Fréttir

2010

8 nóv. 2009

ÞESSI SÍÐA ER Í STÖÐUGRI VINNSLU OG MUN TAKA BREYTINGUM EFTIR ÞVÍ SEM UMRÆÐA UM SKIPULAGSBREYTINGAR Í LÖGREGLU ÞRÓAST HVERJU SINNI.

Rétt er að það komi fram strax, hér í upphafi þessa texta, að LL lagðist gegn frekari skipulagsbreytingum í lögreglu á haustmánuðum 2008, þegar Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra kynnti LL minnisblað sitt um endurskoðun lögreglulaga.

Forsendur þess að LL lagðist gegn frekari skipulagsbreytingum í lögreglu, má lesa í kaflanum „Athugasemdir LL vegna hugmynda ráðherra um endurskoðun skipulags lögreglu 2008“ hér neðar í þessum texta.  Þessar forsendur hafa ekkert breyst og ekkert útlit er fyrir að þær muni breytast neitt í bráð.  Þá eru fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á lögreglunni ekki til þess fallnar að breyta þessum forsendum.

Þessi viðhorf voru ítrekuð á fyrsta og eina fundi fulltrúa LL með þeim starfshópi, sem kom að frumvinnu þeirra hugmynda, sem nú hafa litið dagsins ljós.  Viðhorf LL voru síðar ítrekuð, bæði munnlega og skriflega, á vinnufundum starfshópsins á seinni stigum vinnunnar, eftir að formaður LL hafði komið að vinnu hans sem „ráðgjafi“ að beiðni dómsmálaráðherra.

Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa í huga þær skipulagsbreytingar, sem boðaðar hafa verið á varnarmálum Íslands, með frumvarpi til breytinga á varnarmálalögum sem miða að niðurlagningu Varnarmálastofnunar.  Sérstakan kafla um þær breytingar er að finna hér neðar í þessari umfjöllun.  (Þessar breytingar – niðurlagning Varnarmálastofnunar – hafa nú (2011) litið dagsins ljós) – sjá sérstaka umfjöllun um niðurlagningu Varnarmálastofnunar neðst á þessari síðu.

 

* * * * *

 Inngangur:

Í desember 2008 gaf Fjármálaráðuneytið út skýrsluna „Sameining ríkisstofnana og tengdar breytingar“.  Þetta rit, sem er upp á rétt tæpar 90 blaðsíður er afar fróðlegt í ljósi þeirra skipulagsbreytinga og sameiningaráforma, sem uppi eru í lögreglunni um þessar mundir.  Tilgangur ritsins er sagður vera sá að taka saman vegvísi fyrir þá sem stjórna eða taka þátt í sameiningarferli á vegum ríkisins.

Í inngangi ritsins má finna þennan, afar athyglisverða texta:

„Töluvert er til af erlendu efni um sameiningu fyrirtækja en lítið virðist vera til um aðferðarfræði og reynslu af sameiningu opinberra stofnana. Erlendar rannsóknir sem greint er frá í viðauka 1 benda til þess að sameiningar og aðrar meiriháttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir eða í undir 15% tilvika. Helstu ástæður eru sagðar vera þessar:

Markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.

Fjárhagsleg samlegð er ofmetin.

Undirbúningi og skipulagningu er áfátt.

Ekki tekst að kveikja nægan áhugaá sameiningunni.

Starfsmannamálum er ekki sinnt nógu vel.

Breytingastarfið lognast út af áður en því er lokið.“

Rétt er að sérhver skoði sjálfan sig og sitt nánast umhverfi, í ljósi þeirra breytinga, sem farið var af stað með í ársbyrjun 2007 og láti samvisku sína dæma um hvernig til hafi tekist.

Helstu markmið skipulagsbreytinganna 2010 og áætlaður kostnaðarauki vegna þeirra:

Helstu markmið breytinganna voru:

  1. að tryggja þá grunnþjónustu sem lögreglu ber að veita;
  2. að nýta sérhæfingu innan lögreglunnar þannig að hún gagnist sem best um allt land;
  3. að stjórnunarkostnaður verði lækkaður eins mikið og unnt er til að mæta sparnaðarkröfum næstu ára.

Ekki var gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna þeirra breytinga, sem að var stefnt að gera á löggæslu á Íslandi á árinu 2010 enda eitt af yfirlýstum markmiðum þeirra að draga úr kostnaði við löggæslu.

Helstu skýrslur vegna og í tengslum við breytingarnar 2010:

Ýmsar aðrar skýrslur:

Í júní 2010 kom út mastersritgerð (MPA) Boga Hjálmtýssonar, fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði, sem unnin var sem sjálfstætt rannsóknar- og lokaverkefni í opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Það vekur athygli, við lestur ritgerðar Boga, að í henni birtast fyrst upplýsingar um það – þremur árum eftir að sameiningarferli lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu hófst – til hvaða aðferðarfræði hafi verið horft við skipulagsbreytingarnar (bls. 40) en þar segir að horft hafi verið til aðferða John P. Kotter um breytingastjórnun.

