Fréttir

Kjaradeilu lögreglumanna vísað til gerðardóms

14 apr. 2010

Á sjötta fundi samninganefnda Landssambands lögreglumanna (LL) og ríkisvaldsins (SNR), sem haldinn var í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gær, þriðjudaginn 13. apríl, lagði samninganefnd LL fram bréf þess efnis að kjaradeilu lögreglumanna við ríkisvaldið yrði vísað til sérstaks gerðardóms skv. ákvæði fylgiskjals við kjarasamning LL frá 13. júlí 2001. 

 

Áður hafði kröfum LL um að fá verkfallsréttinn aftur, sem og að gert yrði óháð mat á kjaralegri stöðu lögreglumanna verið hafnað af hálfu ríkisvaldsins.

Athyglisvert er að lesa inngangsorðin með áðurnefndu fylgiskjali en þau eru:

„Aðilar eru sammála um að í ljósi þeirrar sérstöðu lögreglumanna að þeir hafa ekki verkfallsrétt þurfi að tryggja möguleika á því að hvor um sig [LL og SNR] geti fengið mat óháðs aðila á þróun kjara lögreglumanna…“

Tilkoma fylgiskjalsins og gerðardómsleiðarinnar er vegna afnáms svokallaðs viðmiðunarsamkomulags sem gert var við LL í kjölfar þess að lögreglumenn afsöluðu sér verkfallsrétti sínum í tengslum við gerð kjarasamninga árið 1986 en þá hafði legið í loftinu að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn með lögum.

Í gegnum tíðina hafa verið skiptar skoðanir um það hvort viðmiðunarsamkomulagið, sem gert var 1986, hafi í raun virkað sem skyldi en ágætis umfjöllun um samkomulagið er m.a. að finna á vef Alþingis, frá 111 löggjafarþingi 1988 – 1989, í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Þessa umfjöllun má lesa hér.

Gert er ráð fyrir því að gerðardómurinn skili niðurstöðu sinni, sem er fullnaðarúrlausn kjaradeilunnar, fyrir lok maí n.k.

Til baka