Fréttir

Verkfallsvopnið brýnt!

29 apr. 2011

Greinilegt er á umfjöllun fjölmiðla um stöðuna í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði að ASÍ er nú – LOKSINS – farið að brýna verkfallsvopnið!  Þetta má t.d. lesa í þessari frétt á visir.is sem ber yfirskriftina „Nú eru þáttaskil – ASÍ lætur sverfa til stáls“.  Þetta má einnig lesa út úr yfirlýsingu ASÍ vegna þeirrar stöðu sem uppi er í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði! 

 

Í fréttinni kemur fram að af hálfu ASÍ sé litið svo á að Samtök Atvinnulífsins (SA) hafi haft launamenn að ginningarfíflum í þeim kjarasamningsumræðum sem átt hafi sér stað undanfarnar vikur og mánuði.  Ljóst er að sömu sögu er að segja er kemur að viðsemjendum opinberra starfsmanna en þar hefur, er kemur t.d. að Landssambandi lögreglumanna (LL), viðkvæðið verið það að ekki sé hægt að ganga frá launalið samninganna fyrr en ASÍ og SA hafi gengið frá sínum málum þar sem ríkisvaldið „vill ekki vera launaeiðandi á markaði“!

Nú, þegar þetta er skrifað, hafa lögreglumenn verið kjarasamningslausir í nákvæmlega 149 daga!!!  Síðasta MET var rétt um heilt ár þ.e.a.s. 365 dagar en eins og frægt er orðið færði LL fjármálaráðherra sérstaka afmælisköku af því tilefni!  Gæti það verið að fjármálaráðherra sé að bíða eftir annarri afmælisköku?  Ef svo er þætti LL vænt um að hann léti vita af því þar sem LL er aflögufært til að færa honum afmælisköku hvenær sem honum þóknast ef það yrði til þess að liðka fyrir því að við lögreglumenn yrðu gerðir viðunandi kjarasamningar!

Á þessu ári eru liðin ein fimmtán (15) ár frá því að LL gekk frá kjarasamningi í hverjum var kveðið á um það að LL afsalaði sér þeim mannréttindum að geta farið í verkfall til að knýja á um gerð kjarasamninga.  Þeir kjarasamningar voru gerðir undir HÓTUN um að verkfallsrétturinn yrði, hvernig sem færi, tekinn af lögreglumönnum með lögum!  Sitt hefur hverjum sýnst um framkvæmd kjarasamningsins árið 1986 og þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið í kjölfarið en eitt er klárt og það er það að engu auðveldara hefur verið, fyrir lögreglumenn, að sækja sínar kjarabætur í samræmi við fögur fyrirheit fyrrverandi fjármálaráðherra og eða inntak gerðra kjarasamninga.  Þetta kemur berlega fram í ályktunum fyrsta fundar LL sem haldinn var á því herrans ári 1968 en megnið af þeim ályktunum sem þá voru samdar er hægt að birta óbreyttar í dag – fjörtíu og þremur (43) árum eftir að þær voru samdar.  Þessi einfalda staðreynd segir meira en mörg önnur orð um efndir og fögur fyrirheit ríkisvaldsins er kemur að stétt lögreglumanna!

LL mun styðja við hvert það verkalýðsfélag sem lýsir yfir verkfalli til að knýja á um bætt kjör til handa sínum félagsmönnum!

 

 

Til baka