Aðferðafræði John P. Kotter, sem er sú sama og beitt var við skipulagsbreytingarnar sem gerðar voru á lögreglunni í Danmörku í byrjun árs 2007, gengur út á átta (8) þrep og átta (8) villur.

Rex Degnegaard, prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn ritaði doktorsritgerð sína um skipulagsbreytingarnar í Danmörku (sjá hér neðar).  Í ritgerð hans kemur fram að skipulagsbreytingarnar í Danmörku hafi verið mikil mistök (Rex Degnegaard, bls. 228; Bogi Hjálmtýsson, bls. 122).

Í ritgerð Degnegaard segir að einn fylgifiskur aðferðafræði John P. Kotter sé sá að breytingastjórnunni sé stýrt ofan frá og niður (e. Top-Down Methodology) og þá hafi aðferðafræði Kotter einnig verið gagnrýnd sem alræðisleg og ómannleg! Degnegaard skrifar einnig að þegar unnið hafi verið að breytingunum í Danmörku hafi verið litið á menninguna innan lögreglunnar (vinnustaðamenningu) sem dragbít í stað auðlindar og stjórnendur þannig litið á starfsfólk sitt sem óvini!

Þá hefur Þorleifur Pálsson skilað dómsmálaráðherra skýrslu sinni um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu, sem nauðsynlegt er að hafa til hliðsjónar við yfirlestur þeirra fjölmörgu skýrslna sem út hafa komið um nýskipan lögreglumála enda er hér um samtvinnaða starfsemi að ræða, að mörgu leyti.  Það var enda ein af forsendunum fyrir því fjárhagslega hagræði, sem af skipulagsbreytingum í lögreglu myndi leiða, að jafnframt yrði farið í „fækkun og stækkun“ sýslumannsembættanna í landinu.

Erlendar skýrslur og gögn vegna skipulagsbreytinga í lögreglu:

England:

Danmörk:

Lög og lagafrumvörpí tengslum við breytingarnar 2010 og umsögn LL:

Ýmsar ályktanir sem fram hafa komið í tengslum við fréttir af skipulagsbreytingum í lögreglu 2010:

Þann 9. október 2009 lýsti byggðarráð Norðurþings (Húsavík) áhyggjum sínum af fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á sýslumannsembættinu og lögreglu á Húsavík – sjá lið 16. í fundargerð byggðarráðsins frá þessum tíma.

Hægt er að lesa fundargerðina hér.

Þann 20. október 2009 ályktaði Framsýn (stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum) í tengslum við skipulagsbreytingarnar og lýsti yfir áhyggjum sínum vegna boðaðra breytinga á sýslumannsembættinu á Húsavík.

Ályktunina má lesa hér.

Þann 21. desember 2009 sendi bæjarráð Grundarfjarðar frá sér ályktun þar sem m.a. er lýst yfir þungum áhyggjum vegna boðaðs niðurskurðar hjá Sýslumanni Snæfellinga.

Ályktunina má lesa hér.

Margar fleiri ályktanir gegn frekari „fækkun og stækkun“ lögregluembætta, bæði sveitarstjórna og svæðisdeilda lögreglu, hafa verið birtar en plássins vegna er látið nægja, að sinni, að birta ofangreint.

Helstu nýmæli sem felast í drögum að lagafrumvarpi því sem fylgir skýrslu starfshópsins:

Hér fyrir neðan er farið yfir þau drög að lagafrumvarpi, sem fylgdi skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra, sem skilað var í október 2008.

Rétt er að taka það fram hér að það frumvarp, sem síðar var lagt fram, tók allnokkrum breytingum, frá því sem greint er frá hér að neðan og því nauðsynlegt, fyrir þá sem kynna sér þessi mál að lesa umrætt lagafrumvarp en hlekkur á það er hér að ofan.

1. gr.

  • Verið að styrkja heimildir lögreglu til þáttöku í alþjóðlegu samstarfi með innleiðingu reglugerðar ESB nr. 863/2007 um hraðsveitir landamæravarða (tengist þó ekki skipulagsbreytingunum).

2. gr.

  • Heimildir til handa Ríkislögreglustjóranum til að fela einstaka lögregluembættum miðlæg löggæsluverkefni með bréfi.
  • Jafnframt fellt út úr gildandi lögum ákvæði um aðstoðarríkislögreglustjóra (í samræmi við það markmið að mæta niðurskurði á fjárlögum með fækkun yfirmanna og einnig í samræmi við það stefnumið að ekki þurfi að telja upp í lögum allar stöður yfirmanna í lögreglunni).

3. gr.

