 talsins (innan sviga þau núverandi umdæmi sem bættust við fyrrnefnd umdæmi); Akranes, Borgarnes (Búðardalur), Stykkishólmur, Ísafjörður (Patreksfjörður, Bolungarvík og Hólmavík), Blönduós, Sauðárkrókur, Akureyri (Siglufjörður og Ólafsfjörður), Húsavík, Seyðisfjörður, Eskifjörður (Höfn), Hvolsvöllur (Vík), Vestmannaeyjar, Selfoss, Suðurnes (Keflavík og Keflavíkurflugvöllur) og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður).
 3. Af þessum 15 embættum yrðu sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við sjö embætti, á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Selfossi, Suðurnesjum og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu.  Lögreglustjórar þessara embætti stuðluðu að samræmdu vaktkerfi lögreglumanna innan síns umdæmis og næstu umdæma.
 4. Lögreglustöðvum yrði ekki lokað vegna breytinga á lögregluumdæmum og sérstaklega væri áformað að ákveðið yrði í reglugerð að lögregluvarðstofur utan aðalstöðva lögreglu skyldu vera í Búðardal, á Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík auk þeirra staða sem þá voru tilgreindir í reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna.  Þeir staðir voru Ólafsvík, Grundarfjörður, Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Fáskrúðsfjörður og Grindavík.
 5. Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tæki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.
 6. Lögregluembættin tvö í Keflavík og Keflavíkurflugvelli yrðu sameinuð undir einni stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem jafnframt væri sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.  Með sýslumannsverkefni sem þá heyrðu undir sýslumanninn í Keflavík færu sýslumaðurinn í Reykjanesbæ.  Umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli myndu heyra undir utanríkisráðuneytið, að því er varnarsvæðin á Suðurnesjum varðaði, en að öðru leyti undir dómsmálaráðuneytið.  Til þess að auka gegnsæi stjórnsýslunnar og fyrirbyggja skörun valdmarka milli ráðuneytanna var kveðið á um það í frumvarpinu að ráðuneytin settu sér sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem vörðuðu verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.  Sú framsetning sótti fyrirmynd sína til 2. mgr. 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
 7. Samhliða breytingum á skipulagi löggæslu kynnti dóms- og kirkjumálaráðherra áform um að efla og styrkja lítil sýslumannsembætti með flutningi verkefna og starfa frá ráðuneytum og stofnunum til embættanna.
 8. Unnið var að því að koma á fót Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar við sýslumannsembættið á Blönduósi og var talið að reynslan vegna þess flutnings myndi nýtast vel við færslu frekari verkefna til sýslumannsembætta á landsbyggðinni.
 9. Önnur verkefni sem kynnt voru til flutnings af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu voru:
 • Miðstöð ættleiðinga.
 • Sjóðir og skipulagsskrár.
 • Miðstöð fasteignasölueftirlits.
 • Útgáfa Lögbirtingablaðs.
 • Málefni bótanefndar.
 • Málefni skjalaþýðenda.
 • Miðstöð eftirlits með útfararþjónustu.
 • Miðstöð happdrættiseftirlits.

Líklegt var talið að heildarkostnaður við flutning þessara verkefna og fjölgun starfa á landsbyggðinni myndi nema um 50 millj. kr. á ársgrundvelli.

Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins vegna skipulagsbreytinga í lögreglu:

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, vegna þessara breytinga á löggæslunni sagði þetta, m.a:

Markmiðið með þessum breytingum er að renna styrkari stoðum undir starf löggæslunnar og bæta þjónustu hennar við samfélagið.

Stærsti þátturinn í þessum breytingum er að koma á fót nýrri löggæslustofnun á höfuðborgarsvæðinu og leggja samtímis niður þrjú embætti löggæslu í Hafnarfirði og Kópavogi og lögreglustjórans í Reykjavík.  Til að kostnaður í tengslum við biðlaunarétt verði í lágmarki er kveðið á um það í frumvarpinu að starfsmenn lögregluembættanna þriggja njóti forgangs til starfa hjá nýja embættinu.  Mögulegum viðbótarkostnaði af þessu tilefni er ætlunin að mæta innan núverandi fjárveitinga til embættanna þriggja.  Einnig er gert ráð fyrir því í upphafi að starfsemi lögregluliðanna þriggja verði áfram í núverandi húsnæði.

