Fréttir

Fréttir af fjárlögum…

23 nóv. 2009

Þann 2. október s.l. birtist hér, á þessum vef, frétt af því að „sérstök fjárveiting“ upp á kr. 150.000.000,- fengist til eflingar almennrar löggæslu í landinu.  Verið var að vitna til fréttar af mbl.is þar sem þessa var getið sérstaklega.

Hvað þýðir þetta í raun?  Skoðum málin aðeins nánar.

 

Í fjáraukalögum, yfirstandandi fjárlagaárs, er hagræðingarkrafa á lögreglu kr. 139.500.000,-.  Það vill segja að lögreglu var, á síðari hluta ársins 2009 gert að draga saman í starfsemi sinni sem þessari upphæð nam og skiptist hún mismunandi á milli embættanna fimmtán, svo sem lesa má hér.

Í frumvarpi til fjárlaga, fyrir árið 2010, er gert ráð fyrir enn frekari hagræðingu í lögreglu, allt að tíu prósent (10%) en það þýðir, gróflega, samdrátt í útgjöldum til málaflokksins um einar 750.000.000,- kr.

Í núverandi ástandi er það ljóst að lögregla mun þurfa, á næsta ári, að draga stórlega úr þjónustu sinni við íbúa þessa lands.  Um þetta var fjallað á forsíðu Morgunblaðsins þann 16. nóvember s.l, sem og á síðu 8 í sama blaði undir fyrirsögnunum „Lögreglubílum er ekið 20% minna en árið 2007“ og „Lögregla sést sjaldnar og tekur færri fyrir brot“.  Jafnframt var fjallað um það að skráðum umferðarlagabrotum hafi fækkað um 10% á milli ára!  Þarf frekar vitnanna við?

Nú á þessi „viðbótarfjárveiting“ upp á kr. 150.000.000,- að leysa allan fyrirsjáanlegan vanda löggæslunnar og hægt á að vera að:

„…forðast frekari fækkun lögreglumanna og koma í veg fyrir fyrirsjáanlegar uppsagnir um næstu áramót…“

og

„Einnig á að nýta fjárveitinguna til að ráða svo sem kostur sé nýútskrifaða lögreglumenn, sem nú eru á atvinnuleysisskrá“.

Eins og fram kemur í fréttinni, á mbl.is, sem vitnað er til hér efst í þessari frétt.

Endanleg þýðing á ofangreindu er einfaldlega eftirfarandi:

  1. Viðbótarniðurskurðarkrafa, við það sem áður hafði átt sér stað, og birtist í fjáraukalögum fyrir árið 2009 er kr. 139.500.000,-.  Þessir fjármunir eru þegar farnir út úr rekstri lögregluembættanna!
  2. Niðurskurðarkrafa ársins 2010 er upp á 10% sem þýðir, gróflega um kr. 750.000.000,-.
  3. Á móti kemur „viðbótarfjárframlag“ upp á kr. 150.000.000,-, sem í raun þýðir það eitt að niðurskurðarkrafan á næsta ári er um kr. 600.000.000,- í stað kr. 750.000.000,-!  Það vill í raun segja að í stað um 10% niðurskurðarkröfu á næsta ári verður hún rúmlega 8%!  Hér má svo við bæta að þessar 150.000.000,- kr. skiptast EKKI jafnt á milli allra lögregluembætta landsins en nánari upplýsingar um skiptingu þeirra má, væntanlega, fá frá dómsmálaráðuneytinu.

Það væri fróðlegt að sjá einhvern fjölmiðlamanninn kynna sér málin nánar og ítarlega, með viðtölum við ALLA lögreglustjóra landsins þar sem þeir væru, m.a. spurðir spurninga á borð við:

  1. Hefur niðurskurðarkrafa sú, sem fram er komin í fjáraukalögum ársins 2009 haft einhver áhrif á rekstur og þjónustu viðkomandi embættis?  Hefur dregið úr akstri / eftirliti lögreglu í umdæminu, m.v. fyrri ár og þá hversu mikið o.s.frv?
  2. Hefur einhver þjónustuskerðing orðið, hjá viðkomandi embætti undanfarin ár og ef svo er þá hvernig?
  3. Hefur einhver, og þá hve mikil, fækkun orðið í viðkomandi lögregluliði frá ársbyrjun 2004?  Hvernig er skiptingin á milli ára?
  4. Hvaða áhrif, ef einhver, mun niðurskurðarkrafa ársins 2010 hafa á þjónustu embættisins við íbúa viðkomandi umdæmis?
  5. Mun niðurskurðarkrafa næsta árs, samfara, þeirri viðbótarniðurskurðarkröfu sem fram er komin á yfirstandandi ári, hafa einhver áhrif á mannahald embættisins þ.m.t. launagreiðslur? 
  6. Getur embættið haldið öllum þeim lögreglumönnum sem nú þegar eru við störf, í störfum sínum á komandi ári eða eru einhverjar uppsagnir fyrirsjáanlegar?  Verður hægt að endurnýja ALLA ráðningarsamninga við þá lögreglumenn sem nú þegar eru starfandi hjá viðkomandi embætti og eru á tímabundnum ráðningarsamningum?
  7. Ef einhverjar uppsagnir eru fyrirsjáanlegar, munu þær koma niður á einhverjum öðrum starfsmönnum einnig, utan lögreglumanna?
  8. Hver ef fjöldi lögreglumanna, í öllum starfsstigum, hjá viðkomandi embætti í dag?
  9. Er, að mati viðkomandi lögreglustjóra, þörf á fleiri lögreglumönnum til starfa hjá embættinu eins og staðan er í dag og ef svo er hver er þá mönnunarþörfin í dag vs. raunfjölda lögreglumanna hjá viðkomandi embætti?

Þetta gæti orðið ágætis fréttaskýring hjá einhverjum fjölmiðlinum!

Til baka