  • Fækkun lögregluumdæma úr 15 í 6.  Mörk umdæmanna ákveðin í reglugerð til að gera það auðveldara um vik að mæta breytingum á stærð og umfangi sveitarfélaga, sem eru í nokkuð öru breytingaferli.
  • Embætti aðstoðarlögreglustjóra, sem nú eru tilgreind á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu felld úr lögum (í samræmi við það markmið að mæta niðurskurði á fjárlögum með fækkun yfirmanna og einnig í samræmi við það stefnumið að ekki þurfi að telja upp í lögum allar stöður yfirmanna í lögreglunni).

4. gr.

  • Breyting gerð á fyrirkomulagi rannsóknardeilda og ráð fyrir því gert að sérstakar rannsóknardeildir starfi í öllum sex umdæmunum.
  • Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu áfram falið það hlutverk að starfrækja tæknideild, sem er hinum embættunum til aðstoðar ef þörf er á.  Ekki er ætlast til þess að hvert umdæmi setji á laggirnar dýra tæknideild.

5. gr.

  • Orðalagsbreytingar sem orsakast af breytingum, sem upp eru taldar í 2. og 3. gr. um stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra.

6. gr.

  • Breyting á samsetningu samstarfsnefnda lögreglu og sveitarfélaga.

7. gr.

  • Hæfisskilyrði lögreglustjóra upptalin í stað þess að vísa í önnur lög með slíkt.
  • Sú breyting gerð að ekki verður lengur kveðið á um það að staðgengill lögreglustjóra þurfi að uppfylla sömu hæfisskilyrði og hann sjálfur.  Samkvæmt þessu geta þeir undirmenn lögreglustjóra, sem lokið hafa námi frá lögregluskóla ríkisins verið staðgenglar hans.
  • Gert ráð fyrir að lögreglustjórar skipi alla lögreglumenn við sitt embætti í stað annarsvegar Dómsmálaráðherra og Ríkislögreglustjóra, líkt og gert er nú.
  • Ákvæði um það að heimilt sé að ráða menn, án lögreglumenntunar (aðra en héraðslögreglumenn) til starfa í lögreglu, felld úr lögum.

8.gr.

  • Sérstakt starfsheiti“skólastjóra“ lögregluskóla ríkisins fellt úr lögum og fellur staða hans inn í lögin, sem „lögreglustjóri“ enda raunverulega sú staða sem skólastjóri LSR gegnir.
  • Felld út úr lögum upptalning á embættum lögreglumanna við lögregluskólann enda enga slíka upptalningu að finna í núgildandi lögreglulögum um einstaka lögregluembætti.

9. gr.

  • Breyting á fyrirkomulagi launagreiðslna til nemenda er stunda nám við lögregluskólann í þá veru að hætta að greiða laun vegna síðari annar grunnnámsdeildarinnar, líkt og nú er raunin með fyrri önnina.  Þess í stað komi lögregluskólinn til með að standa straum af kostnaði vegna launagreiðslna til nema í starfsnámi.

10. gr.

  • Ákvæði um gildistöku laganna og um forgangsrétt lögreglustjóra til starfa í nýju og breyttu fyrirkomulagi lögreglunnar.
  • Ákvæði um að ný embætti taki við öllum starfsmönnum eldri lögregluembætta á sömu starfskjörum að undanskildum lögreglustjórum eldri embætta en störf þeirra eru lögð niður við gildistöku þessara laga.
  • Ákvæði um að Dómsmála- og mannréttindaráðherra sé heimilt að flytja menn úr eldra embætti í nýtt embætti.

11. gr.

  • Breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að koma á aðskilnaði lögreglustjóra og sýslumanna.

Hér skal tekið fram að það frumvarp, til breytinga á lögreglulögum, sem endanlega var lagt fram af hálfu dómsmálaráðherra var töluvert frábrugðið þeim drögum sem lögð voru fram með greinargerð starfshópsins, sem falið var það hlutverk að koma fram með tillögur um skipulagsbreytingar í lögreglu og lögð var fram í október 2009.  Þá er einnig rétt að geta þess að LL var EKKI sammála öllu því sem fram kemur í þeirri skýrslu sem gefin var út í október 2009, svo sem lesa má í inngangi (á undan undirskriftum skýrsluhöfunda) að skýrslunni!   

„Gamalt vín á nýjum belgjum“:

Í kjölfar þeirra viðamiklu breytinga, sem gerðar voru á skipulagi lögreglunnar á Íslandi í ársbyrjun 2007, hefðu flestir talið að nóg væri að komið, a.m.k. að sinni.  Þannig hefði kannski verið eðlilegt að einhver ár liðu og reynsla yrði fengin á þessar viðamiklu breytingar, áður en farið yrði að huga að frekari breytingum á skipulagi lögreglu og þá að einhver úttekt yrði gerð á breytingunum til að sjá hvernig til hefði tekist.

