Fréttir

„Löggæsla í lamasessi á landsbyggðinni vegna fjársveltis“

4 nóv. 2010

Í gær, miðvikudaginn 3. nóvember, birti Bændablaðið frétt um ástand löggæslumála á landsbyggðinni undir fyrirsögninni hér að ofan.  Í fréttinni er rætt við Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjón á Eskifirði, sem sagði m.a. efirfarandi:

 

„Við erum að keyra vaktir á færri mönnum, við erum að draga saman í akstri og lækka allan kostnað sem mögulega er hægt að lækka.  Við höfum dregið saman í aukavinnu og bakvöktum.  Í fyrrasumar gátum við til að mynda ekki ráðið í afleysingar.  Það komu þeir tímar þegar að það var einn maður á vaktinni frá Dalatanga og allt suður á Djúpavog.  Hér eru gríðarlegar siglingar og einar stærstu hafnir á landinu, hafnirnar í Fjarðarbyggð.  Auk þess er hér mjög stór vinnustaður sem er álverið á Reyðarfirði.  Við getum því miður ekki sinnt okkar hlutverki vel vegna mannfæðar, það get ég alveg sagt þér.“

Að mati Jónasar er löggæsla á svæðinu komin niður fyrir öryggismörk eða eins og hann segir:

„Við höfum haldið sjó fram til þessa en þetta er komið niður fyrir þau mörk nú.  Við vorum svo heppin í sumar að það kom í raun ekkert stórvægilegt upp á en ef slíkt hefði gerst hefði ég ekki boðið í afleiðingarnar.“

Einnig er fjallað um, í fréttinni, þann niðurskurð sem orðið hefur á fjárframlögum til löggæslu á Austurlandi sem og þann niðurskurð sem boðaður hefur verið á komandi ári.

Fréttina, sem birtist á bls. 2 í Bændablaðinu er hægt að lesa á vefútgáfu blaðsins hér, og í pdf útgáfu þess hér

Frétt Bændablaðsins kemur í kjölfar umfjöllunar, fréttaskýringarþáttarins Landinn sem sýndur var í ríkissjónvarpinu þann 31. október s.l., um löggæslumál á landsbyggðinni, sem fjallað var um á heimasíðu LL hér sem og fréttar sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu og fjallað var um á heimasíðu LL hér.

Landssamband lögreglumanna hefur ítrekað varað stjórnvöld við þeim niðurskurði sem orðið hefur á fjárframlögum til löggæslu sem og áframhaldandi boðuðum niðurskurði til málaflokksins en, því miður, hingað til talað fyrir daufum eyrum.

Til baka