Útgangspunkturinn í þessum breytingum er að forgangsraða betur þeim fjármunum sem varið er til löggæslumála samkvæmt núverandi útgjaldaramma ráðuneytisins í fjárlögum.  Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til þessara verkefna heldur kalla breytingarnar á tilflutning fjárveitinga á milli embætta í samræmi við nánari útfærslu á þessum áformum.  Kostnaður sýslumannsembætta af löggæslu er sérgreindur í fjárveitingum og reikningshaldi og á því að liggja ljóst fyrir hvaða fjárheimildir þarf að flytja á milli með verkefnunum.  Þá á eftir að fara fram frekari kostnaðargreining og áætlanagerð varðandi ýmsar skipulagsbreytingar og rekstrarhagræðingu sem breytt skipan löggæslumála kann að gefa kost á.  Talið er að unnt verði að nýta betur fjárveitingar til málaflokksins á ýmsa vegu en ætlunin er að öllum ávinningi af slíkri hagræðingu verði varið til að efla og bæta starfsemi löggæslunnar.”

 Niðurstaða fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins var sem sagt afar einföld og skýr.  Breytingarnar áttu ekki að kosta eina einustu krónu!

Áframhald vinnunnar:

 • Í framhaldi af þeirri vinnu, sem unnin var, af hálfu Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, svo sem fram hefur komið hér að ofan voru lagðar fram breytingar á lögreglulögum, sem samþykktar voru á hinu háa Alþingi og nýskipan lögreglu tók gildi í ársbyrjun 2007.

 • Í fréttatilkynningu, vegna þessara viðamiklu breytinga kom fram að dómsmálaráðherra fól Ólafi K. Ólafssyni, sýslumanni Snæfellinga, að fylgja eftir framkvæmd þessara víðtæku breytinga á skipulagi lögreglunnar og lögreglumála, í samvinnu við ríkislögreglustjóra og í nánu samráði við lögreglustjóra, lögreglumenn, sýslumenn og sveitarstjórnir.  Í kjölfarið var síðan skipaður starfshópur t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu, í hverjum áttu sæti fulltrúar starfsmanna hjá þeim þremur lögregluembættum, sem þar áttu að sameinast þ.e. lögreglunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.  Allnokkrir fundir voru haldnir í þessum starfshópi og niðurstöður þeirra funda kynntar starfsmönnum embættanna reglulega.

 • Gera verður ráð fyrir því að svipað hafi verið uppi á teningunum annarsstaðar á landinu þó svo að LL sé ekki sérstaklega kunnugt um það.  Það fer í það minnsta minna fyrir fréttatilkynningum og blaðamannafundum vegna vinnunnar utan höfuðborgarsvæðisins.

 • Ný staða lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins var síðan auglýst laus til umsóknar en umsækjendur um hana voru tveir, þeir Ingimundur Einarsson, þáverandi varalögreglustjóri í Reykjavík og Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sá hinn sami og hafði veitt forystu þeim starfshópum, sem unnu að skipulagi breytinganna.  Nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins var skipaður (Stefán Eiríksson) og hóf hann störf, sem slíkur, um mitt ár 2006 og tók sæti í þeim starfshópi, sem dómsmálaráðherra hafði falið Ólafi Kr. Ólafssyni að veita forystu.

