Fréttir

Flugmenn boða verkfall

27 jan. 2010

Flugmenn hjá Icelandair hafa boðað til verkfalls, sem að öllu óbreyttu mun hefjast kl. 06:00 að morgni fimmtudagsins 4. febrúar n.k. og standa til kl. 06:00 að morgni laugardagsins 6. febrúar.  Verkfallið hefst svo að nýju kl. 06:00 að morgni fimmtudagsins 11. febrúar en lok þess eru ótímabundin.

 

Hægt er að lesa frétt um þetta á mbl.is hér og einnig á vef Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hér.

Þá hefur félagsfundur flugumferðarstjóra (FÍF) einnig ályktað um aðgerðir náist ekki samningar fyrir aðalfund FÍF sem haldinn verður 25. febrúar n.k.

Hægt er að lesa um ályktun félagsfundar flugumferðastjóra á mbl.is hér og einnig á vef Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hér.

Kjarasamningar flugmanna hafa verið lausir frá því 1. febrúar 2009 og flugumferðarstjóra frá því 31. október 2009.

Kjaraviðræðum flugmanna var vísað til ríkissáttasemjara þann 22. október 2009 og flugumferðarstjóra þann 23. nóvember s.l.  Lítið sem ekkert virðist hafa þokast í samkomulagsátt í þeim viðræðum m.v. fréttir á heimasíðum félaganna.

Til samanburðar má geta þess hér að lögreglumenn hafa verið með lausa samninga frá því 31. maí 2009 er framlengingarsamkomulagið (framlenging nr. 2 á kjarasamningi LL sem gilti frá 1. maí 2005 – 31. október 2008), sem gert var í anda „stöðugleikasáttmálans“ svokallaða var fellt með rúmlega 91% greiddra atkvæða. 

Heildarkjarasamningur LL hefur verið laus, svo sem áður segir, frá því 31. maí 2009 en haustið 2008 var samningurinn framlengdur frá 1. nóvember 2008 – 31. maí 2009 með samkomulagi samningsaðila sem samþykkt var í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna LL.

Kjaraviðræðum lögreglumanna var vísað til ríkissáttasemjara þann 20. ágúst 2009 og lítið hefur þokast í samkomulagsátt í þeim viðræðum þrátt fyrir að fjórir fundir hafi verið haldnir undir forsæti ríkissáttasemjara.  Hægt er að lesa um þá fjóra fundi, sem haldnir hafa verið í kjaradeilu LL við ríkisvaldið, á lokuðu svæði félagsmanna LL.

Bæði félögin (FÍA og FÍF) hafa, sem kunnugt er, verkfallsrétt öfugt við lögreglumenn, sem auk þess eru ofurseldir ákvæðum um aukna yfirvinnu o.fl.

Það er löngu ljóst að þolinmæði lögreglumanna vegna kjaraviðræðna þeirra við ríkisvaldið er á þrotum!

Til baka