Fréttir

Stefnir í verkföll?

27 apr. 2011

Ljóst er orðið að mjög þungur róður er orðinn í kjaraviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði ef marka má fréttir á mbl.is og visir.is í dag, miðvikudaginn 27. apríl.  Í fréttum þessara miðla er m.a. haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ og Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins að meiri líkur séu nú á því en minni að hér skelli á allsherjarverkfall upp úr miðjum maí n.k.  Þar vísa þeir m.a. til framkomu SA fyrir páska, máli sínu til stuðnings.  Launamenn hafi verið dregnir á launahækkunum vikum og mánuðum saman og þar að auki hafi ýmis atriði, sem lofað hafði verið fyrr í vetur, ekki efnd.

 

Í sama streng tekur Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í grein á heimasíðu félagsins í dag undir fyrirsögninni „Þeir hafa kallað eftir stríði og þeir fá stríð“.

Hér er rétt að vekja athygli á því að afar skammt er síðan lögreglumenn voru án kjarasamnings í rúmt ár og nú, þegar þetta er skrifað hafa samningar verið lausir í 147 daga!  Lögreglumenn, hafandi ekki verkfallsrétt eða önnur slík úrræði í sínum fórum, þekkja afar vel á eigin skinni það tóm- og mótlæti sem blasir við forystu verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir!  Lögreglumenn þekkja einnig afar vel að illa eða jafnvel alls ekki sé staðið við ákvæði gerðra kjarasamninga!

Af öllu þessu að dæma og þeim fréttum sem hafa verið að berast af gangi kjaraviðræðna á hinum almenna vinnumarkaði undanfarna daga má ljóst vera að erfiðlega mun ganga að ná saman um gerð kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.  Það mun augljóslega hafa neikvæð áhrif inn í gerð kjarasamninga á hinum opinbera vinnumarkaði í ljósi þeirrar staðreyndar, sem áður hefur komið fram hér á heimasíðu LL að ríkisvaldið „vill ekki vera launaleiðandi á markaði“!

Ef svo fer fram sem horfir, en niðurstöðu um boðun verkfalla er að vænta á allra næstu dögum, má gera ráð fyrir því að hér stefni í afar harðvítugar kjaradeilur á næstu vikum og jafnvel mánuðum!

Af þessu tilefni er rétt að vekja sérstaka athygli lögreglumanna á ákvæði 24. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sem fjallar um afskipti lögreglu af vinnudeilum, en þar segir orðrétt:

„Lögreglu er óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.“

 

Til baka