Fréttir

Ofbeldi gegn lögreglumönnum

3 des. 2010

Í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins í gær, fimmtudaginn 2. desember 2010, var umfjöllun um skýrslu embættis Ríkislögreglustjórans (RLS) um ofbeldi gegn lögreglumönnum en hún var unnin fyrir dómsmálaráðuneytið í kjölfar umfjöllunar um þessi mál fyrr á árinu.  Hluta fréttanna má lesa hér, hér, hér, hér, hér og hér.

 

Á árinu 2007 kom út á vegum RLS skýrslan „Ofbeldi gegn lögreglumönnum – rannsókn á reynslu lögreglumanna og tilkynntum brotum“ en höfundar hennar eru Ólafur Örn Bragason, Guðbjörg S. Bergsdóttir, Rannveig Þórisdóttir og Jón Óttar Ólafsson en hún var unnin, að hluta til út frá skýrslu sem félagsvísindadeild Háskóla Íslands vann árið 2004 um hliðstætt efni (skýrsla félagsvísindastofnunar er merkt sem trúnaðarmál og því ekki aðgengilega á netinu).  Í skýrslu RLS, frá árinu 2007, kemur eftirfarandi m.a. fram: 

  • um 70% lögreglumanna hafa orðið fyrir hótunum um ofbeldi í vinnu og um 26% utan vinnu, vegna starfa sinna;
  • um 43% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi, án þess að hljóta meiðsli af vinnu og um 7% utan vinnutíma;
  • um 40% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi í vinnu og um 3% utan vinnutíma;
  • um 15% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til stórvægilegra meiðsla í vinnu og um 2% utan vinnutíma, svo eitthvað sé nefnt!

Þessi nýútkomna skýrsla RLS er í raun ekkert annað en staðfesting á því sem fram kom í skýrslu RLS frá árinu 2007.

Landssamband lögreglumanna (LL) fagnar útkomu þessarar nýju skýrslu, sem slíkrar, þó svo að einstaka atriðum í henni sé LL ekki sammála (t.a.m. niðurstöðu er varðar notkun rafstuðtækja og er hér sérstaklega horft til ályktana, er vörðuðu rafstuðtæki, sem samþykktar voru á 29. og 30. þingum LL árin 2008 og 2010). 

LL þykir rétt að vekja sérstaka athygli á því sem fram kemur í kaflanum „Niðurstöður og tillögur“ (2. mgr. bls. 18)

„Það er mat Ríkislögreglustjóra að lögreglan sé komin að þolmörkum hvað varðar heildarstarfsmannafjölda miðað [að] við núverandi skipulag.  Frekari fækkun lögreglumanna er líkleg til að draga úr öryggi lögreglumanna þar sem lögreglustjórar munu þurfa að fækka á vöktum og láta lögreglumenn starfa eina fremur en með félaga.“

LL hefur haldið því fram, um langa hríð bæði í ræðu og riti, að lögreglan sé ekki einungis komin að heldur undir þolmörk og fæst það staðfest m.a. í skjölum Alþingis í svörum við fyrirspurnum er núverandi forsætisráðherra, Jóhönna Sigurðardóttir beindi til þáverandi dómsmálaráðherra á árunum í kringum 2001 – 2002!  Jóhanna ritaði grein á heímasíðu sína árið 2002 undir fyrirsögninni „Ógn við öryggi“ þar sem hún gagnrýndi harðlega fækkun lögreglumanna og það sem hún kallaði neitun dómsmálaráðherra um að:

„beita sér fyrir skilgreiningu á lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi og deild fyrir sig til að gætt sé almannaöryggis og réttaröryggi íbúa sé tryggt í samræmi við lögreglulög!“  

Síðan þá hefur, ef eitthvað er, sigið heldur á ógæfuhliðina!  Það er ljóst að þessi fækkun lögreglumanna hefur nú þegar haft þau áhrif og mun hafa áfram að þjónusta lögreglu skerðist sem aftur mun koma niður á „öryggi og öryggistilfinningu“ íbúa þessa lands!

LL hefur einmitt talað fyrir því að eftirfarandi verði skilgreint án frekari tafar:

  1. Öryggisstig á Íslandi og
  2. Þjónustustig lögreglu, til þess að hægt verði að áætla:
  3. Mannaflaþörf lögreglu og
  4. Fjárveitingar til lögreglu!

Þá er rétt að árétta það hér að sú staðreynd að lögreglumenn séu einir að störfum víðsvegar um landið og það án aðstoðar er nú þegar fyrir hendi!

Í skýrslunni kemur fram að lögreglumönnum hafi fækkað um sextíu (60) frá árinu 2007 úr 712 í 662, sem gerir um 8% fækkun lögreglumanna!!  Þessar staðreyndir endurspegla og staðfesta það sem LL hefur verið að halda fram í opinberri umræðu undanfarin ár! 

Í frétt, sem birtist í Morgunblaðinu þann 9. september 2008 birtist ítarleg fréttaskýring um ofbeldi gegn lögreglumönnum en þar var m.a. byggt á tölum frá RLS.  Í fréttaskýringunni kom fram að ofbeldi gegn lögreglumönnum hefði verið að aukast og það þrátt fyrir að ákvæði um þyngingu refsinga vegna slíkra brota hafi verið sett inn í 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Lesa má frétt um þetta á heimasíðu LL hér.  Rétt er að halda því til haga hér að LL er þeirrar skoðunar að dómar, vegna þeirra mála er varða ofbeldi gegn lögreglumönnum, séu alltof lágir enda rétt að benda á þá einföldu staðreynd að lögreglumenn eru, við störf sín, að framfylgja þeim valdbeitingarheimildum sem stjórnvöld hafa ákveðið hverju sinni og ofbeldisverk gegn lögreglumönnum eru því raun réttri árás á það þjóðskipulag er hér ríkir!

Landssamband lögreglumanna harmar það að stjórnvöld þessa lands skuli hafa látið reka svo lengi á reiðanum er kemur að þeirri grunnþjónustu sem lögreglu ber að veita að lögum og lýsir allri ábyrgð á þessari stöðu mála á hendur stjórnvöldum enda hefur LL ítrekað bent á og vakið athygli stjórnvalda á þeim staðreyndum sem fram koma í skýrslu RLS og mögulegum afleiðingum þessarar stöðu mála!

Til baka