Fréttir

Lögreglumenn fylltu þingpalla Alþingis

17 mar. 2010

Á Alþingi í gær (16. mars) kl. 14:00 var utandagskrárumræða (horfa, hlusta og lesa hér) um þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.  Málshefjandi var Unnur Brá Konráðsdóttur (Sjálfstfl) en til andsvara var Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra (utan flokka).

 

Lögreglumenn fjölmenntu á þingpalla Alþingis til að hlusta á umræðurnar, sem í flestum atriðum voru afar góðar utan þeirrar klysju sem gjarnan hefur heyrst í sölum Alþingis, frá einstaka þingmönnum, sem því miður ekki vita betur, að leggja beri niður embætti Ríkislögreglustjórans.  Það færi betur á því að þeir þingmenn, sem þannig tala, kynntu sér tilurð, þróun og verkefni embættisins, sem allt hefur verið samþykkt af hinu háa Alþingi, áður en þeir rjúka í ræðustól á Alþingi til að tala embættið niður! 

Það er rétt að því sé haldið til haga hér að flutningur verkefna, einn og sér, til eða frá einstaka embættum, mun ekki skila fjárhagslegu hagræði svo neinu nemi.  Verkefnum lögreglu, sem eru ærin og tiltekin m.a. í skýrslu Ríkislögreglustjórans um grunnþjónustu lögreglu þarf eftir sem áður að sinna, hvaðan svo sem það er gert!  Í skýrslunni eru tilgreind lítil 527 verkefni sem nánar eru skilgreind í einum 111 lögum 256 reglugerðum og ýmsum samningum sem fjalla um aðkomu lögreglu að hinum margvíslegustu verkefnum allt frá rannsóknum stórfelldra efnahagsbrota til varna gegn fjárkláða!

Það sem einna mesta athygli vakti, við þessa umræðu, voru orð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns allsherjarnefndar Alþingis, sem sagði að alltof langt hafi verið gengið í niðurskurðarkröfum á lögreglu við fjárlagagerð fyrir árið 2010.  Þá sagði hún einnig að horfa hefði átt til lögreglu sem einnar af grunnstoðum þjóðfélagsins, við fjárlagagerðina, og þ.a.l. hefði niðurskurðarkrafan átt að vera sú sama á lögreglu og t.d. heilbrigðis- og menntamál þ.e. 7% í stað 10% sem varð raunin.  Það var ánægjulegt að heyra það að þingmenn úr öllum flokkum virtust þessum orðum Steinunnar Valdísar sammála!

Þeir þingmenn, aðrir en ofangreindir, sem tóku þátt í umræðunni voru: Róbert Marshall (Samf.), Atli Gíslason (Vinstri-gr.), Ólöf Nordal (Sjálfstfl.), Siv Friðleifsdóttir (Framsfl.), Margrét Tryggvadóttir (Hreyf.), Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Samf.), Vigdís Hauksdóttir (Framsfl.) og Ásmundur Einar Daðason (Vinstri-gr.).

Hægt er að lesa umfjöllun um umræðuna á mbl.is hér og á visir.is hér.

Til baka