Fréttir

Ályktun frá Lögreglufélagi Suðurlands

18 okt. 2010

Ályktun frá stjórn Lögreglufélags Suðurlands

 

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands (LFS) mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið í fjárlögum 2011 og telur að með boðuðum niðurskurði sé stórlega vegið að öryggi íbúa og lögreglumanna. Miðað við þann mannafla sem stendur vaktir og sinnir almennri löggæslu daglega á Suðurlandi nú, telur stjórn LFS að löggæsla á svæðinu sé komin niður fyrir lágmarks  öryggiskröfur sem gera á til lögreglu. 

Þá skorar LFS á dómsmála- og mannréttindaráðherra sem og alþingis- og sveitastjórnarmenn á Suðurlandi að sjá til þess að löggæsla á Suðurlandi verði þeim hætti að öryggi íbúa og lögreglumanna sé tryggt.

 

Það er að verða árlegur viðburður að stjórn  LFS sendi frá sér ályktun þess efnis að fjármagn vanti í rekstur embættanna á Selfossi og á Hvolsvelli. Gríðarlegur niðurskurður var á fjárframlögum til lögreglu á árinu 2009 og enn frekari á árinu 2010. Enn er boðaður niðurskurður fyrir árið 2011. Ljóst er að niðurskurðurinn er nú þegar farinn að hafa áhrif á öryggisstig íbúa og lögreglumanna á Suðurlandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í ljósi þessa vill stjórn LFS benda þingmönnum á að misgefið er í fjárframlögum til löggæsluembætta ef miðað við krónutölu á hvern íbúa en skv. skýrslu Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um „Mat á breytingum á nýskipan lögreglu“ útgefin í apríl 2008  námu fjárframlög til  löggæslu í Árnessýslu 14.156.- kr. á íbúa á móti t.d. 21.709 kr. í Borgarnesi  og 20.340.- kr. á Eskifirði.

 

Með þessum stöðuga niðurskurði hafa lögregluembættin þurft að fækka almennum lögreglumönnum þ.e. útivinnandi lögreglumönnum og skera niður í akstri. Þá er fyrirhugað að fækka lögreglubifreiðum á árinu 2011. Embættin hafa á undanförnum árum þurft að skera það mikið niður í akstri að útilokað er að ganga lengra án þess að það bitni enn frekar á löggæslu, sýnilegri löggæslu og sérstaklega á þeim stöðum sem fjærst eru lögreglustöðvum. Stjórn LFS minnir á að sýnileg löggæsla er áhrifaríkasta forvörnin sem lögreglan hefur gegn afbrotum.

Umdæmi lögreglunnar á Selfossi spannar yfir svæðið frá Litlu kaffistofunni að Þjórsá með öllum þeim sumarbústöðum og þéttbýliskjörnu þar á milli s.s. Þorlákshöfn, Hveragerði, Eyrarbakka, Stokkseyri, Flúðum, Laugarvatni, Laugarási og síðast en ekki síst vinsælustu ferðamannastöðum  landsins Gullfoss, Geysi og Þingvöllum. Umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli nær frá Þjórsá í vestri að Gígjukvísl í austri auk hálendisins þar á milli, með vinsælum ferðamannastöðum s.s. Þórsmörk, Landmannalaugum og Vatnajökulsþjóðgarði.

Í umdæmi Lögreglufélags Suðurlands hafa mestu náttúruhamfarir síðari áratuga á Íslandi dunið yfir s.s. jarðskjálftar og eldgos. Áhrifasvæði þessara náttúruhamfara ná yfir allt Suðurland. Þessar aðstæður hafa skapað gríðarlegt álag á starfsmenn embættanna. Náttúruhamfarir eru ekki yfirstaðnar og vísbendingar fræðimanna benda til þess að við megum vænta frekari náttúruhamfara.

Þá vill stjórn Lögreglufélagsins árétta það að reynsla nágrannaþjóða okkar af kreppuástandi er sú að ráðlagt sé að draga ekki úr fjárframlögum til löggæslu, til að takast á við þau vandamál sem af slíku ástandi skapast.

Til baka