Ályktun stjórnar lögreglufélags Suðurlands
18 des. 2009
Lögreglufélag Suðurlands hélt stjórnarfund í framhaldi af fundi með ráðherra dóms- og mannréttindamála, lögreglustjórum, bæjar- og sveitarstjórum í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og vestur Skaftafellssýslu sem haldinn var 16 desember s.l. á Hótel Selfoss.
Stjórnin ályktaði eftirfarandi:
Stjórn Lögreglufélags Suðurlands fagnar jákvæðu viðmóti ráðherra á fundinum vegna sérstöðu Árnessýslu í löggæslumálum. Frá og með næstu áramótum verða 650 íbúar á bak við hvern lögreglumann í sýslunni. Landsmeðaltalið var í febrúar 2005 424 íbúar á hvern lögreglumann. Þetta er fyrir utan þann mikla íbúafjölda sem dvelst í rúmlega 6.000 sumarhúsum og þá ferðamenn sem sækja heim þá vinsælu ferðamannastaði s.s. Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Í Árnessýslu er einn hættulegasti og umferðaþyngsti þjóðvegur landsins. Umferð og þungaflutningar um Árnes- og Rangárvallasýslu á síst eftir að minnka með tilkomu nýrrar hafnar í Bakkafjöru. Þá er í Árnessýslu starfrækt réttargeðdeild ásamt stærsta fangelsi landsins og til stendur að annað fangelsi bætist við á nýju ári. Einnig vill stjórn félagsins benda á að umdæmin í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu eru gríðarlega vinsæl til útivistar af öllu tagi eru þau víðfeðm og mikil hálendi þar sem útköll geta tekið gríðarlegan tíma.
Stjórnin óttast afleiðingar þess mikla niðurskurðar sem boðaður er á næsta ári. Stjórnin óttast að boðuð fækkun lögreglumanna ( í Árnessýslu úr 5 lögreglumönnum í 4 á vakt) komi niður á starfsöryggi þeirra svo ekki sé talað um öryggi íbúa og gesta sýslunnar. Fækkun lögreglumanna hefur í för með sér þá óhjákvæmilegu staðreynd að þjónustustig mun minnka. Það eitt er bagalegt í ljósi þess að tilkynningum á innbrotum og öðrum verkefnum fjölgar í kjölfar þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa á íslensku þjóðinni og ekki sér fyrir endann á þeim þrengingum. Einnig eru lögregluembætti knúin til að fækka lögreglubifreiðum og minnka akstur þeirra til muna þar sem gríðarlega hátt fasta- og kílómetragjald er að sliga þau. Þá vill stjórn Lögreglufélags Suðurlands benda á þá staðreynd að fjöldi fagmenntaðra lögreglumann er atvinnulaus í dag og tilbúinn til að mæta strax til vinnu ef hún býðst.
Stjórn Lögreglufélags Suðurlands skorar á ríkisstjórn Íslands, Alþingi og þingmenn Suðurkjördæmis, sem með ákvörðun fjárveitinga ákveða hvert „ásættanlegt“ þjónustu- og öryggisstig er fyrir landshlutann, að finna lausn á þessu vandamáli hið fyrsta.
Magnús Páll Sigurjónsson
Formaður LFS