Því var hinsvegar öðruvísi farið. Í kjölfarið á áfangaskýrslu til dómsmálaráðherra um „Mat á breytingum á nýskipan lögreglu“, sem gefin var út í apríl 2008 og unnin var af nefnd, sem skipuð var af þáverandi dómsmálaráðherra og skipuð þeim Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi aðstoðarríkislögreglustjóra, sem tilnefnd var af lögreglustjórafélaginu og Sveini Ingiberg Magnússyni, þáverandi formanni Landssambands lögreglumanna, ákvað Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, að endurskoða lögreglulögin enn á ný með það að markmiði að sameina, fækka, stækka og styrkja lögregluembætti landsins enn frekar og þar með, í raun, endanlega skilja á milli lögreglustjórnar annarsvegar og hlutverka sýslumanna hinsvegar.

Rétt er að nefna það hér, svo sem fram kemur einnig undir hlekknum „2007“ hér til hliðar, að þær hugmyndir, sem lagðar hafa verið fram núna, um frekari skipulagsbreytingar í lögreglu, er allar að finna í fyrstu skýrslunni, sem unnin var á árunum 2003 – 2005, og gefin var út í janúar 2005.  Rétt er að benda lesendum þessara síðna á að kynna sér sérstaklega hugmyndir fjórmenninganna (Ólafs Kr. Ólafssonar, Jónmundar Kjartanssonar, Kjartans Þorkelssonar og Karls Steinars Valssonar), sem verkefnisstjórnin leitaði til sem sérfróðra manna um skipulag og vinnu lögreglu, en þær er að finna sem hér segir:

VIÐAUK I – á bls. 57 – 74

  • Þar setur Ólafur Kr. Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga fram sínar hugmyndir og sýn á framtíðarskipulag lögreglu.

VIÐAUKI II – á bls. 75 – 97

  • Þar setur Jónmundur Kjartansson, yfirlögregluþjónn fram sínar hugmyndir og sýn á framtíðarskipulag lögreglu.

VIÐAUK III -á bls. 98 -107

  • Þar setur Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli fram sínar hugmyndir og sýn á framtíðarskipulag lögreglu.

VIÐAUKI IV -á bls. 108 – 128

  • Þar setur Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn fram sínar hugmyndir og sýn á framtíðarskipulag lögreglu.

Það vekur athygli, við lestur hugmynda þessara fjögurra aðila, sem allir starfa innan lögreglu, að þarna getur fyrst að líta hugmyndir um:

  1. fækkun yfirmanna í lögreglu;
  2. tilfærslu verkefna frá Ríkslögreglustjóra til sameinaðs embættis á höfuðborgarsvæðinu (fjarskiptamiðstöð, sérsveit og starfsmannahald, svo eitthvað sé nefnt);
  3. breytingar á lögregluskóla ríksins í því skyni að gera hann að „alhliða öryggisskóla“ og tilfærslu hans á Keflavíkurflugvöll;
  4. það skipurit, sem nú hefur verið lagt fram sem miðar að sex (6) lögregluembættum (Reykjanes, Höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Norðurland, Austurland og Suðurland);
  5. niðurlagningu Ríkislögreglustjórans í heild sinni og færslu allra verkefna, sem þar eru unnin til sameinaðs lögregluliðs á Höfuðborgarsvæðinu;
  6. tilfærslu verkefna, frá lögreglu(mönnum) til annarra starfsmanna lögreglu og jafnvel annarra stofnana.

Ekki er vitað til þess að þeir Ólafur Kr., Jónmundur, Kjartan eða Karl Steinar hafi haft nokkurt samráð við LL við ritun viðauka sinna við skýrsluna sem verður að teljast miður (hafi þeir ekki haft samráð við LL) þar sem í „skýrslum“ þeirra eru þeir að fjalla um atriði er varða réttindi, starfskjör, möguleika lögreglumanna til aukins frama innan lögreglu og einnig atriði er hafa bein áhrif á launakjör lögreglustéttarinnar í heild sinni!

Rétt er einnig að benda lesendum á að kynna sér efni bréfs yfirlögregluþjónanna á Norðurlandi, þeirra Björns Mikaelssonar, Kristjáns Þorbjörnssonar, Sigurðar Brynjúlfssonar, Daníels Guðjónssonar og Ólafs Ásgeirssonar, sem er að finna á bls. 83 – 84 í skýrslunni „Mat á breytingum á nýskipan lögreglu“ frá apríl 2008.

Þá er einnig rétt að minna á ályktun aðalfundar Félags yfirlögregluþjóna frá því um miðjan september s.l., sem hægt er að lesa hér.

Í kjölfarið á framlagningu skýrslu verkefnisstjórnarinnar (Stefán Eiríksson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Skúli Magnússon auk hugmynda Ólafs Kr. Ólafssonar, Jónmundar Kjartanssonar, Kjartans Þorkelssonar og Karls Steinars Valssonar) kynnti Björn Bjarnason hugmyndir sínar um endurskipulagningu lögreglunnar sem miðuðu að því að í landinu yrðu starfandi sex (6) til átta (8) lögreglustjórar, auk Ríkislögreglustjórans (RLS) og skólastjóra lögregluskóla ríkisins (LSR).  Þessar hugmyndir tóku síðan nokkrum breytingum og endingin varð sú að fækka lögregluembættum úr 27 í 15, svo sem gerð hefur verið grein fyrir undir hlekknum „2007“ hér til hliðar.

