Fréttir

(Ó)Skipulagsbreytingar

6 jan. 2011

Á síðasta reglulega Alþingi var lagt fram frumvarp um breytingu á lögreglulögum.  Frumvarp sem miðaði að því að fækka og stækka lögregluembættum landsins úr fimmtán í sex auk embættis Ríkislögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins.  Frumvarp þetta dagaði uppi í allsherjarnefnd Alþingis.  Nú hafa heyrst raddir í þá veru að núverandi dómsmálaráðherra, Ögmundur Jónasson, hyggist leggja frumvarpið fram að nýju. 

Ljóst er, í hugum velflestra lögreglumanna, að meginhvati þessa frumvarps er ástand efnahagsmála á Íslandi, auk þess sem einhverjir hafa bent á það að Samfylkingin hafi horn í síðu embættis Ríkislögreglustjóra (RLS) og vilji veg þess embættis sem minnstan eða jafnvel engan!  Slíkt hefur jafnvel sést á prenti!   

Það verður að segjast hreint alveg eins og það er að það er með hreinum ólíkindum að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga hafi ekki enn séð sóma sinn í því að skilgreina hlutverk lögreglu betur en fram kemur í 1. gr. lögreglulaga og að mögulega sé pólitík að hafa áhrif á ákvarðanir ráðamanna er kemur að skipulagi löggæslu á Íslandi!  Sá er þetta skrifar vill, í lengstu lög, trúa því að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga láti ekki pólitík ráða því hvernig löggæslumálum þjóðarinnar er háttað! 

Það sem átt er við með því, sem að ofan greinir um skilgreiningar, er það að Alþingi Íslendinga hafi ekki enn, þrátt fyrir rúmlega 200 ára sögu löggæslu á Íslandi, séð sóma sinn í því að skilgreina:

1. Öryggisstig á Íslandi;

2. Þjónustustig lögreglu,

og að því loknu skilgreint:

3. Mannaflaþörf lögreglu, út frá skilgreindum öryggis- og þjónustustigum og að síðustu:

4. Áætlað fjárveitingar til löggæslu á Íslandi út frá liðum 1 – 3 hér að ofan!

Það hlýtur hver og einn að sjá það, sem á annað borð vill sjá og heyra, að ekki er hægt að taka mikilvægar ákvarðanir um skipulag stofnana og stofnanauppbyggingu út frá fjárlögum eingöngu!  Það hlýtur að þurfa eitthvað annað og meira til t.d. skilgreint hlutverk viðkomandi stofnana!  Þegar kemur að löggæslu hlýtur hver og einn Íslendingur að sjá nauðsyn þeirra starfa er lögregla sinnir!  Að öðrum kosti myndi ríkja hér skálmöld!

Lögreglan á Íslandi er sennilega sú stofnun þjóðarinnar sem hefur þurft að undirgangast hvað mestar skipulagsbreytingar á starfsemi sinni – að öllum öðrum stofnunum hins opinbera ólöstuðum.  Allar þessar „skipulagsbreytingar“ á lögreglu hafa verið unnar undir merkjum „hagræðingar“; „betri nýtingu fjárheimilda“; „eflingar og styrkingar“ og „aukins öryggis og öryggistilfinngu“ svo fáeinir útjaskaðir „frasar“ séu týndir til.

Staðreyndir málsins tala sínu máli svo sem berlega kom í ljós við útkomu skýrslu ríkislögreglustjórans um ofbeldi gegn lögreglumönnum nú á dögunum!  Staðreyndirnar eru þær að mikil fækkun hefur orðið á lögreglumönnum á Íslandi frá árinu 2007 eða um sextíu (60) lögreglumenn!  Hagræðing – NEI!  Betri nýting fjárheimilda – NEI?  Efling og styrking löggæslu – NEI!  Aukið öryggi og öryggistilfinning – NEI! 

Hvar stöndum við þá í dag?  Við stöndum á þeim krossgötum að fara í þá vinnu að skilgreina hlutverk lögreglu – hefðum reyndar nú þegar átt að vera löngu búin að því!  Við stöndum í þeim sporum að Alþingi Íslendinga og þeir sem þar sitja í umboði þjóðarinnar þurfa að gera það upp við sig hvort að löggæsla á Íslandi lúti lögmálum fagmennsku eða pólitíkur!  Við stöndum í þeim sporum að rétt er að líta yfir farinn veg þ.a. hægt sé að átta sig á því á hvaða leið við erum sem þjóð!  Við stöndum í þeim sporum að ákveða hvort við viljum halda uppi löggæslu á Íslandi yfirhöfuð! 

Fáist ekki svör við þessum spurningum og þeim skilgreiningum sem lagt er til að farið verði í er allt eins gott að hætta að sinna hér löggæslu og láta reka á reiðanum!  Það hlýtur hver og einn að sjá að sú staða er ekki eitthvað sem þjónar hagsmunum Íslands og Íslendinga!  Það hlýtur hver og einn að sjá það, sem á annað borð vill sjá og heyra, að löggæsla á ekki að lúta duttlungum pólitískra flokka og skoðana!  Það hlýtur hver og einn að sjá það að löggæsla er eitthvað sem snertir alla Íslendinga og allir ættu að geta verið sammála um að fagmennska en ekki pólitík á að ráða þar ríkjum!

Það er með öllu ólíðandi að lögregla þurfi að lúta pólitískum ákvörðunum hverju sinni!  Það er með öllu ólíðandi að lögregla og öryggi þeirra sem henni er ætlað að sinna sé undir hæl fjárveitinga frá ári til árs og eða duttlungum pólitíkusa hverju sinni!  Öryggi er ekki eitthvað sem á að fást með peningum!  Öryggi er ekki eitthvað sem bara hinir ríku eiga að geta leyft sér!  Öryggi er fyrir alla, óháð innkomu og efnahag!  Öryggi og löggæsla er fyrir fólkið sem byggir þetta land!  Löggæsla er nauðsynlegur þáttur í því velferðarþjóðfélagi sem við viljum telja okkur tilheyra!

Hlutverk ríkisins er að halda uppi starfsemi lögreglu algerlega óháð efnahag ríkisins og þegna þess hverju sinni og því ríður á að skilgreiningar séu í lagi – svo einfalt er það nú bara!

Að öðrum kosti erum við í fótsporum Keisarans í ævintýrinu um „Nýju fötin Keisarans“ – hreinlega NAKIN!

Til baka