Fréttir

Lögregla of fáliðuð!

29 jún. 2010

Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins, sem fylgt var eftir með ítarefni á bls. 6, þriðjudaginn 28. júní, segir frá því að lögregla sé of fáliðuð til að mæta ofbeldi.  Aðeins er fjallað um fréttina á visir.is.  Þá er einnig fjallað um málið á pressan.is.

 

Í fréttinni er vitnað í viðtal við Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjón hjá LRH þar sem hann segir:

„Aðalatriðið er þó það að lögreglan er of fáliðuð og það skapar ákveðna hættu hvað varðar öryggi lögreglumanna.“

Í fréttinni og frekari skýringum, sem er að finna á bls. 6, í Fréttablaðinu sést að skýrslur vegna ofbeldis gegn lögreglumönnum hafa aukist undanfarin ár sem og málum þar sem ríkissjóður hefur orðið að greiða út bætur til handa lögreglumönnum sem hafa orðið fyrir líkamlegum skaða vegna starfa sinna.

Það sem fram kemur í viðtalinu við Geir Jón, vegna fáliðunar lögreglu, er enn frekari stuðningur við málstað LL um fækkun í stéttinni og skertar fjárheimildir til reksturs lögreglu. 

Það vekur einnig athygli að þessi umræða er alls ekki ný af nálinni.  Þannig birtist á forsíðu Fréttablaðsins, þann 2. apríl 2008, frétt undir fyrirsögninni „Árangur öryggis- og löggæslu í hættu“ en í greininni er viðtal við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.  Í viðtalinu segir Stefán m.a:

„Fjárveitingavaldið þarf að íhuga gaumgæfilega að auka fjárveitingar til öryggismála í landinu, löggæslu, landhelgisgæslu og tollaeftirlits, til jafns við það sem orðið hefur í heilbrigðis- og menntamálum á undanförnum árum.  Að öðrum kosti er sá árangur sem náðst hefur í öryggis- og löggæslu í hættu.“

Síðar í greininni segir Stefán svo:

„Ef ekki verður við brugðist með auknum fjárveitingum til öryggis- og löggæslu þá munum við einfaldlega glata þeim árangri sem við höfum náð hvað varðar öryggi og öryggistilfinningu.“

Sú þróun, sem hefur verið að sjást hér á landi, og birtist í auknu ofbeldi gegn lögreglumönnum er síður en svo einsdæmi á Íslandi.  Þannig hefur European Confederation of Police (EUROCOP), sem LL er aðili að, margítrekað bent á þessar staðreyndir og kallað eftir viðbrögðum einstakra stjórnvalda í Evrópu sem og Evrópusambandsins í heild.  Í frétt, sem birtist hér á þessari síðu þann 8. apríl 2010, segir frá ráðstefnu sem EUROCOP hélt, í Madrid á Spáni þann 12. apríl s.l, undir yfirskriftinni „Verndaðu þá sem vernda þig: Ofbeldi gegn lögreglumönnum eykst um alla Evrópu.“

Ályktun EUROCOP í kjölfar ráðstefnunnar um ofbeldi gegn lögreglumönnum, sem samþykkt var á vorfundi EUROCOP í Kraká, sem haldinn var dagana 10. – 11. maí s.l, má lesa hér.

Ábyrgð á öryggi þeirra sem búa og starfa á Íslandi er á ábyrgð stjórnvalda þessa lands.  Að sama skapi er ábyrgðin á skertum fjárveitingum, til reksturs lögreglu, sem og fækkun lögreglumanna, einnig á ábyrgð sömu stjórnvalda.  Minnkandi öryggis- og þjónustustig lögreglu, með þeim alvarlegu afleiðingum sem það hefur í för með sér er þannig alfarið á ábyrgð stjórnvalda, ríkisstjórnar Íslands sem og Alþingis.

Til baka