Fréttir

Þyrnirós

2 des. 2009

GREIN ÞESSI BIRTIST Á BLS. 18 Í MORGUNBLAÐINU MIÐVIKUDAGINN 2. DESEMBER 2009.

Það er ekki góð tilfinning að finnast maður vera staddur í ævintýri.  Ævintýri sem engan endi virðist ætla að taka.  Það var einmitt þannig sem mér leið þegar ég las fréttir af því að ákveðinn stjórnarþingmaður taldi það hugsanlega hafa verið mistök að gera 10% hagræðingarkröfu til lögreglu, dómstóla og fangelsismála.  HALLÓ!  Ég hef verið að skrifa um þetta, tala um þetta, flytja ræður um þetta og ég veit ekki hvað um þetta í fleiri vikur og mánuði!!  Hafið þið ekki trúað mér þarna niðri við Austurvöll?  Á ég að trúa því að þið hafið ekki hlustað á eða heyrt það sem ég hef verið að segja fyrr en dómstólaráð fer að tala sama máli og ég?  Mig langar til að trúa því ekki en, því miður, er það nánast útilokað!

 

„Það er stórhættulegt að svelta almenna löggæslu í landinu“ var yfirskrift greinar Atla Gíslasonar og Jóns Bjarnasonar, sem birtist í Morgunblaðinu 25. mars 2008.  Þeir voru þá, báðir, í stjórnarandstöðu og höfðu þ.a.l. efni á því að tala svolítið digurbarkalega.  Þeir, m.a.s. leyfðu sér að vitna í hæstvirtan núverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon, gagnrýni sinni til stuðnings með það hversu illa þáverandi ríkisstjórn stóð vörð um lögregluna í landinu.  Þar vitnuðu þeir til þess að, núverandi fjármálaráðherra hafi sagt að almenn löggæsla í höfuðborginni, jafnt sem á landsbyggðinni hafi verið í MIKLU fjársvelti.  Svo miklu að lögregluembættin ættu í erfiðleikum með að manna lágmarksgæslu!  Nú leggja þessir sömu menn, sem áttuðu sig á því að í óefni stefndi í ársbyrjun 2008, það til að skera niður um 10% af þegar MIKIÐ fjársveltum stofnunum!

 

Í ljósi þessa, og þeirrar staðreyndar að ég vakti athygli á þessu í blaðagrein, sem birtist í Morgunblaðinu þann 18. júlí s.l. leikur mér forvitni á að vita hvort það sé einhver, við Austurvöll, að hlusta á eða að lesa það sem ég hef verið að segja og skrifa?  Ég vænti, í sjálfu sér, ekki svara en mikið lifandi ósköp væri það nú notalegt að sjá Þyrnirós vakna af blundinum og átta sig á veruleikanum!  Það sem fyrir mér vakir er einfaldlega að benda á staðreyndir málsins, svo sem ég hef ávallt gert, staðreyndir sem, ef þær verða að veruleika, geta haft mjög alvarleg og varanleg neikvæð áhrif á þróun afbrota á Íslandi.  Teikn eru á lofti um þessa þróun, sbr. það sem ég hef áður bent á og lesa má úr afbrotatölfræði Ríkislögreglustjórans.  Þetta eru afar gömul sannindi, sem margítrekað hefur verið skrifað og fjallað um af hinum mætustu fræðimönnum víða um heim, að þessi er gjarnan þróunin í kjölfar viðlíka þrenginga og þjóðin gengur nú í gegnum.

Í ofanálag standa fyrir dyrum, enn einar, skipulagsbreytingarnar í lögreglunni, með það að markmiði að ná fram þeim hagræðingarkröfum sem settar hafa verið fram í frumvarpi fjárlaga fyrir árið 2010.  Dómsmálaráðherra er settur stóllinn fyrir dyrnar með að það skuli spara í þessum málaflokkum og eðlilega leitar ráðuneytið leiða til að ná fram þeim markmiðum sem ríkisstjórn þessa lands setur fram.  Annað væri óhugsandi!

Ég hef varað við þessari þróun og bent á þá einföldu staðreynd að lögreglan er enn í miðju sameiningarferli, sem hófst 2007 og enn sér ekki fyrir endan á.  Ég hef talað fyrir því að, í versta falli, ætti að láta fjárveitingar til lögreglu standa í stað á milli áranna 2009 og 2010, sem mögulega hefði það í för með sér að hægt væri, af mjög veikum mætti þó, að halda í við þá þróun sem orðið hefur og er að verða í afbrotum hér á landi.  Rétt er einnig að nefna til sögunnar, þá þróun sem er að verða með komu erlendra glæpamanna til Íslands! 

Ofan í atvinnuleysi, eignarýrnun, tekjumissi, kaupmáttarskerðingu, gríðarlega hækkun afborgana hverskonar lána o.fl. má þjóðin ekki við því að lögreglan sé ekki í stakk búin til að vernda hana gegn innlendu jafnt sem erlendu glæpahyski! 

Mér hefur fundist ég vera staddur í ævintýrum Bakkabræðra og boðist til þess að bera inn sól í skjólu til að efla lýsingu á hinu háa Alþingi.  Þá hef ég einnig fundið fyrir Nýju Fötum Keisarans þar sem hver „sérfræðingurinn“ á fætur öðrum kom fram og sagði að hvorki vantaði mannskap né fjármagn til löggæslunnar.  Nú hafa velflestir þessara „sérfræðinga“ séð villu síns vegar og söðlað um í málflutningi sínum.  Nú hefur Þyrnirós bæst í ævintýrin og gott ef dvergurinn Rauðgrani er ekki á næstu grösum.  Mér hefur jafnvel fundist ég vera staddur í Biblíunni sem „Hrópandinn í eyðimörkinni“, sem Jesaja spámaður, Markús og Matteus fjölluðu um. 

Það er gott til þess að vita að stjórnvöld eru farin að átta sig á því að það er, eftir allt saman, „Stórhættulegt að svelta almenna löggæslu í landinu“ líkt og sumir núverandi stjórnarliðar skrifuðu um fyrrihluta árs 2008.  Þar sem er ljós þar er jú líka von ekki satt?  Kannski samlíking mín um ljósburðinn, í skjólu hafi haft einhver áhrif?  Hver veit?  En það á hinsvegar eftir að koma í „ljós“.

Staðreyndin sem eftir stendur er hinsvegar augljós!  Það er einfaldlega ekki hægt að ná fram þeim markmiðum sem fram eru sett um allt að 10% niðurskurð til löggæslu í landinu á næsta ári!

Til baka