Fréttir

Þolinmæðin er á þrotum!

12 mar. 2010

Það er víðar en hjá lögreglumönnum þar sem þolinmæðin er á þrotum.  Þannig segir frá því í frétt á vef Morgublaðsins að þolinmæði Samtaka Atvinnulífsins gagnvart aðgerðarleysi stjórnvalda í þágu fyrirtækja og fólksins í landinu væri á þrotum.

 

Lögreglumenn hafa gríðarlegt langlundargeð og mikla þolinmæði en sú þolinmæði er nú á þrotum.  Þegar þetta er skrifað (12. mars 2010) hafa kjarasamningar lögreglumanna verið lausir í litla 284 daga.  Þetta langlundargeð lögreglumanna og þolinmæði er orðin af afar skornum skammti.  Það sást enda allvel fyrir utan húsnæði Ríkissáttasemjara s.l. þriðjudag (9. mars 2010) þegar stór hópur lögreglumanna mætti þar til að sýna samninganefnd sinni stuðning í verki þegar hún mætti þar til fundar, við samninganefnd ríkisins, undir forsæti Ríkissáttasemjara.

Þann 30. júní 2009 var, hér á þessum vef undir fyrirsögninni „Nú sýður á baklandinu á Íslandi“, sagt frá þingi landssambands danskra lögreglumanna „Politiforbundet“ sem haldið var í lok maí 2009.  Þar er sagt frá því að formaður landssambands danskra lögreglumanna, Peter Ibsen, hafi í opnunarræðu sinni, sem bara yfirskriftina „Nú sýður á baklandinu“ (d. „Baglandet koger“) lýst því að þolinmæði danskra lögreglumanna væri á þrotum m.a. vegna ónógra fjárveitinga til lögreglu og undirmönnunar.  Gæti það verið að slík umræða hafi átt sér stað hér á landi einnig? 

Í áðurnefndri frétt, af vef LL, var greint frá aðdraganda kjarasamningsviðræðna Landssambands lögreglumanna (LL) sem unnið var að, sumarið 2009, undir merkjum „Stöðugleikasáttmálans“ margfræga og þeim launaskerðingum sem lögreglumönnum var gert að taka á sig „kortéri fyrir“ gerð kjarasamninga, sem gerðu ráð fyrir afar litlum eða engum launahækkunum eða leiðréttingum.  LL fór heilshugar í þessa vinnu, ásamt flestum heildarsamtökum launþega, í þeirri vissu von að ekki væri von á launaskerðingum!  Annað kom hinsvegar á daginn, svo sem lesa má í greininni, sem greint er frá hér að ofan.  Niðurstaða kosninga, félagsmanna LL, um gerðan kjarasamning sumarið 2009, mátti öllum vera ljós en samningarnir voru felldir með yfir 90% greiddra atkvæða! 

Til frekari fróðleiks eru lesendur þessarar greinar hvattir til að kynna sér stefnumál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur s.s. samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs100 daga áætlunina, endurskipulagningu opinberrar þjónustu, aðgerðir og áform stjórnvalda o.fl. upplýsingar sem hægt er að finna á vef stjórnvalda island.is.

Að síðustu gætu lesendur haft gaman af því að lesa opið bréf formanns LL til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2009.  Þessu bréfi hefur í engu verið svarað enn!

Þolinmæði lögreglumanna er þrotin!

Til baka