Fréttir

Þjónustustig lögreglu – eða reyndar skortur þar á!

1 nóv. 2010

Í fréttaskýringaþættinum Landinn, sem sýndur var í ríkissjónvarpinu að kvöldi sunnudagsins 31. október, var allítarleg úttekt á þjónustustigi lögreglu, víðsvegar um landið.  Í þessum þætti var m.a. rætt við Önund Jónsson, yfirlögregluþjón á Vestfjörðum, Sigurð Brynjúlfsson, yfirlögregluþjón á Húsavík og Ögmund Jónasson, dómsmálaráðherra.

 

Lesa má úrdrátt úr þættinum hér og horfa á hann hér.

Vestfirðir:

Í viðtalinu við Önund Jónsson kom m.a. fram að það geti tekið lögreglu allt upp í eina klukkustund að komast á vettvang, jafnvel þó ekið sé í forgangi.  Þannig þurfi lögregla því oft að reiða sig á vegfarendur, bændur og fólk í sumarbústöðum þegar slys verða. 

Vestfirðir  eru eitt lögregluumdæmi með fjölda fjallvega og miklum vegalengdum og sinna, að jafnaði fimm (5) lögreglumenn svæðinu frá Gilsfirði, um alla Vestfirði, í Hrútafjörð.

Norðausturland:

Varðsvæði lögreglunnar á Vestfjörðum er stórt og oft á tíðum erfitt yfirferðar, sérstaklega yfir vetrarmánuðina en stærsta löggæsluumdæmi landsins er hinsvegar á norðausturlandi, sem nær frá Víkurskarði í vestri, inn á Vatnajökul í suðri og að Vopnafirði í austri.  Þrír til fjórir lögreglumenn eiga að jafnaði að sinna þessu gríðarstóra löggæsluumdæmi en vegna niðurskurðar eru ekki fengnir menn til afleysinga vegna fría og veikinda og fyrir kemur að ekki einn einasti lögreglumaður er á vakt í öllu umdæminu, sem nær yfir tæpan fimmtung landsins.

Í viðtalinu við Sigurð Brynjúlfsson kom m.a. fram að það sé orðið alltof algengt að enginn lögreglumaður sé á vakt í öllu umdæminu þó reyndar sé alltaf einhver á bakvakt, til að sinna neyðarútköllum.  Þetta sé hlutur sem sé farinn að ógna öryggi þeirra íbúa sem búa og starfa á svæðinu. 

Þá er hálendiseftirliti ekki lengur sinnt vegna aðhalds í rekstri en liður í því aðhaldi er einmitt minnkandi akstur lögreglubifreiða um allt land. 

Fréttir um minnkandi akstur lögreglubifreiða voru einmitt fluttar í júlí í sumar – sjá hér.

Seyðisfjörður:

Þá var einnig viðtal í þættinum við Ólafíu Maríu Gísladóttur, íbúa og rekstraraðila lyfjaverslunarinnar Lyfju á Seyðisfirði, sem sagði frá því að hún hafi þurft að bíða í rúmar fjörtíu og fimm (45) mínútur eftir lögreglu utan við lyfjaverslunina á meðan innbrotsþjófur athafnaði sig þar innandyra og var svo á bak og burt þegar lögregla kom á staðinn. 

Fyrir þá sem það ekki vita er heiðin á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða fjallvegur sem æði oft lokast að vetrarlagi vegna snjóalaga! 

Nú nýverið var einmitt varðstofu lögreglu á Seyðisfirði lokað og henni breytt í afgreiðslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (Vínbúð). 

Fréttir af lokun varðstofunnar og breytingar á henni í Vínbúð voru fluttar nú í sumar á heimasíðu LL og má lesa um það hér en fréttin birtist þar í kjölfar fréttar ríkissjónvarpsins þann 4. júlí s.l. – sjá hér.

Dómsmálaráðherra:

Í viðtalinu við Ögmund Jónasson kom fram að verið sé að reyna að rísa undir þeim skyldum sem hvíla á ríkisvaldinu og að með þeim skipulagsbreytingum sem boðaðar hafa verið í lögreglu sé verið að nýta þá fjármuni, sem veitt sé til löggæslu á markvissari hátt en áður.

LL hefur reyndar mótmælt þessum fullyrðingum og bent á að viti menn ekki hvað þeir ætli sér með lögreglu og hvert öryggisstig í landinu eigi að vera sem og þjónustustig lögreglu, sé ekki hægt að komast að neinni niðurstöðu um það hvað það í raun kostar að halda úti starfsemi lögreglu.  Nánar má lesa um þetta í þeirri frétt, sem vitnað er til hér fyrir neðan, sem og í þeim upplýsingum sem er að finna undir tenglinum „Skipulagsbreytingar“, undirhlekkjum hans og tenglum hér til vinstri á þessari síðu.

Niðurlag:

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja upp þau tilvik þar sem LL hefur bent á þær staðreyndir sem fram koma hér að ofan.  Hér verður látið nægja að vísa í frétt, sem birt var á heimasíðu LL, föstudaginn 29. október s.l. undir fyrirsögninni „Réttlæti“.  Þá eru lesendur sérstaklega hvattir til að horfa vel á viðtalið við Pál Skúlason, prófessor við Háskóla Íslands, sem hægt er að nálgast neðst í fréttinni.

Til baka