Skýrsla (Mat á breytingum á nýskipan lögreglu) nefndarinnar 2008:

Í skýrslu nefndarinnar voru birtar hugmyndir og tillögur sem þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra ákvað, að teknar yrðu til skoðunar, fylgt eftir með umræðum og síðan aðgerðum.  Í niðurstöðum skýrslunnar var m.a. að finna eftirfarandi atriði:

„Nefndin telur tímabært að huga að heildarendurskoðun lögreglulaga, þar sem lögð verði áhersla á að skilgreina hlutverk lögreglu, inntak og mörk lögregluvalds, valdbeitingarheimildir og rannsóknarheimildir lögreglu, varalið og forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, það er öryggis- og greiningarþjónustu.

  • Nefndarmenn telja að breytingin hinn 1. janúar 2007 hafi ekki verið nægilega róttæk til að tryggja bestu nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu. Sum lögreglulið séu mjög fámenn, hlutfall stjórnenda sé í velflestum liðum hátt og markmið um sérstakar rannsóknardeildir hafi ekki fyllilega gengið eftir.
  • Nefndin telur að meiri stækkun lögregluembætta geti enn aukið slagkraft lögregluliða til að markmiðunum, sem sett voru með breytingunum 1. janúar 2007, verði náð.
  • Nefndin bendir á að endurskoða þurfi inntak starfsstiga, samkvæmt ákvæðum reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar, svo að skilgreiningin endurspegli raunverulega verkaskiptingu.  
  • Nefndin telur rétt, að hugað verði að þróun reiknilíkans til að auka gegnsæi við greiðslu á löggæslukostnaði úr ríkissjóði og stuðla að því að inntak löggæsluþjónustu sé skilgreint.
  • Nefndin telur óhjákvæmilegt, að lögreglustjórum verði gert kleift að sinna eingöngu lögreglustjórn og huga beri að því, hvort leggja eigi lögfræðimenntun lögreglustjóra til jafns við stjórnunarreynslu innan lögreglu og stjórnunarmenntun við val á lögreglustjórum.  Þá telur nefndin jafnframt, að stjórnendur eigi að sjá til þess að menntaðir lögreglumenn sinni eingöngu störfum sem falla undir eiginleg löggæslustörf og starfsfólk með annars konar menntun sinni öðrum störfum hjá lögregluembættum.
  • Nefndin mælir með því að aukin áhersla verði lögð á að umbuna einstökum lögreglumönnum vegna árangurs í starfi og persónulegra eiginleika frekar en hækka þá um starfsstig. 
  • Nefndin mælir með því að hugað verði að nýrri skipan lögreglurannsókna. Hinar sérstöku rannsóknardeildir, sem ætlað sé að þjóna öðrum umdæmum, verði lagðar niður og rannsóknarstörf lögreglu verði færð í fyrra horf og undir stjórn lögreglustjóra innan hvers umdæmis. Slíkt útiloki þó ekki að sérhæfing myndist í einstökum umdæmum, í samræmi við markmið breytinganna.“

Í ljósi ofangreindrar skýrslu ákvað þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að beita sér fyrir frekari endurskoðun á skipulagi lögreglunnar, sbr. ofanritað.

Athugasemdir LL, vegna hugmynda ráðherra um endurskoðun skipulags lögreglu 2008:

Í ágúst 2008 barst Landssambandi Lögreglumanna (LL) minnisblað ráðherra vegna hugmynda hans um endurskoðun lögreglulaga.

Í sem skemmstu máli er rétt frá því að segja að LL lagðist gegn frekari skipulagsbreytingum á lögreglunni, í ljósi þeirrar neikvæðu umræðu og skoðana, sem komið hefðu fram, frá sameiningunni í byrjun árs 2007.  LL lagði á það áherslu að komin væri mikil breytinga, -þreyta, -leiði og -reiði í lögreglumenn, sem safnast hefði ofan á umræðu um bág launkjör almennt, launaskerðingar, aukið álag, fjölgun verkefni, fækkunar lögreglumanna o.fl.  Það væri því, að mati LL, afar óráðlegt að fara í frekari skipulagsbreytingar á löggæslunni í landinu að svo komnu máli.

Hér fyrir neðan er inngangurinn að þeim athugasemdum sem LL sendi frá sér vegna áforma dómsmálaráðherra um frekari skipulagsbreytingar á lögreglu, sbr. ofanritað:

„Landssamband Lögreglumanna fagnar því sérstaklega að lögreglan hafi fengið þá athygli sem hún verðskuldar og að í gangi skuli vera vinna til að efla enn frekar starfsemi lögreglu í landinu, sér í lagi í ljósi þess að Ísland hefur ekki yfir að ráða her eða heimavarnarliði sem hægt er að leita til á ótryggum tímum. Fyrir vikið verður lögregla, í landi sem okkar, að vera öflug, skipulögð og vel mönnum og tækjum búin.

