Fréttir

Umræða á Alþingi um stöðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

18 nóv. 2010

Í gær, miðvikudaginn 17. nóvember, kl. 14:36, hófst utandagskrárumræða á Alþingi um stöðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Málshefjandi var Vigdís Hauksdóttir (F) en í fyrri ræðu sinni spurði hún m.a. hvort áherslubreytinga væri að vænta hjá dómsmálaráðherra, í málefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar væri.

 

Aðalumræðuefnið var, eins og fram kemur hér að ofan, staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess mikla niðurskurðar sem orðið hefur á fjárframlögum til löggæslumála þar en í fyrri ræðu Ögmundar Jónassonar (Vg), dómsmálaráðherra kom m.a. fram að niðurskurðurinn, til löggæslumála á höfuðborgarsvæðinu hefði verið um 380 millj. kr. frá árinu 2007 (þ.e. 22 millj. kr. árið 2008, 155 millj. kr. árið 2009 og 205 millj. kr. á árinu 2010)!  Þá kom einnig fram í máli Ögmundar að boðaður niðurskurður á árinu 2011 væri um 5,4% sem jafngilti um 170 millj. kr.  Það vill segja að sá niðurskurður, sem þegar hefur orðið, auk þess niðurskurðar sem boðaður er nemur um 550 milllj. kr! 

Það sér það hver einasti maður að sá niðurskurður sem orðið hefur og boðaður hefur verið þýðir ekki nema eitt – SKERTA ÞJÓNUSTU lögreglu við þá sem búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu, sem aftur þýðir einfaldlega minnkað öryggi og öryggistilfinningu!

Siv Friðleifsdóttir (F), spurði dómsmálaráðherra, í ljósi frétta sem birtust í ríkisútvarpinu þann 17. október s.l. undir fyrirsögninni „Uppstokkun hjá ríkislögreglustjóra“, þar sem m.a. kom fram að hugmyndir væru m.a. uppi um að færa sérsveit ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og að Neyðarlínan tæki yfir öll fjarskipti lögreglu, hvort þessi áform væru enn uppi í ráðuneytinu.

Dómsmálaráðherra, svaraði fyrirspurn Sivjar, í seinni ræðu sinni, á þann veg að hann hafi fyrst heyrt af þessum áformum, í fréttum RÚV, og að engin slík áform væru á prjónunum í dómsmálaráðuneytinu enda yrði ekki ráðist í neinar skipulagsbreytingar í lögreglu án samráðs við lögregluna sjálfa og fulltrúa Landssambands lögreglumanna (LL).

Þetta svar dómsmálaráðherra er athyglisvert í ljósi þeirrar staðreyndar að hugmyndir um tilfærslu ofangreindra verkefna komu upphaflega úr dómsmálaráðuneytinu (reyndar ekki í ráðherratíð núverandi ráðherra) og þeirrar staðreyndar að LL hefur, frá upphafi, lýst sig andsnúið þessum hugmyndum auk ýmissa annarra, sem er að finna í því frumvarpi til breytinga á lögreglulögum sem Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra lagði fram á 138. löggjafarþingi!

Ögmundur hafði reyndar, í samtölum við formann LL, lýst því yfir að engin áform væru uppi, hvorki hjá honum eða í dómsmálaráðuneytinu, um tilfærslu ofangreindra verkefna til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Þá skrifaði hann pistil undir fyrirsögninni „Ekkert óðagot“ á heimasíðu sína þann 18. október s.l. þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

„Sem formaður BSRB þurfti ég oft að fást við afleiðingar slakra vinnubragða innan stjórnsýslunnar.  Það var ekki síst þegar ráðist var í vanhugsaðar breytingar sem ekki höfðu verið hugsaðar til enda.  Í stað þess að gefa sér góðan tíma og ræða sig til niðurstöðu var ætt af stað; leiðsögumennirnir oft utanaðkomandi menn með formúlurnar á hreinu en þekkingarsnauðir um sjálfa starfsemina.  Ég lærði þá að forðast bæri vinnubrögð af svona tagi.  […]“

„[…]  Landssamband lögreglumanna mótmælti sögusögnum fréttastofunnar [RÚV – innskot greinarhöfundar] sem ég efast ekki um að eru komnar frá embættismönnum sem ranglega telja sig hafa umboð til að ráðskast með stjórnsýsluna.  Staðreyndin er sú að þetta eru mál sem engan vegin eru útrædd og niðurstöður liggja ekki fyrir.  Óðagotsvinnubrögð verða ekki viðhöfð á meðan ég gegni embætti dómsmálaráðherra.  […]“ 

Landssamband lögreglumanna hefur talað fyrir því, frá upphafi, að fara skuli hægt yfir við skipulagsbreytingar á lögreglu og þar megi einfaldlega ekki láta peningasjónarmið ráða ríkjum.  Hér er enda verið að ræða málefni er varða öryggi Íslands og allra Íslendinga!  Þá hefur LL bent á þá augljósu staðreynd málsins að enn, þrátt fyrir að lögregla hafi verið til staðar á Íslandi í yfir 200 ár, hefur ekki verið farið í grundvallarskilgreiningar á starfsemi hennar og að Alþingi Íslendinga hefur enn ekki skilgreint svo augljósa hluti eins og:

  • Öryggisstig á Íslandi (þ.e. hvaða öryggisstaðlar eiga að ríkja hér) og
  • Þjónustustig lögreglu (þ.e. hvaða verkefni eru það sem lögreglu á að sinna).

Fyrst þegar Alþingi hefur lokið við að skilgreina öryggisstig á Íslandi og þjónustustig lögreglu, er hægt að fara í það að áætla:

  • Mannaflaþörf lögreglu (þ.e. hversu marga lögreglumenn þarf til að halda úti skilgreindum öryggis- og þjónustustigum í landinu).

Þegar búið er að ganga frá þessum þremur einföldu þáttum er fyrst hægt að áætla:

  • Fjárveitingar til lögreglu.

Því miður er staðan sú í dag að þessi vinna er unnin í öfugri röð þ.e.a.s. að Alþingi ákvarðar fjárveitingar til löggæslumála og þegar því er lokið er dómsmálaráðuneytinu og lögreglustjórunum í landinu gert að sníða starfsemi sína að þeim fjármunum sem ákvarðaðir hafa verið til málaflokksins hverju sinni og það algerlega samhengislaust við þau verkefni sem lögreglu hafa verið falin í gegnum tíðina af því sama Alþingi og ákvarðar fjárveitingarnar og felur lögreglu hin og þessi verkefni sem m.a. er að finna í eitthundrað og ellefu (111) lögum og rúmlega tvöhundruð og fimmtíu (250) reglugerðum þar sem n.b. engar fjárveitingar er að finna til verkefnanna!  Þetta eru „óðagotsvinnubrögð“!  Þetta eru skýr og klár dæmi um „slök vinnubrögð innan stjónsýslunnar“!

Rétt er að benda lesendum á að horfa á viðtal Þórhalls Gunnarssonar við Pál Skúlason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands í þætti Þórhalls „Í návígi“ þann 19. október s.l. en þar kemur Páll m.a. inn á þessi arfaslöku vinnubrögð fjárveitingavaldsins með orðunum „Þú tekur ekki alvarlegar, mikilvægar skipulagsbreytingar á grundvallarkerfum samfélagsins með fjárlögum“ (sjá viðtalið 20 mín 05 sek. – 20 mín, 20 sek.)!    

Alls átta þingmenn, auk dómsmálaráðherra, tóku þátt í umræðunni.

Til baka