 • Í október 2006 var ný yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) kynnt til sögunnar á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu.  Það vakti sérstaka athygli starfsmanna embættanna þriggja, sem síðar yrðu starfsmenn hins nýja embættis að þarna varð þeim, í fyrsta sinn ljóst, hvernig yfirstjórn hins nýja embættis yrði skipuð.  Engir fundir voru haldnir með eða tilkynningar senda til starfsmanna embættanna um hvað væri í vænum.  Á þessum blaðamannafundi voru einnig einnig kynnt til sögunnar drög að skipuriti hins nýja embættis, grundvallarstefna þess, sem er að “auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dveljast á höfuðborgarsvæðinu”.  Þá voru einnig sett ákveðin markmið um fækkun afbrota á nánar skilgreindum sviðum.

 • Talið var að eftirtaldir lykilþættir skiptu mestu til að ná þeim markmiðum sem sett voru:

  1. Aukin sýnileg löggæsla.
  2. Efld hverfa- og grenndarlöggæsla og forvarnastarf í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
  3. Betri og skilvirkari rannsóknir sakamála.
  4. Traust og fagleg þjónusta á öllum sviðum og skilvirk miðlun upplýsinga bæði innan embættisins og gagnvart almenningi.
  5. Bætt nýting fjármuna.
 • Þann 9. janúar 2007 heimsótti Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, síðan höfuðstöðvar hins nýja embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann lýsti yfir ánægju sinni með það hversu vel hefði til tekist með að sameina þau þrjú embætti, sem runnu í eitt á höfuðborgarsvæðinu.  Við þetta tækifæri staðfesti ráðherra einnig nýtt skipurit embættisins auk þess sem greint var frá því að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði hafið útgáfu á nýju vefriti ráðuneytisins.

 • Strax í kjölfar þeirra breytinga, sem hrint var í framkvæmd í ársbyrjun 2007, fór að bera á ýmiskonar gagnrýni á þá leið sem farin var við nýskipan lögreglumála.  Þessi gagnrýni hefur frekar aukist eftir því sem á hefur liðið frá breytingunum.

 • Þannig bar t.d. á gagnrýni ýmissa sveitarstjórnarmanna, alþingismanna landsbyggðarinnar og lögreglumanna, í hverri fram kom að breytingarnar skertu þjónustu lögreglu við hinar dreifðari byggðir landsins.  Óhætt er að fullyrða nú (árið 2011) að þessi gagnrýni hafi átt við rök að styðjast en lítið ber hinsvegar nú á röddum þeirra sem hana höfðu uppi á sínum tíma!!

 • Strax þann 10. janúar 2007 sá dóms- og kirkjumálaráðuneytið sig knúið til að senda frá sér fréttatilkynningu vegna skipan lögreglurannsókna í Vestmannaeyjum, vegna gagnrýni sem fram hafði komið frá bæjarráði Vestmannaeyja vegna stöðu lögreglurannsókna í Vestmannaeyjum í kjölfar breytinganna.

 • Þann 10. maí 2007 sendi Dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu vegna útgáfu löggæsluáætlunar fyrir árin 2007 – 2011.  Þetta var í fyrsta sinn sem slík áætlun hafði verið gerð fyrir Ísland.  Í áætluninni kemur fram að hún sæti árlegri endurskoðun, þó svo að hún breytist ekki í grundvallaratriðum.  Í inngangi Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, að löggæsluáætluninni segir m.a:

  “Löggæsluáætlun 2007-2011 mun sæta árlegri endurskoðun, þótt hún breytist ekki í meginatriðum. Miðað er við að hvert lögregluembætti marki sér eigin leiðir til þess að ná fram markmiðum áætlunarinnar. Embætti ríkislögreglustjóra mun í umboði ráðuneytisins gera samning um árangursstjórnun við hvert lögregluembætti í landinu fyrir árslok 2007. Löggæsluáætlun 2007-2011 er ætlað að veita leiðsögn um hvernig lögregluyfirvöld geta með góðum árangri tekist á við þau fjölbreyttu og krefjandi úrlausnarefni sem lögreglan glímir við.