Lögreglan hefur gengið í gegnum veigamiklar breytingar í gegnum árin. Má þar nefna niðurlagningu rannsóknarlögreglu ríkisins (RLR) árið 1997 og stofnun embættis ríkislögreglustjóra (RLS). Sú breyting sætti nokkurrar gagnrýni á sínum tíma og enn má heyra gagnrýnisraddir í þá veru að ekki hefði átt að leggja niður starfsemi RLR. Þá eru stöðugt uppi gagnrýnisraddir í þá veru að RLS sé komið allt of langt frá uppruna sínum og að embættið sé komið í „samkeppni“ um löggæsluverkefni við önnur lögregluembætti en það hafi ekki átt að verða hlutskipti embættisins.

Breytingar á lögreglustjóraembættunum, sem hrint var í framkvæmd í byrjun árs 2007 eru öllum í fersku minni. Sú skoðun fer sífellt vaxandi meðal lögreglumanna, sem vinna í embættunum, að ekki hafi tekist sem skyldi við breytingarnar í byrjun árs 2007 og kemur þar, að meginstofni þrennt til. Í fyrsta lagi hafi það verið mistök að ætla að svo viðamiklar breytingar myndu ekki hafa í för með sér aukinn kostnað a.m.k. á fyrstu árum breytingaferlisins; í öðru lagi að ekki hafi verið staðið nógu vel að því að hlúa að starfsmönnum embættanna við þessar breytingar og starfsandi, innan lögreglu þ.a.l. kominn hættulega neðarlega og í þriðja lagi hafi launakjör lögreglumanna, í sumum tilvikum, rýrnað verulega við skipulagsbreytingarnar þegar embættin, vegna ónógra fjárveitinga, hafa orðið að grípa til aðhaldsaðgerða til að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Þá hafa launakjör lögreglumanna, almennt, ekki endurspeglað þá ábyrgð og áhættu sem fylgir starfinu né þá hæfni sem krafist er af þeim er sinna lögreglustörfum og það hefur aftur haft áhrif á og endurspeglast í minnkandi starfsanda innan liðsheildarinnar.

Í ljósi ofangreinds getur Landssamband Lögreglumanna (LL) ekki lýst sig fylgjandi frekari skipulagsbreytingum á uppbyggingu lögreglunnar á Íslandi fyrr en gengið hefur verið í það að laga innviði lögreglunnar, taka á fjárhagsvanda embættanna, setja í gang markvissa vinnu til að laga starfsanda í lögreglu og leiðrétta launakjör lögreglumanna en öll þessi atriði haldast nokkuð í hendur.“

LL lagði einnig áherslu á önnur atriði, í inngangi sínum vegna athugasemda við minnisblað ráðherra um endurskoðun lögreglulaga, s.s:

„Þá telur LL telur að stjórnvöld, með Alþingi Íslendinga í fararbroddi, þurfi að leggja í viðamikla vinnu, í ljósi þess sem sett er fram í löggæsluáætlun 2007 – 2011; starfsmannastefnu lögreglunnar; áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu; skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjórans um mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, svo eitthvað sé nefnt og setja sér skýr markmið er kemur að eftirfarandi:

  1. Öryggisstigi á Íslandi;
  2. Þjónustustigi lögreglu;
  3. Mannaflaþörf lögreglu til að halda úti hvorutveggja tilgreindu öryggis- og þjónustustigi;
  4. Tryggum fjárveitingum til reksturs lögreglunnar í samræmi við ofangreint.

Í þessari stefnumótunarvinnu þarf að taka um það pólitískar ákvarðanir hvaða verkefni það eru sem lögregla á og skal sinna og hvaða verkefnum, sem lögregla sinnir nú, megi útvista til einkaaðila.

Um öll ofangreind atriði þarf að vera full sátt áður en hægt verður að fara í frekari skipulagsbreytingar á löggæslu í landinu.“

LL hefur, margítrekað, bent á nauðsyn þess að fyrir liggi skilgreiningar á 1. Öryggisstigi á Íslandi og 2. Þjónustuhlutverki lögreglu þ.a. hægt sé að taka ákvarðanir um 3. Mannaflaþörf lögreglu og í framhaldinu 4. Ákvarða fjárveitingar til lögreglu.  Segja má að hér sé verið að horfa til þess sem kallað hefur verið „Activity Based Costing“ sem gengur, í stuttu máli, út á það að skilgreina hlutverk (þjónustu) fyrirtækis eða stofnunar og út frá skilgreindum hlutverkum ákvarða kostnaðinn sem af þessum hlutverkum leiðir.  Eflaust er unnið skv. þessari aðferðafræði einhversstaðar innan lögreglu en hún virðist hinsvegar ekki vera notuð við þá nauðsynlegu grunnáætlangerð sem felst í því að ákvarða fjárveitingar til lögreglu á fjárlögum, a.m.k. liggja enn ekki fyrir þær nauðsynlegu grunnskilgreingar, sem fjallað er um hér að ofan.

