Fréttir

Ályktun aðalfundar Lögreglufélags Norðurlands vestra

1 maí. 2011

Aðalfundur Lögreglufélags Norðurlands vestra fagnar því að innanríkisráðherra hafi tekið undir þau sjónarmið lögreglumanna, sveitastjórna og annarra þeirra er málið varðar,  að við sameiningu lögregluembættanna í landinu verði embættin á Blönduósi og á Sauðárkróki sameinuð í eitt embætti. Er þar horft til svokallaðrar 2020 áætlunar og sameining sem þessi yrði þá í takt við þær tillögur sem að þar koma fram. Eru lögreglumenn á Norðurlandi vestra mjög ánægðir með að innanríkisráðherra hafi hlustað á rök heimamanna og komist að þessarri niðurstöðu.

Lögreglumenn leggja þó áherslu á það að fjárhagur nýrra lögregluembætta verði tryggður en útfærslu á því vantar með öllu í frumvarpið og er það lögreglumönnum nokkurt áhyggjuefni.

Einnig vilja lögreglumenn á Norðurlandi vestra ítreka mikilvægi þess að gert verði faglegt mat á öryggis-, og þjónustustigi lögreglunnar í landinu og þegar að það liggur fyrir sé mannaflaþörf metin að nýju með tilliti til þess.

Til baka