Fréttir

Ályktun Lögreglufélags Austurslands

30 sep. 2010

Aðalfundur L.A. haldinn á Egilsstöðum 30. september 2010 sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Efnahagur Íslendinga hrundi í október 2008.  Ekki hefur tekist að benda á það með óyggjandi hætti hverjum efnahagshrunið er að kenna, en þó hefur tekist að benda á ýmsa þætti sem varð þess valdandi að svo fór sem fór.

 

Bent hefur verið á það að ef Íslendingar hefðu hlustað á og lært af erlendum vinaþjóðum sem vöruðu okkur við allt of stóru bankakerfi, hefði ekki farið sem fór.

 

Með öðrum orðum… Við héldum að við kynnum allt betur en aðrir en komust að því á all harkalegan hátt að það var rangt mat.

 

Þegar ljóst var að Íslendingar þyrftu að kljást við þann gífurlega skuldavanda sem hrunið olli fengum við nokkur góð ráð frá vinaþjóðum okkar sem höfðu gengið í gegnum álíka reynslu.  Eitt ráðið var að skera ekki niður fjárframlög til löggæslu og félagslegra úrræða.

 

Við höfum ekki farið eftir þessum ráðum og það er ekkert sem bendi til þess að það standi til.

 

Lögreglufélag Austurlands harmar þá stefnu stjórnvalda að veikja framkvæmdavald sitt með þeim hætti sem nú er gert þrátt fyrir aðvaranir annarra þjóða.  Félagið hvetur alþingismenn til að nýta sér þekkingu annarra þjóða í þeirri erfiðu vinnu sem endurreisn efnahagskerfisins er og minnast þess að það er hroki að halda að við vitum og kunnum alla hluti betur en aðrir.

Til baka