Þessari aðferðafræði hefur verið beitt við ákvörðun fjárveitinga til lögreglu t.a.m. í Bretlandi og þar hefur m.a.s. verið notast við reiknilíkan (Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra var kominn af stað með vinnu í þessum efnum) til að ákvarða fjárveitingar til einstakra lögregluliða en óvíst er hvort sama aðferðafræði er notuð við frumáætlanagerðina þ.e. heildarfjárveitingar til lögreglu á fjárlögum.

Áframhald vinnunnar vegna endurskipulagningar lögreglu:

Dómsmálaráðherra aflaði skoðana fleiri aðila, sem að löggæslu koma og birti niðurstöður eftirgrenslanar sinnar m.a. á aðalfundi sýslumannafélagsins í september 2008.

Um mitt ár 2009 kynnti fyrrverandi dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir, hugmyndir sínar um skipulagsbreytingar í lögreglu í þá veru að einungis einn lögreglustjóri yrði starfandi í landinu.  Í ljósi þessa skipaði hún starfshóp, sem í áttu sæti, Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri löggæsluskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og Ásdís Ingibjargardóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.

Starfshópurinn fékk á sinn fund fjölda aðila til að afla upplýsinga, sem nýtast myndu í þeirri vinnu, sem framundan var og boðuð hafði verið af ráðherra.

LL var einn þeirra aðila, sem kallaður var á fund starfshópsins.  LL lagði, í máli sínu, mikla og þunga áherslu á þær athugasemdir, sem gerðar höfðu verið við minnisblað Björns Bjarnasonar, vegna endurskoðun lögreglulaga fráþví í ágúst 2008 (sjá hér að ofan).

Starfshópurinn, sem ráðherra fól að skoða og útfæra hugmyndir um einn lögreglustjóra í landinu, skilaði ráðherra skýrslu sinni munnlega og lagði til tvær leiðir, annarsvegar þá sem ráðherra hafði lagt upp með, þ.e. að í landinu yrði starfandi einungis einn lögreglustjóri og hinsvegar þá leið, sem Björn Bjarnason hafði lagt af stað með á haustmánuðum 2008 þ.e. að fækka lögreglustjórum úr 15 í 6 – 8 (plús Ríkislögreglustjórinn og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins). Starfshópurinn lagði áherslu á fyrri leiðina þ.e. þá leið að hafa einn lögreglustjóra í landinu.

Í kjölfar þeirrar vinnu, sem starfshópurinn skilaði af sér til ráðherra, leitaði hún eftir því við formann LL (Snorra Magnússon) og formann lögreglustjórafélagsins (Kjartan Þorkelsson) að þeir kæmu að frekara starfi starfshópsins, sem ráðgjafar en sætu jafnframt alla vinnufundi hans.  Báðir formennirnirnir þekktust boð ráðherra enda um að ræða atriði, sem voru til umfjöllunar starfshópsins, er hefðu áhrif á réttindi og skyldur félagsmanna beggja félaga.

Starfshópurinn hittist á allmörgum fundum, í framhaldinu og lagðist yfir málin.  Niðurstaða þeirrar vinnu var sú að ganga á fund ráðherra og leggja það til að í stað þess að fara þá leið að í landinu yrði starfandi einungis einn lögreglustjóri þá yrði haldið áfram þeirri vinnu, sem fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hafði lagt upp með þ.e. að fækka lögreglustjórum úr 15 í 6 (plús Ríkislögreglustjórinn og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins).  Talið var að tíminn, sem var til stefnu, væri alltof naumur til aðvinna að svo viðamikilli breytingu, sem fólst í því að fara í einn lögreglustjóra auk þess sem sú hugmynd mætti mikilli andstöðu flestallra, sem um hana höfðu fjallað.  Það varð úr að ráðherra féllst á ráðleggingar starfshópsins og ákvað að unnið yrði að því að fækka lögreglustjórum úr 15 í 6 (plús Ríkislögreglustjórinn og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins).

Í sama ljósi var talin þörf á því, ef þessar hugmyndir ættu að ná fram að ganga, að fækka þyrfti sýslumönnum, sem nú eru tuttugu og fjórir (24) í landinu í sjö (7).  Þetta var talið nauðsynlegt til að áform um nauðsynlegt aðhald í ríkisrekstri og skertar fjárveitingar til málaflokksins um a.m.k. 10% næðu fram að ganga.  Ráðherra hefur nú, hinsvegar, tímabundið, horfið frá hugmyndinni um fækkun sýslumanna þar sem talið er að tíminn sé alltof naumur til stefnu til að útfæra og vinna að þeim hugmyndum.  Ljóst má telja að sú gríðamikla gagnrýni, sem borist hefur frá sýslumönnunum sjálfum, sveitarstjórnum o.fl. hefur haft þar einhver áhrif!

