Fréttir

Réttlæti

29 okt. 2010

Í vefútgáfu Sunnlenska fréttablaðsins þann 27. október s.l. birtist góð grein Rúnars Steingrímssonar, rannsóknarlögreglumanns á Selfossi, í hverri fjallað var um löggæslumál í umdæmi lögreglustjórans á Selfossi.  Í greininni er fjallað um „daglega löggæslu“ í umdæminu og hvernig hún birtist bæði íbúum svæðisins og ekki síst þeim lögreglumönnum sem þar starfa.

 

Landssamband lögreglumanna (LL) hefur í langan tíma bent á að sú aðferðarfræði sem nú er beitt við skipulag opinberrar þjónustu, með áherslu á löggæslu, sé úrelt fyrirbrigði.  Í dag er staðan sú að ákveðið er á fjárlögum hvers árs, hverjar fjárveitingarnar skuli vera til hvers málaflokks, sem heyrir til þjónustu hins opinbera við íbúa þessa lands, algerlaega án t.t. hver hin eiginlega þjónustuþörf er!  Því miður er staðan sú að þessar ákvarðanir, hvers árs, eru ekki í neinu samhengi við raunveruleikann þ.e.a.s. að ákvarðanir eru teknar um tilteknar fjárhæðir, á hvers árs fjárlögum, til hinna og þessara málaflokka, án þess að tekið hafi verið tillit til eins eða neins. 

LL hefur lagt á það áherslu á það að til þess að hið opinbera geti áttað sig á því hvað það í raun og veru kostar t.d. að reka lögreglu á Íslandi þurfi að koma til ákveðnar grunnskilgreiningar.  Þannig þurfi t.d. að skilgreina eftirfarandi:

  1. Öryggisstig á Íslandi – þ.e.a.s. hvaða öryggi eiga þegnar landsins rétt á að búa við;
  2. Þjónustustig lögreglu – þ.e.a.s. hvaða þjónustu lögregla eigi að veita hverju sinni.

Fyrst þegar þessum grunnskilgreiningum er lokið er hægt að fara í það að áætla:

  1. Mannaflaþörf lögreglu – þ.e.a.s. hversu marga lögreglumenn þarf, til að halda úti skilgreindum öryggis- og þjónustustigum lögreglu;
  2. Fjárveitingar til lögreglu – það er augljóst að ekki er hægt að áætla kostnað við þjónustu af neinu tagi nema fyrir liggi skilgreiningar á því hvers eðlis þjónustan er sem veita skal!

Því miður hefur LL talað fyrir daufum eyrum hingað til og hefur þá engu máli skipt hvort hér á landi hafi verið við völd „vinstri“ eða „hægri“ stjórn – „Allt sama tóbakið!!!“.

Sú aðferðafræði sem LL hefur haldið á lofti á ekki eingöngu við um löggæslu heldur er hægt að yfirfæra hana – og ætti, að mati LL – á alla málaflokka opinberrar þjónustu.  Þannig, og eingöngu þannig geta skattgreiðendur áttað sig á því hvað það í raun kostar að halda úti þjónustu hins opinbera!

Það var athyglisvert að hlusta á viðtal Þórhalls Gunnarssonar við prófessor Pál Skúlason í þættinum „Í Návígi“ þann 19. október s.l. en þar kemur Páll einmitt inn á það sem fram kemur hér að ofan, og LL hefur verið að halda fram, með orðunum „Þú tekur ekki alvarlegar, mikilvægar skipulagsbreytingar á grundvallarkerfum samfélagsins með fjárlögum“ (sjá viðtalið 20 mín 05 sek. – 20 mín, 20 sek.)!

Til baka