Fréttir

Ályktun frá Lögreglufélagi Þingeyinga

8 mar. 2011

Félagsmenn í Lögreglufélagi Þingeyinga vilja koma eftirfarandi ályktun á framfæri eftir aðalfund þeirra þann 08.03.2011.

Félagsmenn Lögreglufélags Þingeyinga telja að frekari niðurskurður til löggæslumála geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.  Það er mat félagsins að nú þegar sé löggæslan komin niður fyrir þolmörk með þeim niðurskurði sem átt hefur sér stað undanfarin ár.

 

Nú er svo komið fækkun hefur þegar átt sér stað í lögreglunni í Þingeyjarsýslum vegna fjárskorts. Þar af leiðandi hefur öryggi íbúa í Þingeyjarsýslum sem og öryggi þeirra lögreglumanna sem eftir starfa minnkað til muna. Lögreglumenn starfa mikið einir og eru því berskjaldaðir fyrir þeim hættum sem fyrir liggja í því þjóðfélagi sem við búum við í dag.

Lögreglan í Þingeyjarsýslum hefur yfir stórt svæði að fara. Til að setja það í samhengi mætti sem dæmi nefna að lögreglan í Reykjavík sinnti útköllum á Blönduósi eða lögreglan í Borgarnesi sinni útköllum í Vík í Mýrdal. Aukin kostnaður og skerðing á fjárheimildum hefur valdið því að akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman sem leiðir af meiri hættu fyrir hinn almenna borgara ef bregðast þar skjótt við, bæði í dreifbýli sem og í þéttbýli. 

Þá mótmælir Lögreglufélag Þingeyinga öllum hugmyndum um að flytja Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra og sérsveitar frá ríkislögreglustjóra.

Lögreglufélag Þingeyinga skorar á stjórnvöld að auka fjármagn til löggæslu, hvort sem er á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. Það fjármagn sem ríkisstjórnin leggur til löggæslu mun á endanum skila sér aftur í ríkiskassan.

 

Lögreglufélag Þingeyinga.

Til baka