  Í áætluninni er ekki aðeins tekið á verkefnum lögreglu út á við heldur einnig litið til innra starfs lögreglu og starfsumhverfis lögreglumanna. Miklu skiptir að tryggja góðan starfsanda meðal lögreglumanna, treysta öryggi þeirra við hættumikil störf og sjá til þess, að fyrir hendi séu hæfileg stuðningsúrræði til að stuðla að sem bestri líðan, þrátt fyrir glímu við erfið verkefni.

  Virðing fyrir störfum lögreglunnar er mikil meðal þjóðarinnar. Hún sprettur ekki af sjálfu sér, heldur árætur að rekja til þess, að lögreglumenn vinna störf sín af alúð og árvekni. Í trausti þess, að svo verði enn um langan aldur, er áætlun þessi samin með öryggi lands og þjóðar að leiðarljósi.”

Löggæsluáætlunin var eðlilegt framhald og viðbót við þær viðamiklu breytingar, sem gerðar voru á skipulagi lögreglunnar í ársbyrjun 2007.  Mun eðlilegra hefði þó verið að slík vinna hefði verið á höndum Alþingis, líkt og LL hefur kallað eftir og löggæsluáætlun fyrir Ísland samþykkt þaðan, með nauðsynlegum fjárveitingum til að halda henni úti.  Slíka áætlun er, að mati LL, eingöngu hægt að vinna út frá fjórum meginskilgreiningum, eins og ítrekað hefur komið fram í málflutningi LL þ.e:

 1. Öryggisstig fyrir Ísland skilgreint,

 2. Þjónustustig lögreglu skilgreint,

 3. Mannaflaþörf lögreglu skilgreind,

 4. Fjárveitingar til lögreglu skilgreindar.

Mat á árangri af skipulagsbreytingunum 2007:

 • Eina skýrslan, sem LL er kunnugt um að hafi verið unnin, til að meta árangurinn af þeim skipulagsbreytingum, sem farið var af stað með í ársbyrjun 2007 er áfangaskýrsla til dómsmálaráðherra um “Mat á breytingum á nýskipan lögreglu”, sem gefin var út, af Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (þar á eftir hét það Dóms- og mannréttindaráðuneytið en nú Innanríkisráðuneytið) í apríl 2008.

 • Skýrslan var unnin af nefnd, sem skipuð var af Birni Bjarnasyni, þáverandi dómsmálaráðherra, til að fylgjast með endurskipulagningu lögregluembætta.

 • Í nefndinni sátu:

  Þórunn J. Hafstein, frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu;

  Sigríður Björk Guðjónsdóttir, frá lögreglustjórafélaginu og

  Sveinn Ingiberg Magnússon, fyrrverandi formaður LL.

 • LL veit ekki til þess – þrátt fyrir að LL hafi margítrekað kallað eftir að slíkt yrði gert – að neinar kannanir hafi verið gerðar um það, meðal lögreglumanna, hvernig þeir meti árangurinn af þeim breytingum sem lagt var upp með í ársbyrjun 2007.

 • Það sem vekur hvað mesta athygli í þessu samhengi er sú staðreynd að nú heyrast þær raddir, meðal eins þeirra sem vann að þessum breytingum og samningu þess frumvarps sem hér hefur verið fjallað um, að réttast væri að færa sérsveit lögreglunnar (Ríkislögreglustjórans) undir stjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og þar með megi hagræða og spara (sjá hér).  Hagræða og spara í hina áttina væntanlega því eitt af meginmarkmiðunum með þeim skipulagsbreytingum sem farið var í árið 2007 var einmitt að hagræða og spara í rekstri lögreglunnar!  Eða eins og segir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem er að finna í fylgiskjali með frumvarpinu:

“Meginmarkmið þessara breytinga er að bæta og efla löggæslu í landinu.  Þær eru því eðlilegt næsta skref eftir að ákvörðun var tekin í ársbyrjun 2004 um að stórefla sérsveit lögreglunnar og færa stjórn hennar frá einstökum lögreglustjórum undir stjórn ríkislögreglustjóra.  Á þessu ári er verið að stíga síðasta skrefið við framkvæmd þeirrar áætlunar.”

Til baka