Fréttir

Svar ríkislögreglustjóra við bréfi LA

8 des. 2010

Svar Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, við bréfi LA vegna skýrslu RLS um ofbeldi gegn lögreglumönnum. Bréf LA má lesa hér.

 

Óskar Þór Guðmundsson,

formaður Lögreglufélags Austurlands.

 

Sæll Óskar Þór.

Þakka þér fyrir að senda mér bréf Lögreglufélags Austurlands frá 3. þ.m. sem fjallar um skýrslu ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn lögreglumönnum.

Vegna bréfsins vil ég nefna nokkur atriði sem mér þykja máli skipta.

 

Ríkislögreglustjóri hefur á undanförnum árum byggt upp bæði þjálfun og búnað lögreglumanna til að takast á við erfiðar aðstæður í starfi. Nægir þar að nefna sérþjálfaða óeirðahópa og búnað þeirra. Annar varnarbúnaður hefur verið fenginn lögreglumönnum, svo sem varnarvesti. Þessi uppbygging hefur skilað þeim árangri að lögreglumenn eru betur þjálfaðir og útbúnir en áður, eins og kunnugt er.

Þá hefur sérsveit embættisins aðsetur á Norðurlandi og Suðurnesjum auk þess sem hún hefur meginbækistöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Sveitin er styrkur fyrir öll lögreglulið landsins og hefur eflt öryggi lögreglumanna og borgaranna.

Í skýrslunni, sem gefin var út í júlí sl., er rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun ríkislögreglustjóra að taka ekki í notkun rafbyssur fyrir lögregluna í landinu. Þess er hins vegar getið í skýrslunni að kanna eigi hvort sérsveitin reyni þetta tæki í tilraunaskyni sem valkost.

Niðurstaða ríkislögreglustjóra er sú að sérsveitin mun ekki, að svo komnu máli, taka rafbyssur í notkun.

Ofangreint hefur án efa stuðlað að auknu trausti á lögregluna í landinu.

Með bestu kveðjum,

Haraldur Johannessen,

ríkislögreglustjóri

Til baka