Fréttir

Fjárlög fyrir árið 2011 komin fram

4 okt. 2010

Fjárlög fyrir árið 2011 hafa verið lögð fram á Alþingi.  Hægt er að lesa fjárlögin hér.  Þá má einnig nálgast fjárlögin á vefnum www.fjarlog.is.

 

Það væri ofsögum sagt að fjárlögin, þingskjal nr. 1 á 139 löggjafarþingi, blésu mönnum bjartsýni í brjóst.  Tökum dæmi:

Bls. 6:

„Líkt og hér á landi leiddi fjármálakreppan haustið 2008 af sér skuldakreppu í mörgum löndum þar sem stjórnvöld hafa þurft að forða bönkum frá falli með fjárframlögum.  Þar með hafa ríkin tekið á sig afar íþyngjandi skuldbindingar vegna umfangsmikilla ráðstafana til að halda fjármálaþjónustu á floti og örva efnahagsstarfsemi.  Má segja að við það hafi ofþensla og fjármögnunarvandi fjármálafyrirtækja breyst í að verða skuldavandi viðkomandi ríkja.“

Bls. 7 – 8:

„Eftir sem áður verður að horfast í augu við það um hríð að vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum og aðlögunarinnar sem verður að eiga sér stað í ríkisfjármálum munu flestir hópar þurfa að taka á sig skerðingu á lífskjörum í einhverjum mæli.  Allir sem hafa burði til þess verða að leggja sitt af mörkum til þess að endurreisnarstarfið takist og hægt verði að byggja upp velferðarþjóðfélag á traustari stoðum en áður var.  Ljóst má vera að engin leið er til þess að draga saman seglin í ríkisstarfseminni í þeim mæli sem þörf er á án þess að það hafi áhrif á starfsmannafjölda og stuðning ríkissjóðs við þá einstaklinga og heimili sem betur standa.“

Bls. 8:

„Þegar líður að lokum þessa árs verða flestir kjarasamningar lausir, bæði á almennum vinnumarkaði og þeim opinbera, hafi ekki náðst nýir samningar áður.  Eins og þetta fjárlagafrumvarp ber með sér getur ríkið ekki risið undir hækkunum á launum starfsmanna sinna nema eitthvað annað láti undan í staðinn til að halda aftur af launakostnaði eins og fækkun starfa.  Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að launakjör verði óbreytt á næsta ári til að varna því að segja þurfi upp starfsmönnum í meira mæli en þörf kann að reynast fyrir vegna aðhaldsráðstafana á sumum sviðum ríkisstarfseminnar.“

Í ljósi tilvitnunarinnar hér að ofan, af bls. 8, er vert að rifja upp grein sem Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra ritaði í Fréttablaðið í júní s.l. þar sem hann setti fram hugmynd sína um launafrystingu hjá opinberum starfsmönnum í allt að þrjú ár.  Fjallað var um þessi greinarskrif Árna Páls, á vef LL þann 11. júní s.l. og hægt er að lesa þá umfjöllun, ásamt viðbrögðum ýmissa aðila, m.a. fjármálaráðherra, við grein Árna Páls hér.

Nánar verður rýnt í þær upplýsingar, sem er að finna í fjárlögum fyrir árið 2011 á næstu dögum og vikum og greinar um þá rýningu birtar hér á vef LL.

Til baka