Greinargerð starfshópsins, sem og skýrslu Ríkislögreglustjórans um grunnþjónustu lögreglu má lesa hér.

Skipulagsbreytingar í varnarmálum (niðurlagning Varnarmálastofnunar):

ÞESSI KAFLI ER Í VINNSLU OG MUN TAKA BREYTINGUM Á NÆSTU VIKUM OG MÁNUÐUM

Þann 31. mars 2010 birtust fréttir af því í fjömiðlum að ríkisstjórnin hefði samþykkt að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum, sem m.a. miðuðu að því að Varnarmálastofnun yrði lögð niður og verkefni hennar falin öðrum stofnunum hins opinbera.  Unnin hafði verið skýrsla um efnið, af starfshópi sem skipaður var í desember [2009]. Skýsla þessi fékk heitið:  Skýrsla starfshóps um öryggismál og endurskipulagningu Stjórnarráðsins.

Í starfshópnum, sem falið var það hlutverk að rita skýrslu um mögulegt framtíðarskipulag verkefna Varnarmálastofnunar var einn fulltrúi frá dómsmálaráðuneytinu, einn frá utanríkisráðuneytinu – sem jafnframt var formaður starfshópsins, einn frá fjármálaráðuneytinu og einn frá samgönguráðuneytinu.  Það er skemmst frá því að segja að Landssamband lögreglumanna (LL) kom ekkert að vinnu starfshópsins og hafði ekki hugmynd um tilurð hans fyrr en fréttir bárust af útkomu skýrslunnar m.a. í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, sem birt var þann 31. mars 2010 og í fréttum hinna ýmsu fjölmiðla.  Þá hefur LL einnig vitneskju um það að embætti ríkislögreglustjórans kom ekkert að vinnslu skýrslunnar að öðru leyti en því að embættið var beðið um að halda kynningu fyrir starfshópinn, á eðli og umfangi RLS.

LL var boðið, af utanríkismálanefnd Alþingis að gera athugasemdir við frumvarpið, þegar það hafði verið lagt fram og fyrstu umræðu um það lokið á Alþingi.  Athugasemdir LL, við frumvarpið má lesa í hlekk hér að neðan, sem og athugasemdir annarra aðila sem boðið var að koma að athugasemdum um frumvarpið.  Þá fór formaður LL á fund utanríkismálanefndar til að fylgja eftir athugasemdunum og svara spurningum nefndarmanna.  Á þeim fundi var lögð áhersla á það skipulagsleysi, sem virtist ríkja af hálfu stjórnvalda, er kom að endurskipulagningu lögreglumála í landinu en talsvert er fjallað um mögulegan tilflutning verkefna Varnarmálastofnunar til RLS í skýrslunni.

Lög og lagafrumvörpí tengslum við breytingar á varnarmálalögum 2010 og umsögn LL:

Þann 7. apríl 2011 lagði utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fram tillögu til þingsályktunar sem er að finna á þskj. 1247 – 723 mál um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.  Í ályktuninni er lagt til að tíu (10) manna þingmannanefnd móti þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem byggist á þeirri staðreynd að Ísland er herlaus þjóð.  Nefndinni er m.a. ætlað, í störfum sínum, að horfa til „Áhættumatsskýrslu fyrir Ísland“ sem gefin var út árið 2009.  Athygli vekur, við lestur skýrslunnar, sem er upp á 152 bls. að í henni er talsvert fjallað um hin ýmsu hlutverk lögreglu auk ýmissa ábendinga um eflingu lögreglu á ýmsum sviðum.

Hægt er að fylgjast með ferli málsins hér.

Þingsályktunartillaga Össurar fellur afar vel, að mati LL, að þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar o.fl. þingmanna um „Grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland“ sem lögð var fram á Alþingi sem þskj. 1576 – 862 mál þann 30. maí s.l. en í þeirri þingsályktunartillögu er lagt til að farið verði að hugmyndum LL um:

  1. Skilgreiningu á öryggisstigi á Íslandi,
  2. Skilgreiningu á þjónustustigi lögreglu,
  3. Skilgreiningu á mannaflaþörf lögreglu,
  4. Skilgreiningu á fjárveitingum til löggæslu.

Hægt er að fylgjast með ferli þessa máls hér.

Það verður fróðlegt að fylgjast með lyktum beggja þessar þingsályktunartillagna, sér í lagi í ljósi þess að báðar falla afar vel að þeim hugmyndum sem núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur haft í frammi m.a. um löggæslumál en m.a. hægt er að lesa um það hér, hérhérhér, hér, hérhér og hér.

Til baka